08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af því, sem síðasti ræðumaður sagði, að þetta stæði að nokkru í ríkisins valdi. Það er rétt, að nokkru leyti. Ef það væri fyrir hendi nægilegt fjármagn til að byggja upp á þessum jörðum, þá hefði það þetta á valdi sínu. En þegar svo er komið, að ríkið getur ekki byggt upp á prestssetrunum, þá er þess ekki að vænta, að það geti byggt yfir hvern einasta bónda. Þetta er eitt með öðru, sem skýrir, að bændurnir vilja fá jarðirnar keyptar. Það er líka annað, sem liggur í þessu. Það er margsannað, að ef ríkið byggir, þá verður það miklu dýrara en ef einstaklingurinn byggir og hefur alla framkvæmd og umsjón um það. Þar af leiðandi verður það oft þannig, að ef einstaklingurinn á jörðina og vinnur sjálfur að framkvæmdum á henni, komast ýmsir ótrúlega létt út af slíkum framkvæmdum, sem ella mundu kosta stórfé. Þetta ýtir á það að láta þessa menn leysa málin, heldur en ríkið geri það með ærnum kostnaði. Hitt atriðið, um það, að jarðirnar fari í brask, þá er það ástæðulaus ótti, því að það er vaxandi skilningur hjá bændum á því, hve mikil bölvun er að jarðabraskinu. Er og þetta, að einstaklingarnir eignist jarðirnar til erfðaábúðar, raunhæfasta öryggisatriðið til þess, að jarðirnar lendi ekki í braski.