08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. lét orð falla um það, að umsóknir bænda um kaup á leigujörðum mundu fram koma vegna þess, að ríkið vanrækti að byggja upp á jörðunum. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að þeir, sem búa á ríkisjörðum með erfðaábúð, hafa sömu möguleika til þess að fá lán gegn veði í jörð eins og sjálfseignarbændur, og mitt álit er það, að ekki sé síður aðgengilegt að búa á ríkisjörðum, ef menn hafa erfðafestu, en menn hafa nú á þessu mismunandi skoðanir, og þó að menn búi við svona kjör, þá eru margir, sem kjósa heldur að eiga jarðirnar sjálfir, þótt aðrir telji eins aðgengilegt að búa á ríkisjörðum með erfðafestu, enda eru þá engu minni möguleikar fyrir niðjana að njóta verka feðra sinna. Út af þessu máli vil ég segja það, að ég get fallizt á að samþ. það, úr því að þeir, sem þar eiga hlut að máli, óska að eignast jarðirnar. Eðlilegast er að hafa um þetta sem mest frjálsræði, svo að þeir, sem vilja kaupa, geti það, en ég tel engu að síður heppilegt, að ríkið eigi jarðir til þess að leigja með erfðafestu þeim, sem þess óska, því að það getur auðveldað ungum og efnalitlum mönnum að hefja búskap, með því að þá þurfa þeir ekki að leggja fram stórfé til kaupa á ábúðarjörð sinni.