12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta til þess að tefja ekki þessar umr. Ég skal ekki ræða frekar um Birgisvík, en vegna athugasemda, sem gerðar voru við ræðu mína, vil ég segja, að það er augljóst mál, þó að heimilað verði að selja Birgisvík, þá er það ekki tekið fram, að það eigi að selja þessum manni jörðina, því að hreppurinn hefur að sjálfsögðu forkaupsréttinn, og getur hann því ekki fengið jörðina keypta nema hreppurinn afsali þeim réttindum. Það er vegna þriggja ábúenda í Veiðileysu, að hreppurinn vill ekki sleppa forkaupsrétti sínum til manns í öðrum hreppi.

Ég skal ekki vera langorður um opinberar jarðir, en ég tel það ekki mikinn gróða á almennan mælikvarða, þó að ábúandinn fái heimild til þess að kaupa jarðirnar með því skilyrði að nota þær sjálfur, en selja þær ekki. Þeir græða þá ekki annað en það, að þeir fá góða jörð til þess að búa á. Hvað viðvíkur byggingum á þessum jörðum, þá er eðlilegt að fallast á þau rök, að það þarf stórfé til að byggja upp jarðirnar, og held ég, að enginn landbrh. hafi neitað ábúanda að byggja upp á jörð sinni, sem er skylt að nota, og neiti jafnframt að nota aðra heimild til þess að ábúandinn geti orðið óðalseigandi, enda er eðlilegt að nota þessar heimildir. Skv. annarri heimild eiga ábúendur heimtingu á, að jarðir þeirra séu gerðar að óðalseign, eftir að þeir eru búnir að búa þar í 3 ár. Viðvíkjandi samningi um kostnað við byggingarnar, þá hvílir skyldan öll á ríkinu. Það er eðlilegt, að menn séu tregir til þess að leggja mikið fé í byggingar á jörðum, sem þeir eiga ekki sjálfir og vita ekki, hvort afkomendur þeirra njóta þeirra nokkurn tíma, og um þetta verður mikil togstreita. Viðvíkjandi byggingum á jörðum, sem bændurnir eiga sjálfir, þá eiga ræktunarsjóður og nýbýlasjóður að veita styrk til þeirra bygginga. Þá leggja ábúendurnir sig alla fram til þess að koma þeim upp með sem minnstum kostnaði. Ég vil taka fram, að þetta er góð bending um að gera skýrslur um jarðir í opinberri eigu, og tel ég það bæði rétt og nauðsynlegt. Ég vil taka það fram, að ég mun nota þessa heimild, en aldrei án þess að leita til nýbýlasjóðs um það, hvort jörðinni verði skipt, og hef þær takmarkanir á þessari reglu. Nú stendur til að selja jörð í Árnessýslu, og verður það mál skiljanlega lagt fyrir nýbýlastjórn og hún látin segja sitt álit á málinu.