15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því og við í landbn., sem athuguðum þessa brtt. nákvæmlega, að einstaklingur úr Árneshreppi keypti jörðina, og þá er orðalag frv. ekki því til fyrirstöðu, að jörðin verði gerð að ættaróðali. Ég verð að segja það, að eins og hæstv. landbrh. lýsti þessari jörð og aðstæðum öllum, þá er alls ekki loku fyrir það skotið, að kaupandanum, sem mér skilst að sé ungur maður, detti í hug að selja hana síðar, og því vafasamt að láta kaupin vera því háð, að hún verði gerð að ættaróðali. En ef enginn maður fæst til að byggja þessa jörð öðruvísi en vera annars staðar, þá verður að skeika að sköpuðu með kaupin, og ríkisstj. verður þá að leita til löggjafans um það mál. Og ég get þess, að það er mín skoðun, að ég tel ekki frágangssök, að einstaklingur fái hana keypta, þó hann geri hana ekki að ættaróðali. En þá um leið þarf ekki að leita til löggjafans, þar sem ábúandinn hefur fengið erfðaábúð, því að hann getur þá gengið að því að heimta hana til kaups, ef ekki er um sérstök atvik að ræða, sem gera það, að alls ekki má selja hana, svo sem að hún sé nauðsynleg til félagslegra framkvæmda eða því um líkt. En yfirleitt er mitt álit í sambandi við þessar jarðir þarna norður frá, að þeim sé betur borgið undir umsjá einstaklinga heldur en að ríkið sé að baksa við að leigja þær og að þær gangi í gegnum marga liði með óánægju, eins og virðist vera með þessa jörð, Birgisvík, að Árneshreppur er óánægður með, að hún skuli vera leigð utansveitarmanni.

Undir þessum kringumstæðum, þar sem um er að ræða jörð, sem komin er í eyði, tel ég réttara og hið eina sjálfsagða að treysta á einstaklingsframtakið til að bæta þar úr, og með því sé frekast von til, að ábúandinn nýti viðkomandi jörð á sómasamlegan hátt. Því mæli ég ekki á móti því, að þessi jörð verði seld, og í trausti þess, að viðkomandi ráðherra geri ekki glappaskot í þessum málum, þá mæli ég með því, að þessi heimild verði veitt í þessu tilfelli.