17.01.1951
Neðri deild: 51. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur tekið lítils háttar breyt. hjá hv. Ed., og er hún aðallega í því fólgin, að það skuli skrásetja allar dráttarvélar, sem til eru og væntanlega verða í eigu landsmanna. Þetta er að vísu ekki mikil breyt., en mun þó hafa dálítinn kostnað í för með sér fyrir þá, sem vélar eiga, ekki skráningin sjálf, heldur það, sem þeir þurfa að kaupa, til þess að skrásetningin taki gildi, svo sem númersspjöld o.fl. En hv. landbn. hefur fallizt á þessar breyt., og geri ég ráð fyrir, að hv. þd. geri það sama.