18.01.1951
Neðri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja smábrtt. við frv., um að fella niður a-lið við 2. gr., um að skylt sé að skrásetja allar dráttarvélar. Ég minntist á það í gær, að ég teldi það óþarfa og skriffinnsku að skrásetja dráttarvélar. Út af fyrir sig er það líka nokkur kostnaður.

Hætt er við, að þetta fari á svipaða leið og um dráttarvagnana hér á hafnarbakkanum. Fyrst voru þeir notaðir án þess að vera skráðir, og verkamenn máttu nota þá, þótt þeir hefðu ekki bílpróf. Síðan komu kröfur um að tryggja þá, svo um að þeir yrðu skrásettir og loks, að mennirnir, sem notuðu þá, hefðu bifreiðarstjórapróf. Og þannig yrði það líklega í sveitunum. Það er augljóst, hve mikill kostnaður er við þetta og hve mikill óþarfi. Er það í fyrsta lagi kostnaður við trygginguna, og í öðru lagi er það mikill kostnaður, ef enginn má stjórna dráttarvél nema sá, sem hefur bifreiðarstjórapróf. Er það fyrst kostnaður við prófið, og svo eru engir eða fáir á heimilinu, sem hafa prófið, og mega því ekki stjórna vélunum. Oft hafa unglingar verið látnir stjórna dráttarvélunum og engin slys hlotizt af. Er vert að staldra við og athuga, hvað þetta felur í sér fyrir bændastéttina bæði sem kostnaður og óþægindi.

Nú mætti ef til vill segja, að ekki væri gott að koma með brtt. nú og gæti orðið til þess, að málið dagaði uppí. Ég vil heldur, að málið dagi uppi en frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er. — Þótt þessi till. verði samþ., á málið eftir að koma til umr. í Sþ., og það er ekki nema nokkur hluti þingmanna, sem vill hafa þetta með í frv. Vænti ég þess, að hv. þingmenn athugi, hvað skrásetning felur í sér og hvað kemur á eftir. Það verður sama sagan og um dráttarvagnana á hafnarbakkanum.