18.01.1951
Neðri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Rang. Hann tók sem rök gegn skrásetningu dráttarvéla í sveitum þetta um dráttarvagnana við höfnina. Þetta ætti miklu frekar að vera rök fyrir því, að dráttarvélarnar yrðu skrásettar. Vélarnar við höfnina voru búnar að vera þar í ein 3 ár, þegar þær voru skrásettar. Þær keyra nú um bæinn með stór hlöss og fara út úr bænum, og dettur engum í hug að hafa þær óskrásettar. Sama finnst mér við eiga um dráttarvélar, sem fara um götur í sveitum með 10–12 manns í kerru aftan í. Ef eitthvað kemur fyrir, er ekki til of mikils mælzt, þó dráttarvélin sé skrásett, svo að menn geti vitað, hver á hana. En ég er á sama máli og þeir, sem á undan hafa talað, að það er ekki gott að vita, hvað verður.