11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

148. mál, sóttvarnir gagnvart útlöndum

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af heilbr.- og félmn. eftir ósk heilbrmrn., og það er samið af landlækni. Frv. fer fram á, að hækkuð verði gjöld vegna sóttvarnareftirlits í skipum frá því, sem nú er, en um þau gilda lög frá 1933, og voru þau þá tekin óbreytt frá því, sem þau höfðu verið ákveðin í lögum frá 1902. Er skiljanlegt, að gjöld þau séu ekki mikill peningur núna, þar sem verðlag allt er mjög breytt, og í frv. er farið fram á það, að þau verði tífölduð, að gjaldið af skinum innan við 60 smálestir verði 40 kr. í stað 4 áður og hækki síðan eftir stærð þeirra og verði 100 kr. af skipum, sem eru yfir 100 smálestir. Ég held, að það sé ekki nema sanngjarnt að verða við þessari ósk, þegar þess er líka gætt, að þessi gjöld áttu að renna í sjóð, sem skyldi varið til endurbóta á sóttvarnarhúsi ríkisins. Þetta hefur þó verið vanrækt og féð verið notað til annars, sem menn geta séð á skýrslu fjmrn., er fylgir frv., en nú mun hugmyndin að reyna að safna í sjóð, sem yrði hægt að verja til að endurbyggja sóttvarnarhús, en á því mun víst sannarlega ekki vera vanþörf. — Nefndin mælir með því, að frv. verði samþ., og þarf ég þá ekki að fara öllu fleiri orðum um það að sinni.