25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

148. mál, sóttvarnir gagnvart útlöndum

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. var borið fram í Nd. af heilbr.- og félmn. þar samkv. ósk heilbrigðismálaráðherra. Er það landlæknir, sem hefur samið frv. Efni frv. er það, að gjald það, sem skip greiði fyrir sóttvarnareftirlit, hækki fyrir skip, sem ekki ná 60 smálestum, í 40 krónur, fyrir þau, sem eru frá 60 upp að 100 smálestum, 60 krónur, og 100 krónur af skipum, sem eru yfir 100 smálestir, auk kostnaðar við flutning sóttgæzlumanns út í skipið. Gjöld þessi eiga að renna í sóttvarnarsjóð, sem er ætlað að standa undir byggingu og rekstri sóttvarnarhúsa. Nefndin athugaði frv. og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. eins og það barst frá Nd. — Um þetta voru allir nm. sammála, en hv. 10. landsk. var ekki viðstaddur, er frv. var afgr., en ekki er kunnugt um, að hann hafi neitt við það að athuga.