12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

46. mál, orkuver og orkuveita

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í sambandi við þessa skrifl. brtt. iðnn. Mér finnst bera einkennilega að, að skrifl. brtt. skuli koma fram við 3. umr. um nýja rafveitu, sem kostar um 2 millj. kr., og þm. hafi ekkert tækifæri til að kynna sér, hvernig þetta mál er undirbúið. Ég fyrir mitt leyti vil óska þess, að áætlun raforkumálastjóra væri prentuð á þskj. ásamt hinni skrifl. brtt., svo að þm. gæfist kostur á að sjá, hvernig þetta mál er. Ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til málsins á augnabliki án þess að hafa nokkurt tækifæri til að kynna mér, hvað um er að ræða. Það er það minnsta, sem hægt er að fara fram á, þegar um svo mikla fjárhæð er að ræða sem hér er, þótt það sé í heimildarformi, að þm. gefist kostur á að kynna sér málið til hlítar og lesa þá áætlun og meðmæli, sem hér eru á ferðinni frá raforkumálastjóra um þetta mál.

Ég efast ekki um það, að raforkumálastjóri hafi gert áætlun um þessa virkjun, en mér er ókunnugt um, hvort hann telur þessa virkjun sérstaklega æskilega, hvort hann telur hana nauðsynlegan þátt eða lið í því, sem á að gera þar eystra í sambandi við raforkumál. Það má vel vera, að svo sé, en þá er það ómaksins vert, að gerð sé grein fyrir því, hvað hér er um að ræða. Það, sem ég þá fer fram á, er þetta, að umr. sé frestað og þetta álit verði prentað ásamt brtt., til þess að það liggi fyrir til athugunar.