12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

46. mál, orkuver og orkuveita

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vona, að enginn hafi skilið svo, að ég hafi verið á móti þessu máli. Það kom ekki fram hjá mér. Ég er aðeins á móti þeirri aðferð að koma með skrifl. brtt. um 2 millj. við 3. umr., án þess að þm. hafi nokkurt tækifæri til að kynna sér, hvað hér er á ferðum. Það er dálítið óvenjulegt. Ég skil ekki, hvernig stendur á því, ef n. hefur viljað leggja alúð við þetta mál, að hún skuli ekki hafa komið till. á framfæri með öðrum hætti.

Ég býst við, að það sé rétt, sem hér er sagt, að raforkumálastj. mæli með því og þetta hafi verið ágætlega athugað. En ég býst ekki við, að hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn að staðfesta, að það sé ekki unnt að gera meira í raforkumálum fyrir heilan landsfjórðung en þessa einu veitu. (Fjmrh.: Eins og stendur.) Ég veit, að Austfirðingar vilja fá meira, sem ekki er að undra, því að þessi 750 hestöfl ná ekki nema til Egilsstaða, Eiða og örfárra bæja. Þetta kemur því ekki að gagni fyrir heilan landsfjórðung, heldur aðeins þessa fámennu byggð.

Þess vegna er það, að ég er ekki búinn að fá það staðfest, að fyrir liggi ummæli frá raforkumálastjóra, að hann telji, að þetta sé heppilegasta lausnin á raforkumálum þessa landsfjórðungs. Ég er ekki heldur búinn að sjá, að hann telji rétt að ráðast í þessa virkjun. Ef það er á þeim blöðum, sem hv. frsm. hefur fyrir framan sig, þá er ekki í of mikið ráðizt, þótt þær upplýsingar séu prentaðar á þskj. og þm. fái að sjá það svart á hvítu. Mér er kunnugt um, að það er ýmislegt fleira í sambandi við raforkumál Austfjarða og ýmsar fleiri till. hafa verið uppi, reistar á rannsókn til athugunar og undirbúnings á því, sem gera mætti í raforkumálum fyrir þennan landsfjórðung. Þetta yrði allt ljósara, ef við fengjum þessi ummæli raforkumálastjóra og áætlanir til lestrar og athugunar. Ég vil því eindregið óska þess, að málinu verði nú frestað og það tekið af dagskrá til frekari athugunar, ekki til þess að hefta það, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, heldur aðeins til þess, að við fáum að gera okkur fulla grein fyrir, hvort það er rétt að samþ. þessa heimild um 2 milljónir fyrir þessa tiltölulega litlu rafveitu. Ég veit, að hæstv. fjmrh. gerir ekki ráð fyrir því, að þetta þing verði svo stutt, að ekki verði nægur tími til að koma þessu frv. í gegn, þó að því yrði nú frestað 1–2 daga. Ef þetta mál er eins og hann segir og hv. frsm. og fyrir liggja eindregin meðmæli og tilmæli raforkumálastjóra, þá er till. ekki í neinni hættu, þó að hún fái nánari athugun.