25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

46. mál, orkuver og orkuveita

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 79 er borið fram frv. í Nd. af hv. þm. N-Ísf. Efni þess er um heimild til að virkja Fossá í Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu til raforkuvinnslu í allt að 700 hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Bolungavíkur. — Þetta frv. er eins byggt upp og önnur frv. En frv. hefur tekið breytingum í Nd., og er m.a. bætt við ákvæði um að virkja „allt að 700 hestafla“ orkuver í Fossá og auk þess að virkja Grímsá í Skriðdal í Suður-Múlasýslu til raforkuvinnslu í allt að 750 hestafla orkuveri fyrir Egilsstaði, Eiða og nágrenni. 2. gr. fjallar um, að ríkisstj. heimilist að . taka lán fyrir hönd ríkissjóðs eða ábyrgjast lán, sem rafmagnsveitur ríkisins taka, að upphæð allt að 5 millj. króna, til greiðslu stofnkostnaðar þeirra mannvirkja, sem um getur í 1. gr. Af þeirri upphæð má taka sem lán úr raforkusjóði skv. 1. lið 35. gr. raforkulaganna allt að 1,6 millj. króna, þó eigi meira en sem nemur 1/3 hluta af stofnkostnaði mannvírkjanna. Þetta mál var sent til raforkumálastjóra, og er umsögn hans um þetta mál á þskj. 279. Þar bendir hann á, að ekki sé heppilegt að fara inn á þessa braut, að ríkið taki að sér að virkja smærri virkjanir, er það hlutverk sjálfra héraðanna. Það er annað með stórar virkjanir, eins og Sogið og Laxá, en annað ætti að vera verk héraðanna. Raforkumálastj. varaði við þessari braut. Iðnn. þessarar d. hefði getað fallizt á þetta, ef með því hefði verið farið inn á nýja leið, en það er ekki gert, heldur er farið inn á þá braut, sem raforkumálastjóri varaði við. Hér er farið fram á aðstoð við smávirkjanir, og er það engan veginn verjandi að neita nú þessum héruðum um sams konar hlunnindi og sjálfsagt hefur þótt að veita öðrum héruðum. Hér er ekki farið inn á nýja braut, heldur þá braut, sem Alþingi fór inn á 1947 og mátti þá vita, að yrði haldið lengra inn á.

Ef frv. verður ekki samþ., þá mundu þessi héruð ekki fá rafmagn um óákveðinn tíma. Þess vegna hefur iðnn, þessarar d. lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt frá því, sem það liggur nú fyrir.

Það er á valdi hæstv. ríkisstj., hvenær hægt er að byrja á verkinu, og ekki er hægt að byrja á því fyrr en nægilegt fé er fyrir hendi og verður ekki byrjað á verkinu fyrr en viturlegt þykir.

Ætla ég ekki að fjölyrða þetta meira. Málið liggur skýrt fyrir, og vænti ég þess, að Alþingi samþykki frv. eins og það nú er.