25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

46. mál, orkuver og orkuveita

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að iðnn. skuli hafa einróma mælt með þessu frv. og vænti þess, að deildin samþykki það. Málið er skýrt í fskj. En ég vil benda á örfá atriði. Það eru allmörg ár síðan virkjun hófst á Reiðhjalla hjá Bolungavík, eða á árunum 1920–1930. Fóru þá vatnsmælingar fram þar, og var sýnt, að hægt var að virkja um 700 kílówött. Mannvirki það, sem nú er komið, er hluti af stíflu og var kostnaður þá þúsundir króna. Ég hef séð staðinn og býst við, að nú mundi það kosta nokkur hundruð þús. króna. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þessi virkjun sé örugg, miðað við kynni mín af öðrum virkjunum. Fallið er ágætt, er fallhæðin á þriðja hundrað metrar.

Augljós er þörfin fyrir raforku í Bolungavík. Þetta er fiskiþorp, og hefur verið komið upp fiskiðnaðarmannvirkjum, frystihúsi og fiskimjölsverksmiðju. En öryggi slíkra staða er hvergi nærri fullnægjandi fyrir svo þýðingarmikinn atvinnurekstur sem þarna er um að ræða. T.d. var Bolungavík meira og minna rafmagnslaus núna um jólin, þorpið í myrkri og nokkur hætta á, að verðmæti, sem geymd voru í hraðfrystihúsinu, yrðu fyrir skemmdum. Vélarnar í rafstöðinni eru nokkurra ára gamlar, og erfitt að fá varahluti til þeirra, og það er allískyggilegt fyrir þessi sjávarþorp, sem svo mikið eiga undir rafmagninu, ef varahlutir í aflvélarnar verða ófáanlegir. Mér varð sérstaklega ljós sú hætta, sem vofir yfir þessum þorpum, þegar ég kom til Bolungavíkur og vélarnar þar höfðu ekki getað starfað í nokkra daga.

Verðið á rafmagninu í Bolungavík og sjávarþorpunum á Vestfjörðum — og þannig mun vera víðar, þar sem raforka er framleidd með mótorafli, — er meira en 2 kr. á kwst., og geta allir séð, hve þungbært það er fólki, sem ekki hefur of góða afkomu eins og flestir nú, er við sjávarútveginn vinna.

Ég þykist með þessum orðum hafa gefið örlitlar upplýsingar um, hvernig virkjunaraðstaðan er þarna, hve þörfin er brýn og hve mikið verðmæti er raunverulega í hættu í útgerðarþorpum eins og Bolungavík, ef ekki er hægt að tryggja staðnum meira öryggi um framleiðslu raforku en hægt er með mótorrafstöð. Virkjunarskilyrði á Reiðhjalla í Syðridal eru hin ákjósanlegustu, og ef reist verður 700 kw. stöð, þá mun hún nægja Bolungavík um alllanga framtíð; það er sízt minni raforka en er frá Soginu í hlutfalli við tölu notenda.

Það er von mín, að þetta frv. nái fram að ganga. Bolvíkingar eru búnir að stríða við að koma þessu upp í meira en tvo áratugi, og vonir standa til, að eitthvað verði gert, ef þetta fær afgreiðslu nú.