25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

46. mál, orkuver og orkuveita

Páll Zóphóníasaon:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. og er samþykkur því, að málið nái fram að ganga, en til þess liggja 2 meginástæður, sem ég vil láta koma hér fram.

Fyrri ástæðan er sú, að því fleiri virkjanir, smáar og stórar, sem ríkið tekur að sér, því meiri von er til, að það réttlæti komist á í rafmagnsmálunum, að rafmagnið verði selt með sama verði um land allt, og þetta er meginástæðan til þess, að ég fylgi frv., en þeirri stefnu hef ég fylgt og aldrei frá henni hvikað síðan ég setti mig fyrst inn í þessi mál árið 1931.

Hins vegar er mér alveg ljóst, að þetta frv., eins og svo mörg önnur frv., er flutt meira til að sýna það 'einstökum kjósendum en af því, að von sé til að til framkvæmda komi um sinn. Þannig var það einnig um Austurveg, bilferju á Hvalfirði, hótelbyggingu í Reykjavík o.fl. Allt eru þetta frv. flutt af einstökum þm. til að þóknast einstökum kjósendum, og get ég ekki sett mig á móti því, að menn fái svolítið plagg til að leika sér að eða flagga með, þó að ég sjái fram á, að það verða engar framkvæmdir hafnar eins og nú er.

Þetta tvennt gerir, að ég er með þessu frv., en þó aðallega það fyrra, því að því meira, sem samþ. er á Alþ. um rafveitur, sem ríkið á hlut í, því meiri líkur eru til, að þetta renni saman í eina heild og verði selt með einu og sama verði um land allt.