30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

57. mál, lóðaskrásetning á Akureyri

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Nd., þar sem það var upphaflega flutt að tilmælum bæjarstjórnar Akureyrar til þess að koma betra skipulagi á lóðamál bæjarins. Allshn. Nd. sendi merkjadómi Reykjavíkur og bæjarráði Reykjavíkur frv. til umsagnar og lét prenta álit þeirra sem fylgiskjal með nál. sínu. Einkum var leitað álits þessara aðila um það, hvort þeir teldu ástæðu til að setja löggjöf í heimildarformi, er næði til allra bæjarfélaga í landinu. Merkjadómur taldi ekki nauðsyn slíkrar löggjafar, en bæjarráðið taldi rétt að setja slíka löggjöf og mætti þá nota hana sem ramma fyrir þau bæjarfélög, sem vildu koma slíku skipulagi á hjá sér. Það kom fram í allshn. Ed., að rétt væri að frv. þetta næði fram að ganga, og taldi n., að eðlilegt væri, að frv. væri samþ. óbreytt.