02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Eins og grg. ber með sér, hefur meiri hl. fjhn., fjórir nm., tekið að sér flutning þess að beiðni hæstv. ríkisstj., á sama hátt og venja er til, að nefndir taka gjarnan að sér flutning mála fyrir ríkisstj. Þegar fjhn. hélt fund um þetta mál, var hv. 1. landsk. þm. (BrB) ekki mættur og tók ekki þátt í atkvgr. málsins, en kom rétt í fundarlok, og tjáði hann sig vera mótfallinn frv. Þess vegna er það, að frv. er flutt af meiri hl. fjhn., en ekki n. í heild.

Frv. sjálft og grg. þess bera með sér, af hvaða ástæðum það er flutt. Fjallar 1. gr. frv. um kaupgjald, en 2. gr. um verð landbúnaðarafurða. — Að því er 1. gr. snertir, er það vitanlegt öllum, að þegar l. nr. 117 frá síðasta árí voru sett nú fyrir jólin, var meining þeirra nákvæmlega sú sama og nú er í 1. gr. þessa frv. Það var meiningin, að vísitalan yrði sú sama og þá var, 123 stig, og þetta var ekki einasta skilningur hæstv. ríkisstj., sem lagði frv. fyrir Alþ. rétt fyrir jólin, sem samþ. var sem l., heldur kom það glögglega fram, að þetta var skilningur andstæðinga frv., því að þeir töluðu um, að með þessu væri í annað sinn verið að binda vísitöluna, og einmitt á þeim grundvelli var mótstaðan byggð, sem var gegn lagasetningunni, því að ef hún hefði verið skilin á sama hátt og Alþýðusamband íslands skilur hana nú, hefði auðvitað ekki verið um mótstöðu að ræða gegn frv. af hálfu þeirra, sem höfðu hana í frammi, því að þá hefði verið litið svo á, að þetta væri löggjöf, sem gengi í þá átt að bæta kjör verkalýðsins, og þeir þá vitanlega verið með henni. Það er því tvímælalaust, að ákvæði l. voru skilin á þann veg, sem ég hef lýst, af öllum, en nú hefur það komið í ljós, að ágreiningur er upp kominn um skilning l., og Alþýðusamband Íslands hefur beinlínis beint því til verkalýðsfélaganna úti á landi, að nú eigi kaupgjald að fara eftir vísitölunni og að það eigi að greiða fulla dýrtíðaruppbót samkvæmt vísitölunni á kaupgjald, en ekki miða við 123 stig, eins og menn álitu að l. hefðu ákveðið. Aftur á móti er það kunnugt, að atvinnurekendur hafa annan skilning á þessu ákvæði en Alþýðusambandið. Mér er kunnugt um það, að lögfræðinga greinir nokkuð á um þetta. Ég fyrir mitt leyti tel engan vafa á því, að l. í sjálfu sér verða ekki skilin á annan veg en eins og allir skildu þau í desember í vetur. En þar sem um ágreining er að ræða, er óneitanlega rétt að gera þetta alveg tvímælalaust. Hér er því ekkert nýtt mál á ferðinni, heldur aðeins staðfesting á því, sem gert var í desember og Alþ. ætlaði sér þá að gera. Ef til vill hefur mistekizt að gera það nógu skýrt, a.m.k. er svo talið af sumum, og frv. þetta er þá aðeins til þess að gera þau ákvæði skýrari.

Þá hefur það sama komið í ljós að því er snertir verð á landbúnaðarafurðum. Það er vitað, að framleiðsluráð landbúnaðarins telur sig geta hækkað verð á landbúnaðarafurðum án þess að fylgja þar um eldri ákvæðum um afurðasölu, þeim reglum, sem gilt hafa. Ég fyrir mitt leyti held, að þessi skilningur framleiðsluráðsins sé rangur, og hæstv. ríkisstj. tekur það fram í sinni grg., að hún líti svo á, en til þess að gera þetta ótvírætt kveður 2. gr. frv. svo á, að ákvæði gildandi l. um verðlag landbúnaðarafurða skuli haldast, en að hækka megi verð landhúnaðarafurða sem nemi hækkun á dreifingar- og vinnslukostnaði á sama hátt og verið hefur, m. ö. o., að um þetta gildi sömu reglur og verið hafa, því að það var alls ekki meiningin með breyt. á gengislækkunarl., að þessu yrði breytt.

Það var hæstv. viðskmrh., sem sendi n. þetta frv. með tilmælum um, að hún flytti það. Hann mun nú vera veikur, en það var tekið fram í bréfi hans, að hann sendi frv. fyrir hönd ríkisstj. Ég hafði skilið það svo, að öll ríkisstj. stæði að frv., og tel því víst, að hæstv. forsrh., sem hér er viðstaddur, og fleiri ráðh. geri grein fyrir þessu máli, að svo miklu leyti sem á kann að bresta, að ég hafi gert því glögg skil.