02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Haft er eftir stráknum, sem var í göngum og stóð sig ekki vel, að hann hafi sagt: „Nú gyrði ég mig enn í brók.“ Hann hafði verið flengdur tvisvar og var nú að hysja upp um sig brókunum í þriðja sinn. Það er svipað ástatt með hæstv. ríkisstj. og strákinn. Þetta er þriðja flengingin, sem hún fær, og sú hirting verður vel úti látin. Hæstv. ríkisstj. gyrti sig í brók í fyrsta skipti á s.l. sumri, er hún gerði heyrinkunnugt og gaf út brbl. þar að lútandi, að hún ætlaði að láta borga hærri uppbætur á laun en vísindalegur útreikningur sýndi. Þetta var alveg gegnsæ hræsni, er engum blandaðist hugur um, enda fór svo, að hæstv. ríkisstj. varð að afnema sin eigin brbl. Þar fór það. Svo á rétt fyrir jólin í vetur að lauma svikalögum gegnum þingið. Það er nú séð, að tilgangurinn var að binda allt kaupgjald, en þetta var gert með svo yfirdrifinni hræsni, að það lá við, eins og hv. 1. landsk. sagði, að maður tryði því, að hæstv. ríkisstj. meinti ekki annað en hún sagði, er hún þuldi þá og taldi rétt að ganga út frá því að gefa allt kaupgjald frjálst og færði mörg rök fram því til stuðnings, en nú er sýnt, að hæstv. ríkisstj. meinti ekki það, sem hún sagði. Hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, var meðal þeirra, sem sögðu, að nú væri verið að gefa allt kaupgjald frjálst. Nú er sýnt, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki meint það, sem trúnaðarmaður hennar, hæstv. viðskmrh., sagði, heldur var tilgangurinn að binda kaup verkamanna eins rammlega og kaup opinberra starfsmanna og gera engan mismun þar á. Til þess að sýna fram á, að reynt var að telja mönnum trú um, að ekki væri meiningin að binda vísitöluna, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, benda á örfá dæmi úr málflutningi við umr. um 33. mál hjá hæstv. viðskmrh., Birni Ólafssyni. Hann sagði í framsöguræðu fyrir brtt. sinni t.d. þetta: „Þetta ákvæði er á engan hátt nokkur binding á kaupgjaldi, heldur er fellt úr gildi, að kaup sé lengur tekið samkvæmt vísitölu, þannig að kaupgjald er ekki lengur bundið.“ Það er sem sagt verið að létta hömlum, en ekki svipta neinn frjálsræði, en er hann var spurður um þetta nánar, sagði hann ákveðið á þessa leið: „Hv. 1. landsk. sagði, að með því að samþ. brtt. mína á þskj. 399 væri verið að stofna til ófriðar í landinu og að réttur væri tekinn af öllum launþegum í landinu og verið væri að binda kaupgjaldið, en hér er ekki verið að binda kaupgjaldið, heldur gefa það frjálst, enda eru þetta sömu rökin hjá hv. þm. og sett voru fram, þegar þau ákvæði voru sett, sem nú er verið að fella niður.“

Við þessar umr. sagði ég eitthvað á þessa leið: Þótt það sé augljóst mál, að engin smuga sé til fyrir opinbera starfsmenn til þess að hækka sitt kaup á árinu 1951, hversu óstjórnlega sem dýrtíðin í landinu hækkar, þar sem vísitala þeirra er með lagaákvæðum bundin við 123 stig, hvernig ætlar þá hæstv. ríkisstj. að hafa opinbera starfsmenn ánægða, ef fer nú svo, að treysta megi orðum ráðh., vísitalan fari upp í 140–160 stig, en vísitala fastra launþega sé bundin við 123 stig? Heldur ríkisstj., að framkvæmdarvaldinu takist að halda opinberum starfsmönnum í slíkum viðjum? Og hún hefur vafalaust haldið, að hægt væri að hafa alla launþega í slíkum viðjum, þó að það hafi nú sýnt sig, að þessi lög voru ekki sá Gleipnir, sem ekki var hægt að slita sig úr. — En svörin, sem ég fékk frá tveim stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., þeim hæstv. viðskmrh. (BÓ) og hv. frsm. þessa máls (GJ), voru á þá leið, að það væri ekki nema sjálfsagt, að verkamenn fengju hærri laun en opinberir starfsmenn. Þeim tókst vel upp með rök, og hv. þm. Barð. sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í sambandi við fyrirspurn hv. 6. landsk. til ráðh. um það, hvort hann héldi, að starfsmenn ríkis og bæja mundu una því, þegar vísitalan væri bundin við 123 stig, að vinna fyrir óbreytt kaup, þá vil ég segja, að ég get vel hugsað mér það. Starfsmenn ríkis og bæja hafa allt aðra aðstöðu en verkamenn. Þeir hafa örugga atvinnu allt árið, almennt styttri vinnutíma en verkamenn og geta því oft unnið annað með sínum föstu störfum, og þeir eru, ef svo má segja, tryggðir frá vöggunni til grafarinnar, og hefur það sýnt sig bezt nú, þegar Árni Sigurðsson fríkirkjuprestur er fallinn frá, þá þarf ríkissjóður að hlaupa undir bagga með ekkju hans og það enda þótt hinn látni væri ekki í þjónustu ríkisins. Þessir menn hafa allt aðra aðstöðu en verkamenn, ef þeir eru sjúkir, fá þeir sjúkratryggingu, og þegar ellin sækir þá heim, halda þeir fullum eftirlaunum, en verkamenn verða að sætta sig við lítilfjörleg ellilaun eftir 67 ára aldur. Af öllum þessum ástæðum er eðlilegt, að þeir sætti sig við lægri laun en verkamenn.“

Þannig túlkuðu þeir hugarfarið fyrir jól. Ég tók undir þetta og taldi þetta góð rök, þó að mér hefði þótt enn meira til þeirra koma, ef þau hefðu komið af munni hæstv. viðskmrh., en hv. þm. Barð. þurfti hér sem oftar að svara fyrir barnið. En var svo hæstv. viðskmrh. á móti þessu? Nei, þegar hann komst að, kvaðst hann vilja taka undir það, sem hv. þm. Barð. hafði sagt, er hann benti á, að fastir starfsmenn hefðu tryggari vinnu en verkamenn. Þetta er stórt atriði, sagði hann, þegar erfiðar kringumstæður gera það nauðsynlegt að binda vísitölu opinberra starfsmanna í eitt ár; öryggisleysi verkamanna er miklu meira og verra en það.

Af þessu, sem ég nú hef haft eftir hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Barð., umboðsmanni stjórnarinnar og einum valdamesta manni innan hennar, er ljóst, að þegar jólalögin voru afgreidd, taldi stjórnin, að verkalýðurinn í landinu ætti rétt á að búa við hærri laun en opinberir starfsmenn. Nú eru jólin að baki, og þá á að lögbinda vísitöluna við 123 stig. Ég var sama sinnis fyrir jól og ég er enn þá, að það sé eðlilegt, að verkamenn fái hærri laun en opinberir starfsmenn, að þeir fái laun sín bætt með hærri vísitölu til þess að vega upp á móti öryggisleysinu, sem þeir hafa í atvinnu sinni. Nú er hægt að beita því fyrir sig í baráttu við atvinnurekendur, að þetta séu rök þeirra hv. þm. Barð. og hæstv. viðskmrh., og ég beinlínis hlakka til að beita þessum rökum á atvinnurekendur á Vestfjörðum. En heldur þykir mér hv. þm. Barð. genginn af staðfestu sinni, — ég hef ekki vanizt því, að hann segði eitt í dag og annað á morgun, — ef hann er þátttakandi í sköpun þessa fósturs, sem hér er á ferðinni.

Það fór sem sé á þann veg, að allt það, sem hæstv. ráðh. sagði um frjálsræði verkalýðssamtakanna og um þær hömlur, sem væri verið að létta af alþýðusamtökunum fyrir jólin, reyndist vera ósannindi. Og hann fullyrti, að að þessu stæði öll ríkisstj. með sér. Aðspurður sagði hann, að öll ríkisstj. stæði að þessu með sér. Þegar hæstv. ríkisstj. er þannig tvívegis búin að haga sér við alþýðusamtökin eins og hún hefur gert, þá er ekki við öðru að búast en að það fari heldur að minnka traust alþýðusamtakanna til slíkrar ríkisstj., þegar nú, þrátt fyrir það þótt alþýðusamtökin hafi ekkert aðhafzt annað en að notfæra sér það margyfirlýsta frelsi, sem hæstv. ríkisstj. þóttist hafa gefið alþýðusamtökunum, og þau hafa ekkert af sér brotið, þá á að setja kaupbindingu á verkalýðssamtökin. Þetta á að gera, þegar þau ætla að nota sér það fyrir fram boðna og lögleyfða frelsi. Og vitanlega verður þessu svarað með allsherjarverkföllum, vegna þess að hæstv. ríkisstj. er búin að brjóta af sér alla vinsemd og allt traust hjá alþýðusamtökunum. Og þennan frv.-snepil, sem ég held hér á í hendinni, ætlar svo hæstv. ríkisstj. að nota sér fyrir skjól. Eftir nokkra daga, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að hafa ánægjuna af að þvinga þessi lög í gegn á Alþ., verður ófriður skollinn á í þessu þjóðfélagi, sem verður þjóðfélaginu dýrari en að láta verkalýðinn fá fulla, lögleyfða vísitöluuppbót á laun sin. Það er víða svo, að það þarf ekki að bíða eftir uppsagnarfresti á kauptaxta, til þess að ófriður sé skollinn á við ríkisstj. og átök takist milli alþýðusamtakanna í landinu og ríkisstj., ef hún leggur sig í bleyti til þess að samþ. þvingunarlög sem þessi. Hæstv. ríkisstj. bjargar sér ekki með lagasetningu héðan af. Helzta leiðin fyrir hana væri að reyna að skríða til þess að reyna að ná samkomulagi við alþýðusamtökin í landinu. Og þetta ætti henni ekki að þykja vera neitt sem hún bryti odd af oflæti sínu með, þó að hún skriði á maganum til þess. Hún er í því búin að fá nokkra æfingu, með því að afnema sín eigin bráðabirgðalög. Og það var áreiðanlega það skynsamlegasta, sem hún gat gert þá, að lúta lágt og játa sína yfirsjón.

Ég er ekki að tala hér sem einstaklingur. Það þarf hæstv. ríkisstj. ekki að halda. Ég tala hér ekki umboðslaust. Ég tala hér í umboði alþýðusamtakanna á Íslandi. Og það má hæstv. ríkisstj. vita, að alþýðusamtökin eru ekkert lamb að leika sér við, þegar búið er að fara að þeim eins og hér hefur verið gert. — Ég heiti því, að ég mun ekki liggja á liði mínu í verkalýðssamtökunum til þess að mæta hæstv. ríkisstj. Íslands með það umboð, sem ég get fengið á bak við mig í verkalýðshreyfingunni, til þess að hún fái svar við sínum gerðum, — til þess að hún fái bergmál úr skóginum, sem hún sjálf hrópar í að fyrra bragði.