02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Jónsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að ræða mikið um þetta mál, en hv. 6. landsk. skoraði á mig að gefa yfirlýsingu um það, að ég væri sama sinnis í þessu máli og fyrir jól. Ég verð að segja, að ég undrast mjög þann hátt, sem Alþfl.-þm. hafa tekið upp í sambandi við umr. um þetta mál, og alveg sérstaklega hv. 6. landsk. Það er orðasláttur, hótanir og tæplega þingleg orð notuð í sambandi við þetta litla mál. Ég vil leyfa mér að benda á, að l. eins og þau eru afgr. frá Alþ. 15. des. 1950 segja, að frá 1. febr. 1951 skuli laun ekki taka breyt. samkv. ákvæðum þessara l. Hefur nokkrum þm. dottið í hug, að þetta ætti eingöngu við laun embættismanna? Nei, þetta eru áreiðanlega svo skýr ákvæði, að þau eiga við öll laun í landinu. Með þessum ákvæðum er svo fyrir mælt, að laun skuli ekki taka breyt. eins og ákveðið er í 4., 5., 6. og 7. málsgr. 6. gr. laganna. Hins vegar er næsti málsl. til að tryggja, að menn hafi ákveðnar launauppbætur allt árið, og hitt er látið laust og bundið, og það er samningsatriði milli aðila, sem á að taka upp eftir að þessi l. hafa verið samþ. Mér sýnist því, að sú viðbót, sem hér er gerð á þskj. 611, að frá 1. febr. skuli laun ekki taka breyt. frá því í janúar á þessu ári, nema svo verði ákveðið í kjarasamningum gerðum eftir þennan tíma, gefi verkalýðnum meiri rétt en þeir eiga samkv. lögunum. Ef dómstólar dæma þannig, að ekki mætti hækka nein laun í landinu, hvort sem samningur er um eða ekki, þá var ekki frekar hægt að fá launahækkun samkv. vísitölunni. En það er hægt, ef þetta er samþ. Það er því ekki verið að ganga á rétt launþeganna í landinu, nema síður sé. Nú vil ég spyrja hv. 6. landsk.: Sér ekki hann og aðrir, sem eru á móti þessum ákvæðum, neina erfiðleika eða hættu við það að hafa framleiðslukostnaðinn háðan þeim launasveiflum í landinu, sem hann hefur verið undanfarið? (HV: Nei.) Nei? Já, það er þess vegna, sem þessir menn halda slíkar ræður, að þeir sjá enga hættu. Tökum bara útflutninginn, sem verður að miða kostnað sinn við framleiðslu á þann hátt, að hann geti selt hana með einhverjum hagnaði miðað við gildandi verðlag, og allt í einu verður hann að leggja á svo og svo mörg prósent til að standast aukinn kostnað. Þeir sjá enga hættu í þessu atriði. En þarna liggur sú stórkostlega hætta, ekki einungis fyrir atvinnurekendur, heldur miklu meiri hætta fyrir verkalýðinn, að atvinnumálin í landinu fari í strand, eins og hefur orðið m.a. á þeim stöðum, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, t.d. Bíldudal og Flateyri, þar sem ekki aðrir reka þessa atvinnu en verkalýðurinn sjálfur, svo sem frystihúsin og útgerðina. Þeir hafa orðið að gefast upp fyrir þær sveiflur, sem orðið hafa. (HV: Fer atvinnulífið á Flateyri af stað með samþykkt þessa frv.?) Ef það færi af stað á þessum stöðum eftir þeim kenningum, sem þessi hv. þm. heldur fram, að hækka launin, hvers vegna taka þessir menn sig ekki til og fara eftir sínum kenningum? Hvers vegna hækka þeir ekki launin hjá sér, án þess að spyrja Alþýðusambandið að?

Hvað hótanir hv. 6. landsk. snertir, er slíkt ekkert nýtt. Hann hótaði nákvæmlega því sama í haust, þegar hann var með bægslagang út af þessu máli, að beita Alþýðusambandinu á móti öllum atvinnurekendum í landinu og ríkisstj.

Út af því, sem hv. þm. spurði, hvort ég hefði enn sömu skoðun á þessu máli og í haust, skal ég svara alveg játandi. Hv. þm. hefði átt að lesa rétt það, sem hann las. (HV: Það var rétt lesið.) Það var slitið úr samhengi. Sá kafli ræðunnar, sem hann las upp, voru rök mín fyrir því, hvers vegna ég vildi ekki láta hækka laun embættismanna á s.l. þingi eins og var gert. Og það var ekki í sambandi við málið, sem hann minntist á, enda hvergi minnzt á vísitölubreytingu í þeim kafla. En hv. þm. er vanur að taka mál þannig, kippa úr samhengi, snúa öllum sannleika og halda allt öðru fram en menn hafa sagt. Ef hv. þm. vildi halda áfram minni ræðu, mundu skýrt koma fram í næsta kafla öll þau rök, sem ég færi fyrir því, að ekkert vit sé í því að halda áfram launahækkun í landinu og sízt af öllu að láta hana koma fram í vísitöluhækkun, vegna þess að það skapar svo mikið öryggisleysi í landinu. Og sannleikurinn er sá, að eini kaflinn, sem hlustandi var á í ræðu hv. þm., var kaflinn úr ræðu minni, og hefði hann átt að halda áfram að lesa þann kafla til enda. En þá hefði hann ekki getað slitið eins mikið úr samhengi og hann gerði.

Ég hef nú sýnt fram á tvennt: Annars vegar, að þetta frv. hefur ekki gefið neitt tilefni til þess ofstopa, sem hér hefur verið hafður í frammi af stjórnarandstöðunni, og í öðru lagi, að mín afstaða til þessa máls er gersamlega óbreytt frá því, sem var fyrir jól. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram, úr því að ég er beðinn um það, en hef hins vegar ekki hugsað mér að tefja þetta mál miklu lengur, því að sannleikurinn er sá, að það er útilokað að ræða alvarleg mál við menn, sem haga sér eins og hv. 6. landsk. Er merkilegt, að eftir að hann hefur setið á þingi þó nokkurn tíma, skuli hann ekki hafa öðlazt meiri ábyrgðartilfinningu en kemur fram í ræðu hans nú.