02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef lokið ræðutíma mínum og ætla því að gera stutta athugasemd.

Hæstv. ráðh. gaf svar við því, sem ég vildi fá að vita, hvers vegna hann vill ekki, að verkalýðurinn fái kauphækkun. Hann veit, að öll breyting á kaupgjaldinu hlýtur að kosta harðvítug verkföll. Hann sagði einnig, að stjórnin vilji ekki taka ábyrgð á kauphækkun. Þetta er einmitt ástæðan, sem ég gat mér til að væri. Hann vill velta ábyrgðinni af ríkisstj. á aðra. — Hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi, að verkalýðurinn og atvinnurekendur semdu um, hvaða kaup ætti að greiða í hvert sinn. Þessi réttur var samt tekinn með gengislækkunarlögunum. Ummæli hans eru því ekkert annað en hræsni. Hann sagði, að frv. væri borið fram vegna ágreinings á skilningi á lögunum, milli verkalýðsins og ríkisstj. En það stendur skýlaust, að það eigi að greiða kaup samkv. samningum, nema annað standi í lögum. Nú er engin önnur breyt. en sú, að nú er ríkari ástæða til að fá þessa uppbót greidda. Þessi lög eru sett vegna þess, að samningarnir eru svo skýlausir, að það þótti of mikið lagt á dómstólana að dæma rangt í þessu máli.