02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þó að margt hafi verið sagt hér, vil ég segja fátt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er ég ekki vel frískur og í öðru lagi finnst mér að mest af því, sem sagt hefur verið hér, hafi farið fyrir ofan garð og neðan við málið. Andstæðingarnir mótmæla þessu, en þó koma þeir með mismunandi skoðanir um, hvort þetta hafi verið skilið samkv. lögum. Hv. Alþfl.-menn mótmæla frv. og halda því fram, að hér sé verið að leggja nýjar kvaðir á verkalýðinn. Hv. 1. landsk. játaði, að í þessu frv. væri ekkert annað en það, sem vitað er að meiri hluti Alþingis ætlaðist til með þessum lögum í desember. Þá voru þessi lög þrautrædd, og er þetta ekki annað en endurtekning á því, sem þá var sagt. Hann spurði að því, hvers vegna þetta væri borið fram, og skildist mér, að við mættum vinna saman að því að bera þetta undir dómstól. Því var haldið fram af andstæðingunum, að með þessu frv. væri verið að binda verkalýðinn á kúgunarklafa. Hv. 6. landsk. vitnaði í ræðu við umr. í des. Sú skýring, er hv. þm. Barð. gaf, er rétt, þó að ég hafi ekki lesið þetta í handriti þingskrifara. Hv. þm. var að halda fram, að opinberir starfsmenn ættu ekki að hafa nema 15% dýrtíðaruppbót. Og hann taldi það sanngjarnt, þó að verkamenn hefðu hana hærri, en hv. þm. Barð. réð ekki við það, að svo há dýrtíðaruppbót var greidd opinberum starfsmönnum.

Og þó að ég telji ekki skyldu mína að verja hæstv. viðskmrh., þá verð ég að segja það, að hans orðum var snúið við eða a.m.k. gefin allt önnur merking. Hæstv. viðskmrh. var yfirleitt að sýna fram á það, að verkalýðsfélögin hefðu rétt til þess að semja eftir sem áður, þó að þessi lög væru sett. Og það hafa þau, þó að frv. verði samþ. Þetta er náttúrlega alveg víst, að verkalýðsfélögin geta samið um sitt kaup fyrir þessum l., ef þau geta náð samkomulagi við vinnuveitendur um annað kaup en það, sem nú er. Það er aðeins þetta, ef frv. verður að l., sem er slegið föstu, að löggjafarvaldið vill ekki beinlínis ákveða það, að kaupgjaldið hækki af sjálfu sér.

En er nú hér um nýtt ódæði að ræða? Ég vildi leyfa mér að minna bæði hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. landsk. þm. á það, að fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi, — kannske sú síðasta líka, ég veit ekki um það, það sýnir nú framtiðin, — hún bar fram og fékk samþ. lög, sem bundu vísitöluna. Þá var verðlagið miðað við verðlag 1939, sem sett var 100, og þau lög bundu vísitöluna við 300 stig. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, nemur úr gildi samninga, ef samþ. verður, þá hafa hin lögin, sem ég gat um, gert það líka. Og mér er óskiljanlegt, að svo hafi ekki verið um hin fyrri l. En þetta tal um það, að þessi l., ef frv. verður samþ., sem hér liggur fyrir, nemi úr gildi gamla samninga, er í sjálfu sér bara vitleysa. Ef samið er um það, að kaup sé þetta eða þetta, sem til er tekið í samningi, í grunn, og svo, að ofan á það greiðist vísitala, þá er átt við þá vísitölu, sem gildandi er. (HV: Ruglast þeir samningar ekkert við þessi lög? Rýrna þeir ekkert?) Þeir eru í gildi, að því er mér virðist. Vísitalan, sem ákveðin er þarna, er 123.

Ef samningar eru í gildi enn, síðan fyrir þann tíma, þegar dýrtíðarl. frá 1947 voru sett, vill þá hv. 6. landsk. þm. halda fram, að þeir samningar eigi að þýða það, að ofan á það grunnkaup, sem nú er komið, eigi að bæta 228%? (HV: Það á að bæta 28% ofan á.) Hvers vegna þá það, t.d. eftir samningum, sem gerðir voru 1939 og miðuðu við 100 stig, sem þá voru, og svo er bara sagt í samningunum, að kaupið eigi að fara eftir vísitölu? Nei, sannleikurinn er sá, eins og kemur fram í grg. frv. og ég þarf ekki að lýsa og hefur áður verið rökstutt af hæstv. ráðh., — ég held þremur, — þá hafa náttúrlega á seinni árum verið af löggjafanum sett þau ákvæði, að þetta er allt eiginlega orðið marklaust áður, og verður það ekki vegna þessara laga, sem hér á að setja. Það er orðið marklaust áður en þessi l. eru sett, þó að félögin t.d. 1940 hafi samið um, að þetta eða þetta skyldi vera grunnkaup og svo vísitöluuppbót greidd ofan á það. Þessu er raskað með l. frá 1947, sem hv. form. Alþfl. stóð fyrir, að sett yrðu. Því er nú aftur raskað með gengisl. frá í fyrra. Og það er í sjálfu sér alveg ómögulegt að framkvæma þetta lengur á þessum grundvelli.

Það getur vel verið, — ég skal ekki neita því, — að ýmsir verkamenn eigi nú við þröng kjör að búa, einkum þeir, sem að einhverju leyti hafa misst atvinnu. Það eru að vísu skiptar skoðanir um það, hve mikil brögð séu að atvinnuleysi nú og hvaða orsakir til þess liggi. Ég hygg, að það sé rétt t.d. hér í Reykjavík og víðar, að það séu nú afleiðingar verkfalla, sem að nokkru leyti hafa komið fram í atvinnuleysi, og verður ríkisstj. tæplega um það kennt. — En það er nú svona, að það væri náttúrlega ákaflega æskilegt, að allir landsmenn hefðu mjög miklar tekjur, við skulum segja, að hver einasti fjölskyldufaðir hefði 100 þús. kr. í tekjur á ári eða þar um bil. Og svo væri ákaflega æskilegt að afnema alla skatta og alla tolla og veita svo óspart úr ríkissjóði peninga til allra þeirra hluta, sem vaxandi þjóðfélag þarfnaðist, til að leiða rafmagn um allt landið og byggja hafnir við hverja vík og margt, margt fleira. Það væri ákaflega æskilegt, að þetta væri allt hægt. En til þess að þetta mætti verða, þá sé ég nú ekkert ráð annað en ef við gætum lagt undir okkur einhverja stóra og ríka þjóð og tekið af henni skatt og gert hennar land að skattlandi, svo sem Sovét-Rússland eða Bandaríkin, sem munu vera einna öflugustu ríkin í veröldinni. Maður verður bara að horfast í augu við þann beiska sannleika, að það kemur oft fyrir, að það er ekki hægt að fullnægja þeim kröfum, sem í sjálfu sér væri æskilegt að geta fullnægt. — Það kann nú að vera, að einhverjir hafi haldið því fram, að af gengisbreyt. í fyrra kæmi ekki fram nein kjaraskerðing. Og ég heyrði sjálfur a.m.k. einn fræðimann halda því fram, að af gengisbreyt. yrði engin kjaraskerðing. Auðvitað var það tóm vitleysa, því að ef það hefði ekki verið nein kjaraskerðing fyrir neinn, þá hefðu þau l. engu breytt, ef gengisbreyt. hefði ekki orsakað það að flytja peninga frá þeim, sem í landi eru, og til þeirra, sem veiða fisk og flytja á erlendan markað. Þetta verður stundum að gera. Það er ekki til neins að setja fram einhverjar kröfur um það, að svona eða svona skuli lífskjörin vera, nema um leið að gera ráðstafanir til þess, að hægt sé að fullnægja þeim kröfum. Og hvað einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar snertir, þá sjáum við nú, hvað hann stendur vel. Og nú er bölsótazt mjög yfir því, að nú komi nýtt dýrtíðarflóð yfir þjóðina, þegar hluti af þeim gjaldeyri, sem sá atvinnuvegur aflar, er gefinn frjáls. En ég held, að bara allir hafi verið sammála um það — og líka þeir, sem segja, að þetta hafi verið versta ráðið —, að það var óhjákvæmilegt að styðja bátaútveginn. En ég slæ því alveg föstu, að það var ekki hægt að styðja bátaútveginn öðruvísi en að það kæmi niður á einhverjum öðrum landsmönnum. Og ég er ekkert sannfærður um það, að þetta, sem nú á að gera, komi þyngra niður en þótt með öðrum aðferðum hefði verið greitt fyrir þessum atvinnuvegi. Ég hef heyrt, — þó að þetta mál hafi ekki verið borið undir Alþ., — að það muni vera meiningin, að frjáls innflutningur fyrir þennan gjaldeyri verði ekki veittur nema fyrir frekar ónauðsynlegum vörum, lúxusvörum o.þ.h. (HV: Einhverjir verða að kaupa.) Vitanlega kaupa það þá frekast þeir, sem hafa rýmri fjárráð. (HV: Þeir verða allt of fáir til þess að kaupa vörur fyrir 100 millj. kr.) Þó að það sé leiðinlegt að geta yfirleitt ekki látið alla hafa allt, sem þeir vilja fá, og gert fólkinu til hæfis, þá verður að horfast í augu við það, að einhvers staðar verður staðar að nema. Og það, sem auðvitað er aðalatriðið í þessu öllu saman, er, að þjóðin geti komið sér þannig fyrir, að hagur hennar gagnvart útlöndum verði sæmilegur, þá kemur hitt aftur af sjálfu sér. Og það er aðalatriðið, en ekki þessar ræður, sem hér hafa verið haldnar.

Hv. 6. landsk. þm. var að tala um, að hér væri verið að hefja stríð, og sagði, að ríkisstj. væri að því. Mér finnst nú satt að segja, að það hafi verið stjórn Alþýðusambands Íslands, sem byrjar þetta mál, með því raunverulega að misskilja lög, sem alveg voru ótvíræð, — eða a.m.k. alveg ótvírætt, hvað Alþ. meinti með þeim, — eða þá a.m.k. að telja sig skilja lögin á annan hátt en þann, sem löggjafinn meinti. Það er upphaf þessa máls. Ég er ekki að deila á stjórn Alþýðusambandsins. En það rétta má koma fram, því að ef þetta hefði ekki verið, þá hefði engum komið í hug að fara að breyta þessum l.