02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Jónsson:

Samhliða öllum ásökunum á hæstv. ríkisstj. fyrir þetta frv. og öllum hótunum, sem hér hafa verið hafðar í frammi um stöðvun hjá verkamönnum og stéttasamtökum þeirra, hefur komið fram tilboð til sátta frá hv. 4. þm. Reykv. og verið tekið undir það af hv. 6. landsk., en þetta tilboð er um það, að felld sé niður 1. gr. frumlaganna frá 19. des., og þá stæðu eftir ákvæðin í 6. gr., þ.e. 4., 5., 6. og 7. liður 6. gr. l. nr. 22 1950, en þar segir, að laun fyrir janúar breytist ekki til júliloka 1951. Það er því sýnilegt, að báðir þessir hv. þm. eru sammála um það, að ekki sé greidd hærri vísitöluuppbót en 123 stig, en það er vísitalan í janúar 1951. Með öðrum orðum geta þeir fellt sig við, að launþegar búi við þessi laun til 1. ágúst 1951. Þegar hv. þm. eru búnir að viðurkenna þetta, þá á ég bágt með að skilja þá baráttu, sem hér er nú haldið uppi, því að þetta frv. skerðir á engan hátt kjör launþega á þessum tíma, og kemur þá aðeins til greina, hvort hægt er fyrir launþega að tryggja sér, að eftir þann tíma verði launin ekki skert. En mér skilst, að þeir vilji tryggja, að launin verði ekki skert eftir júlímánuð, og því sé þessari baráttu haldið uppi hér í kvöld. Það veit nú enginn, hve vísitalan verður þá há, en ef verkföll eða stöðvanir verða á þessum tíma, þá verður vísitalan hærri og þar af leiðandi erfiðara að leysa þessi mál, ef öngþveiti verður komið á í þessum málum á þeim tíma. Ég veit, að launþegar fá ekki hærri laun, þó að þetta frv. verði ekki samþykkt, og skil ég því ekki baráttu hv. þm. gegn frv. þessu.

Í sambandi við dýrtíðarmálin sjálf, en þau hafa verið tekin sem aðalatriðið í umr. hér í kvöld, þá er það ekki aðalatriðið fyrir verkalýðinn að fá sem hæst verkalaun. Hv. 4. þm. Reykv. varpaði fram þeirri spurningu og hv. 6. landsk. kvartaði undan því, að henni skyldi ekki vera svarað, hvort 5 manna fjölskylda gæti nú komizt af með þau laun, sem heimilisfaðirinn hefur. Ég vil svara þessari spurningu með annarri spurningu: Bætir það hag fjölskyldu, sem nú berst í bökkum með að geta komizt af með tekjur sínar, þó að kaupið verði helmingi hærra, þó að hún hafi ekki jafnháar heildarárstekjur og áður? Og það er kjarni málsins, að það skiptir ekki máli, hve launin fyrir hverja klukkustund eru há, heldur hve árstekjurnar eru háar. Og hár kauptaxti hefur ekkert að segja, ef enga atvinnu er að fá, eins og á sér nú stað á mörgum stöðum á landinu. Ég fullyrði, að það ástand, sem nú hefur skapazt á ýmsum stöðum á landinu, að atvinnuvegirnir hafa ekki getað veitt þeim, sem að þeim vinna, fullan vinnutíma, þó að þeir hafi sjáanlega lagt hart að sér til að reyna að gera það, er skýrt dæmi um það, hvernig fer, þegar kaupgjald er hærra en atvinnuvegirnir þola. Og hver greiðir tapið af þeim atvinnugreinum í landinu, sem ekki hafa getað staðíð undir sér sjálfar á síðustu árum? Ég veit ekki betur en það sé almenningur í landinu, sem verður að standa undir því. Það er ekki af neinu hatri til verkalýðsins, þó að menn vilji spyrna hér við fótum og þó að ekki sé til nægilega mikið fjármagn til að greiða mismuninn milli þess, sem aflað er, og þess, sem eyðist, en atvinnuvegirnir geta ekki sjálfir gert það og hafa orðið að sækja til ríkissjóðs um hjálp. — Þá er ástæðan að nokkru leyti sú, að ýmsar vörur hafa hækkað erlendis, og hefur það enn aukið á dýrtíðina í landinu, og við höfum ekki átt nægilegan gjaldeyri til að fullnægja vörueftírspurn innanlands, og við það hefur myndazt svartur markaður í landinu, sem stafar af því, að ekki er til nægur gjaldeyrir til að fullnægja kaupmættinum, og eykst slíkt eðlilega með hærra kaupgjaldi, ef framleiðslan eykst ekki að sama skapi, og gerði því togaraverkfallið sitt til að auka á þetta og þá um leið dýrtíðina. Ég held því, að þessir menn, sem eru að ógna hér með stríði, ættu að athuga, hvort þeir með slíkum aðgerðum eru ekki einmitt að rýra kjör þeirrar sömu alþýðu, sem þeir látast vera að berjast fyrir, og lýsir það fullkomnu ábyrgðarleysi að vera með slíkar hótanir. Ég tel, ef gengið væri að tilboðinu áðan, þá mundu launþegar ekki fá hærra kaup til 1. ágúst og A.S.Í. hefði ekki getað komið fram launahækkunum í febrúar og engar launabreytingar hefðu orðið um áramótin, og því ósanngjarnt og óheppilegt að hefja stríð fyrr en í ágúst, þegar séð væri, hvaða ástand yrði þá í þessum efnum. Mér þótti rétt, að þetta kæmi fram, þegar það liggur fyrir frá andstæðingunum, að þeir muni beygja sig undir þetta, ef fylgt verður vissum skilyrðum frá þeim.