02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 6. landsk. þm. hefur að nokkru svarað því, sem hv. þm. Barð. beindi til mín. Hv. þm. Barð. sagði í ræðu sinni áðan, að ég hefði gert hæstv. ríkisstj. sáttatilboð um að fella úr gildi 1. gr. jólalaganna og láta koma í gildi aftur ákvæði laganna frá 19. marz í fyrra í staðinn. Þetta er ekki nákvæmlega rétt. Ég gerði henni ekki sáttatilboð, en ég beindi því til hæstv. ríkisstj., hvort henni þætti ekki skynsamlegra að fara þessa leið, og ég fel, að sú leið væri skárri en það, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir. Og það er alveg tvímælalaust rétt, að ef sú leið væri farin, þá ættu verkamenn ekki rétt til hærri kaupuppbótar samkv. l. en 23 stig þar til í ágúst næstkomandi.

Hitt er alveg rangt, sem hv. þm. sagði, að með því væru bundnar hendur þeirra og þeim bannað að koma fram kauphækkunum. Það er jafnopið eftir báðum leiðum, bæði eftir jólalögunum og marzlögunum. Að þessu leyti eru að vísu grunnkaupshækkanir ekki bannaðar, ef menn vilja í það leggja. Munurinn á þessu frv. og l. frá því í fyrra er sá, að eftir l. í marz var verkamönnum tryggt, að sú vísitöluhækkun, sem myndaðist á tímabilinu janúar–júlí það ár, yrði bætt að fullu með kaupgreiðslum í ágúst og framvegis. Nú hefur vísitalan á einum mánuði hækkað um 5 stig, og er ekki ótrúlegt, að hún hækki jafnmikið á næstu 5 mánuðum, þannig að hún verði komin upp í 30 stig á þessu tímabili, og væri þá tryggt, að kaupgreiðslur fengjust þó það hækkaðar 1. ágúst, ef ákvæði laganna frá því í marz s.l. væru tekin í gildi aftur. Hitt fullyrði ég enn á ný, að ég get ekkert um það sagt, hvort verkalýðssamtökin sættu sig við þetta. Það mun sjálfsagt fara eftir því, hve hröð hækkunin á vísitölunni væri. Ef hækkunin væri 5 stig á mánuði, mundu þau líklega ekki þola biðina lengi. Væri hún minni, mundu líklega margir kjósa að bíða eftir þeirri hækkun, sem l. beinlínis leyfðu. En það, sem hefur úrslitaáhrif í þessu efni, er það, að með þessari samþykkt hér er hæstv. ríkisstj. að tvíbrigða þau loforð og upplýsingar, sem gefnar voru, þegar l. voru sett 19. marz s.l. En þá hneisu gat hæstv. ríkisstj. losað sig við með því að láta l. standa óbreytt þar til 1. ágúst 1951. En ég tók það fram, að ég fullyrði ekki, hvort verkalýðsfélögin sættu sig við þetta. En með þessu frv. er beinlínis verið að reyna að egna þau til beinna vinnudeilna og mótspyrnu gegn l.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri fullkomlega ofmælt, að það væri hér um nokkurt atvinnuleysi að ræða, og það litla, sem örlaði á atvinnuleysi hér í Reykjavík, væri af því, að vélbátaflotinn væri ekki kominn á veiðar. Það fer nú fram þessa dagana atvinnuleysisskráning hér í bænum, og ég geri ráð fyrir, að hún sýni greinilega, við hvaða rök þessi ummæli hæstv. dómsmrh. hafa að styðjast. Ég veit, að hér er stórkostlegt atvinnuleysi í bænum, sumpart hjá stéttum, sem hafa haft góðár tekjur og vinna í byggingariðnaði, en þar hefur ekkert verið hægt að gera um langan tíma, að nokkru leyti vegna tíðarfarsins, sumpart vegna efnisskorts og sumpart vegna peningaleysis hjá þeim, sem eru að byggja. Ég verð nú að segja það, að mér finnst, jafnvel þó að inn á það væri gengið, að höfuðorsök atvinnuleysisins væri talin, að vélbátaflotinn væri ekki kominn af stað, að þá hefði hæstv. ríkisstj. haft ráðin í hendi sér til þess að leysa þau vandræði.

Fjárl. voru afgr. hér í vetur fyrir nýár með mikilli rögg, og ber að fagna því. En það var gert á þann hátt, að vandlega var gengið fram hjá því af Alþ. að hafa nokkur afskipti af vandamálum vélbátaflotans. Og þinginu var frestað skömmu fyrir jól og þar til eftir nýár, til þess, eins og ríkisstj. sagði, að hún fengi tóm til þess að undirbúa varanlega lausn á erfiðleikum vélbátaflotans. Þingið kom saman á ný 8. jan. s.l. Ríkisstj. var búin að hafa þriggja vikna umhugsunarfrest, en þegar þingi var frestað fyrir jól, þá voru tveir og hálfur mánuður frá því, að útvegsmenn lýstu því yfir, að ekki væri hægt að koma bátaflotanum af stað, nema leyst yrðu vandamál hans. Þann 8. jan. hafði ríkisstj. ekkert aðhafzt í þessum efnum. Þingið hafði setið og beðið eftir því, sem kæmi frá ríkisstj., og þetta var eina málið, sem var mjög aðkallandi, og enn er það ekki leyst. En að vísu upp á einhver loforð frá hæstv. ríkisstj. er bátaflotinn nú loksins farinn af stað. Allan janúarmánuð var blíðskaparveður og góðar gæftir, og þeir bátar, sem fóru á sjó í janúar og öfluðu matfisks fyrir bæinn, höfðu mjög góðan afla, og fara mátti í janúar 24 –25 róðra. Hvað hefur það því kostað, að vélbátaflotinn hefur ekki farið af stað í janúar? Var það auðveldara fyrir hæstv. ríkisstj. að leysa þetta í janúarlok en í byrjun janúar? — Einn hv. þm. drap líka á togarastöðvunina, en þeir stöðvuðust 1. júlí. Sjómönnum og útgerðarmönnum tókst ekki að semja í júní, júlí, ágúst, september né október, en þá kom þingið saman. Þá var borin fram till. til þál. af þessu tilefni og tvö frv. Þá fyrst fer hæstv. ríkisstj. að rumska og skiptir sér af málinu, þegar þetta hefur legið óafgreitt á fimmta mánuð. Þremur vikum eftir að ríkisstj. tók málið í sínar hendur eru togararnir farnir á veiðar. Hvers vegna gerði ríkisstj. þetta ekki fyrr? Það er af því, að mér virðist, að hæstv. ríkisstj. álítur, að kaupið sé of hátt og að mikið kaup sé til bölvunar, því að stöðvun togaranna á árinu og vélbátaflotans nokkurn hluta ársins, það þýðir minni kaupgetu fyrir verkafólkið í landinu. — Og loksins kemur svo hv. 1. þm. Eyf. og gerir grein fyrir því, sem ég er honum þakklátur fyrir, hvernig þessi lausn er. Hann segir: Lausnin er sú, að það á að taka 100 millj. kr. af andvirði útflutningsverðmætis sjávarútvegsins og kaupa fyrir það óþarfa. — Þannig á að leysa okkar vandræði. Við erum svo fátækir, að við höfum ekki efni á því að borga fólkinu kaup, og það þarf að skerða það jafnmikið og dýrtíðin vex. Ef dýrtíðin vex upp í 160 stig, yrði það til þess, gagnvart þeim, sem höfðu 24 þús. kr. tekjur árið 1950, og ef þeirra tekjur haldast óbreyttar, þó að vísitalan hækki í 23 stig, að þeirra kaup lækkar niður í 18–19 þús. kr. Þetta virðist þá vera það, sem hæstv. ríkisstj. telur nauðsynlegt til þess að bjarga þjóðinni.

Svo upplýsir hv. 1. þm. Eyf., að það megi gera það snjallræði að kaupa óþarfa fyrir 100 millj. kr., og svo skýtur annar hv. þm. því fram, að þá þurfi að fá 200 millj. kr. lán til þess að kaupa mat fyrir. Og það er ekki lítill búhnykkur að banna að kaupa nokkuð annað en óþarfa fyrir 100 millj. kr. og fá svo 200 millj. kr. lán til þess að kaupa mat fyrir. Ef við erum svo ríkir, að við höfum efni á því, að einhverjir menn í þessu þjóðfélagi kaupi óþarfa fyrir 100 millj. kr. í innkaupi — plús álagning á gjaldeyri, plús álagning verzlana og þeirra, sem höndla með þetta, þá verða þessar vörur áreiðanlega ekki minna en 200–300 millj. kr. í útsölu, ef við höfum efni á að kaupa slíkt, þá höfum við vissulega efni á því að láta kaupgjaldið fylgja vísitölunni og afstýra þar með beinum skorti hjá þeim, sem vinna við framleiðslustörf. — En ég vildi gjarnan leiðrétta þetta hjá hv. þm., því að ætlunin er að kaupa fyrir þennan frjálsa gjaldeyri talsvert af vörum, sem ekki er hægt að vera án, og vil ég ekki telja ýmsa fatnaðarvöru úr ull beinan óþarfa. Ég veit ekki betur en að sumar af þörfum vörum, t.d. byggingarvörur, sement, járn, timbur og hreinlætistæki og annað, sem tilheyrir byggingum, eigi að koma í þennan flokk innflutningsins, og það er mikið af þessum vörum, sem ekki er hægt að komast af án þess að kaupa, og verðhækkun á þeim kemur fram sem bein aukning á dýrtíðinni og bein skerðing á launum, ef þeim er haldið óbreyttum. Annaðhvort er svo mikið til af ríkisbubbum, að þeir geti keypt vöruna fyrir sig sjálfa, eða þá að almenningur verður að kaupa hana, sem þá eykur dýrtíðina fyrir honum og spillir lífskjörum hans. — Ég skal láta þetta nægja. Ég vil ráðleggja hæstv. ríkisstj. að taka þetta frv. aftur, sem hér liggur fyrir. Það væri henni sæmst, eða það, sem væri að sumu leyti ekki lakara, að breyta 1. gr. frv., eins og ég benti hæstv. ríkisstj. á. Og hvað sem um þetta má segja að öðru leyti efnislega, þá hefði hæstv. ríkisstj. átt að sýna mannsbrag og standa við þau loforð, sem gefin voru í marz s.l., en nú er verið að brigða í annað sinn.