03.02.1951
Efri deild: 62. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. fullyrðir, að með þessu frv. sé samningafrelsi verkalýðsfélaganna ekkert skert. En þetta byggist á algerum misskilningi hans, og liggur það augljóst fyrir. Samkv. gildandi samningum stéttafélaga skal kaup allt reiknast út með 128 vísitölustigum, eins og vísitala framfærslukostnaðar segir til um. En ef frv. það, sem hér liggur fyrir, er samþ., er það skýrt tekið fram, að kaup skuli reiknað út með 123 stigum. Þarna er verið að skerða gildandi samninga með inngripi nýrrar lagasetningar. Hér á að breyta kaupgjaldi frá 1. þ. m., og það er alltaf illa séð af verkalýðssamtökunum í landinu, er löggjafarvaldið skerðir samningafrelsið milli atvinnurekenda annars vegar og samtaka verkalýðsins hins vegar. Það var líka litið illu auga, er slíkt hið sama var gert af stjórn hv. 8. landsk. (StJSt), og kannske með tilliti til þeirrar reynslu og reynslunnar af jólalögunum 1950 er verkalýðurinn á móti slíkri lagasetningu sem þessari. Og verkalýðurinn hefur nægilega reynslu að baki sér hvað þetta snertir til þess að berjast á móti þessum lögum. Frá sjónarmiði ríkisstj. væri fullkomin ástæða til að forðast slíka lagasetningu sem þessa, af því að henni ætti að vera það ljóst, hvílík þjóðfélagsleg vandræði stafa af því að láta skerast í odda við verkalýðssamtök landsins.

Hv. þm. sagði, að engin vissa væri fyrir því, að úrlausnin til aðstoðar við bátaútveginn, sem gerð var bak við þingið, kæmi þyngra niður á almenningi en ef aðstoðin hefði verið gerð í einhverju öðru formi. Það er alveg óreynt. En nú er eftir að vita, hvernig þessi frjálsi gjaldeyrir verður verðlagður. Og ég er viss um það, að hann verður ekki seldur undir 50–60% álagi, þriðjungi dýrari en gjaldeyririnn er skráður. Svo koma álagningarákvæði ofan á þennan dýra gjaldeyri, enda eru engin takmörk sett um það, hvert söluverðið megi vera, því að verðlagsákvæði eru hér engin, og verður hann því seldur eins hátt og þurfa þykir. En ólíklegt er annað en hann verði keyptur, því að ekki verður hægt að fá hann annars staðar en á þessari einokunarsölu. — Annars er ég mest á móti þessari aðstoð af því, að mér þykir ekki tryggt, að hún hjálpi þeim, sem hún á að koma til hjálpar, þ.e. útvegsmönnum. Ég gæti frekar trúað, að hún kæmi einhverjum öðrum að gagni. Og verr væri af stað farið en heima setið, ef þessi aðstoð yrði nú eingöngu bröskurum og spekúlöntum að gagni. Ég er nú samt hræddur um, að sú verði raunin á.

Eitt af því, sem hv. þm. sagði, var, að Alþýðusambandið ætti upptökin að þessari deilu, vegna þess að Alþýðusambandið hefði misskilið jólalögin. Það er skrýtið, ef Alþýðusambandið hefur misskilið lögin, að það hafi knúð ríkisstj. til nýrrar lagasetningar, og ég hygg, að það komist ekki langt með þann misskilning. Annars er það áreiðanlegt, að hægt hefði verið að kveða þennan misskilning niður án annarrar lagasetningar, t.d. með dómsúrskurði. — Nei, upptökin að þessum deilum eru frá hæstv. ríkisstj. komin og stafa af þeim lagasetningum, sem hér hafa verið ræddar. (GJ: Hvers vegna barðist þm. svo heiftarlega á móti jólal.?) Ég barðist á móti jólalöggjöfinni, af því að ég taldi, að hún væri borin fram til að hefta samningafrelsi verkalýðsins.

(GJ: Það er ekki undarlegt, þótt hv. þm. reki í vörðurnar.) En svo halda þessir hv. þm. því fram, að hér sé ekki verið að hefta frelsi verkalýðsins. Er ég beindi spurningu til hæstv. ráðh. viðvíkjandi þessu atriði, þá svaraði hann með því að skírskota til aukins frelsis fyrir verkalýðinn og hélt þar með blekkingaleiknum áfram. Ég spurði um, eftir hvaða vísitölu ætti að reikna kaup, þar sem samningar eru útrunnir eftir nokkra mánuði. — Verið er að gefa verkalýðsfélögunum aukið frelsi, sagði ráðh., og draga úr hömlunum. Þá spurði ég, hvernig það yrði í framkvæmd, en þá fimbulfambaði hann um óskorað frelsi. — Ég sá, að jólafrv. var að öllu leyti svo illa úr garði gert, að það var fyrirsjáanlegt, að það mundi ekki ná tilgangi sínum, og finnst mér því sjálfsagt, að verkalýðsfélögin noti rétt sinn, enda sagði ráðherra, að ekkert væri athugavert við það.

Svo ætla ég aðeins að minnast á eitt atriði í viðbót. Ég tel óhæft, ef þetta frv. verður samþ. í því formi, sem það er í nú, að það verði látið gilda frá 1. febr. 1951, eins og í 1. gr. segir, og er það í algerri mótsögn við það, sem í 3. gr. segir, að lög þessi öðlist þegar gildi. Enda er það fátítt, að lög verki aftur fyrir sig. Ég býst nú ekki við, að hæstv. ríkisstj. vilji gangast inn á neinar breytingar, en ég tel þó sjálfsagt, að upphafi 1. gr., um það, að laun skuli ekki taka breytingum frá 1. febr., verði breytt, og þykir mér fróðlegt að vita, hvort hæstv. ríkisstj. vilji taka þá breytingu til greina. En ef það væri gert, mundu lögin ekki verka aftur fyrir sig. Um þetta hefur verið spurt hér áður, en ekkert svar fengizt. Ég vænti þess, að þessi smávægilega breyt. nái fram, svo að rökrétt samband verði á milli upphafs og niðurlags þessa stutta frv.