03.02.1951
Neðri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem forseti var að lýsa nú, er borið fram að tilhlutan ríkisstj. og stendur hún einhuga um það. Frv. þetta var til umr. í hv. Ed. í gær og var afgr. frá henni í nótt.

Frv. þetta er borið fram af ríkisstj. vegna ágreinings um skilning á gildandi l. varðandi tvö atriði. Annað er snertandi rétt verkalýðsfélaga til að hækka laun samkvæmt gildandi vísitölu án þess að taka tillit til l. nr. 117 1950, en þegar þau voru sett, var ákveðið, að laun skyldu ekki taka breytingum. Samkvæmt ákvæðum þeirra l. var vísitalan bundin við 123 stig. Hitt atriðið varðar verðlag landbúnaðarvara, þar sem framleiðsluráð landbúnaðarins telur sig hafa rétt til að breyta verðlagi þeirra, áður en verðlagsárið er liðið. En svo er ákveðið, að það megi gera einu sinni á ári, í ágúst. En framleiðsluráð telur sig hafa rétt til að breyta verðlagi oftar, hafi kaupgjaldsbreytingar orðið örari. Grg. lýsir þessum atriðum nægilega, en þó vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessi atriði hvort um sig.

Fyrst vil ég þá minnast á það, sem felst í 1. gr. Þegar breytingin á gengislögunum var gerð í vetur, var raunar ekki annað gert en að færa hið upprunalega tímatal aftur um 6 mánuði. Það var í raun og veru eina breytingin. Það liggur þess vegna í hlutarins eðli, að sé hægt að tala um ágreining í þessum lögum nú, þá hefur það verið frá upphafi. Ríkisstj. telur að vísu, að þetta liggi ljóst fyrir, og má benda á í því sambandi, að stjórnarandstaðan beitti sér mjög gegn þessum ákvæðum í vetur og benti þá á, að með þessum l. væri verið að binda vísitöluna við 123 stig og hindra með því launþega að fá sín laun greidd samkv. gildandi vísitölu. Þetta var svo hrakið þá, að óþarfi er að gera það frekar nú. Og það er vitað, að félagssamtök verkalýðsins, Alþýðusamband Íslands, höfðu sama skilning á þessu efni þá, og nægir í því sambandi að benda á yfirlýsingu miðstjórnar þess, en hún segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkir eindregin mótmæli gegn framkomnum breytingartillögum við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22 1950, um gengisskráningu, launabreytingar o.fl., er kveða svo á um, að frá 1. febr. 1951 skuli laun ekki taka breytingum samkvæmt ákvæðum gengislaganna um vísitöluuppbót, og telur miðstjórnin, að með þessu sé vinnufriðnum í landinu stefnt að óþörfu í bráða hættu.“ Enn fremur segir þar svo: „Miðstjórnin samþykkir enn fremur að skora á Alþingi að samþykkja þegar í stað framkomna breytingartillögu þess efnis, að kaupgjaldsvísitala verði framvegis greidd mánaðarlega á laun, eins og verkalýðssamtökin hafa áður krafizt og síðasta Alþýðusambandsþing samþykkti einróma sem lágmarkskröfu sína í þessum efnum.“

Í þessum yfirlýsingum kemur það fram, hvernig verkalýðsfélögin hafa skilið ákvæði þessara laga þá, því að ef það hefði legið ljóst fyrir, að kaup ætti að hækka samkv. gildandi samningum, þá sést, hversu fjarstætt það hefði verið að beita sér gegn ákvæðum þessara laga þá, einmitt þeim sömu l. og það nú telur að gefi heimild til hækkunar launa samkv. gildandi vísitölu. — Ég sé ástæðu til að taka þetta fram, þar sem Alþýðusamband Íslands hefur lýst yfir þessum nýja skilningi, en hins vegar hefur Vinnuveitendasamband Íslands lýst yfir gagnstæðum skilningi á þessum lögum frá í vetur.

Að þessu athuguðu lítur ríkisstj. svo á, að ekki sé um annað að gera en taka af öll tvímæli um ákvæði þessara laga og ef um hækkanir eigi að vera að ræða, verði þær einungis að fara fram með frjálsum samningum milli verkalýðsfélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands. En það eitt var gert í vetur að opna leið til þessara samninga. Við þetta bætist að samningarnir um, að kaup hækki samkv. gildandi vísitölu eru mjög gamlir og því hæpið að leggja svo gamla samninga til grundvallar um kaupgreiðslur nú. Ég sé fulla ástæðu til að taka þetta fram í sambandi við þetta mál nú. En hins vegar hefur það komið fram, að litið er á þetta á tvennan hátt af Vinnuveitendasambandinu og verkalýðsfélögunum, og lögfræðingar eru ekki sammála um þetta atriði heldur. Sumir telja, að verkalýðsfélögin hafi rétt til að hækka kaup samkv. vísitölu, en aðrir neita því algerlega. En þar sem ómögulegt er að fá þannig úr þessu skorið, þá telur ríkisstj. rétt að leita álits þess aðila, sem setti þessi lög í upphafi. Og ég tel, að ríkisstj. hefði verið stórámælisverð, ef hún hefði ekki gert það. Hin leiðin hefði verið að útkljá þessi mál fyrir dómstólum, og allir sjá, hvernig farið hefði um það, þar sem svo tvíræð merking var lögð í ákvæði þessara laga.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um 1. gr. þessa frv. Hins vegar vildi ég gera grein fyrir 2. gr. þess með nokkrum orðum, en hún fjallar um verðlagningu landbúnaðarafurða, en þetta atriði var ekki til meðferðar í vetur, en þessi deila er mjög svipaðs eðlis.

Lögin um verðlagningu landbúnaðarafurða frá 1947 kveða svo á, að einungis megi einu sinni á ári breyta verðlagi landbúnaðarafurða, eða 1. ágúst. Þá skyldi ákveðið verðlag þeirra og gilda fyrir næsta verðlagsár. Samkvæmt þeim lögum orkar það ekki tvímælis, að ekki er hægt að breyta verðlaginu nema einu sinni á ári, nema hvað snertir aukinn dreifingarkostnað. Hins vegar lítur framleiðsluráð landbúnaðarins svo á, að samkv. 9. gr. gengisbreytingarlaganna frá í fyrra sé heimilt að hækka verð þessara vara nú þegar. Ég ætla ekki að fara að rekja þessa deilu í sambandi við þessar umr. Hitt má taka fram, að ríkisstj. lítur svo á, að framleiðsluráð hafi ekki rétt til þessara verðhækkana fyrr en í lok þessa verðlagsárs. Lögfræðingar framleiðsluráðs telja á hinn bóginn, að það hafi rétt til að hækka verðlag úr því, sem miðaðist við vísitölu 115 og í vísitölu 123, en samkvæmt þeirri hækkun mundi það nema 12 aurum á hvern mjólkurlíter; en svo eru aðrir lögfræðingar, sem líta svo á, að þessi réttur sé mjög vafasamur eða jafnvel alls ekki til. Þess vegna er eins farið um þetta mál og hitt, að skilningur á þessum atriðum er mismunandi og skýringar á þeim. Því telur ríkisstj. rétt að leita til Alþingis til úrskurðar um þetta atriði og hvern skilning það hefur á þessum rétti, og óskar hún eindregið eftir því að Alþingi kveði sjálft á um þetta mál.

Ég vil taka það fram, að það er ekki sótt síður fast af framleiðsluráði, að þessar hækkanir fari fram, heldur en af launþegasamböndunum, að gildandi samningar um vísitöluhækkun haldist.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta á þessu stigi málsins. Mér virðist, að þetta frv. sé glögg spegilmynd af því, sem hefur verið að gerast í okkar þjóðlífi undanfarið, og sýnir glöggt, hvað gerist, ef ekkert verður að gert í þessu máli. Hvað gerðist, ef verkalýðsfélögin fengju að hækka kaup sitt um nokkra aura, og framleiðsluráð fengi að hækka mjólk um 12 aura? Ég er hræddur um, að neytendurnir yrðu litlu bættari, þó að þeir fengju kauphækkun til þess að standa undir þessu aukna verðlagi landbúnaðarafurða.

Það, sem hér er verið að gera, er að koma í veg fyrir þannig víxlhækkanir, og það sjá allir, hvert það rekur, ef ekkert er að gert. Og það er áreiðanlegt, að margt það, sem ríkisstj. hefur á prjónunum nú um framkvæmdir, mundi fara í mola, ef hlutir eins og þessir eiga að ganga fyrir sig.

Ég vil endurtaka það, sem hér hefur áður verið sagt, að hér er á engan hátt verið að takmarka frjálsræði verkalýðsins, heldur þvert á móti auka rétt hans til frjálsra samninga. Það eitt, sem verið er að gera, er að skapa þann möguleika.

Ríkisstj. leggur á það áherzlu, að þetta frv. gangi greiðlega gegnum Alþingi, og hún þakkar stjórnarandstæðingum það, að við umr. í Ed. í gær sýndu þeir enga tilraun til málþófs, og vil ég vona, að það fái svo skjóta afgreiðslu hér í Nd. sem frekast er fært.