03.02.1951
Neðri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir í sambandi við frv. það, sem hér er lagt fram, að það hafi verið meining hennar, þegar hún fékk samþ. frv. um breyt. á gengisskráningarl. í vetur, sem hún nú vill fá staðfestingu á, að binda verkalýðsfélögin þannig, að þeir samningar, sem fyrir hendi voru þá, gætu ekki öðlazt gildi. Það kom fram hjá hæstv. ríkisstj. þá, að með þeim breyt., sem hún lagði til að gera við gengisskráningarl., ætlaði hún að gera verkalýðnum bölvun. En nú uppgötvar hæstv. ríkisstj. og fleiri, að það megi skilja þær breyt., sem hún fékk fram, ef þær eru skoðaðar niður í kjölinn, þannig, að það sé raunar verið að gefa verkalýðnum meira frelsi og betri kjör en ætlazt var til, eða m.ö.o.: ríkisstj. ætlaði að gera verkalýðnum illt, en gerði honum óvart gott, og þess vegna kemur hún nú með þetta frv., því að það hafi aldrei verið meiningin að gera verkalýðnum gott. Hins vegar skuli það standa, að verkalýðnum sé frjálst að hefja vinnudeilur. Þetta ber greinilegan vott um afstöðu hæstv. ríkisstj. til verkalýðsins og vinnufriðarins í landinu. — Ég veit, að hæstv. ríkisstj. afsakar sig með því að segja, að stjórnarandstaðan hafi barizt gegn þessum till. hennar, sem hún bar fram í vetur, og það er rétt, að stjórnarandstaðan barðist gegn þeim tilgangi, sem ríkisstj. lagði í sínar till. Það er því rétt í þessu sambandi og ætti að geta orðið hæstv. ríkisstj. til varnaðar að rifja upp, hvernig hún fór að því að breyta l. í vetur.

Hæstv. ríkisstj. lagði fram frv. sitt um breyt. á gengisskráningarl. o.fl. í október og var það 33. mál þingsins. Það var ein efnisgr. og fjallaði um, hvernig innheimta skyldi skatt samkv. 12. gr., og fór frv. þá gegnum d. með meðmælum fjhn. Var það einróma samþ. og hélt áfram til Ed. Fyrst við 2. umr. í Ed. kom fram brtt. um að bæta við nýrri gr.brtt., sem var um breyt. á vísitöluuppbótinni, kom fyrst fram við 5. umr. á Alþingi, eða við 2. umr. í Ed. Þann sama dag voru umr. um þetta í Ed. og daginn eftir í Nd., en það var síðasti dagur þingsins fyrir jól, eða 18. des., þegar verið var að skella af öllum málum. Á sömu fundum var hækkaður söluskatturinn, eða eftir eina umr. í Ed. og eina í Nd. Ríkisstj. hafði þó tækifæri til að láta athuga málið ofan kjölinn, en leyfði það aldrei. Hér var komið í gegn lögum, sem svipta verkalýðinn réttindum. Við síðustu tvær umr. var frv. gerbreytt. Með öðrum orðum: Ríkisstj. breytti öllum þingsköpum við setningu þessara laga. Ákvæði fyrirskipa sex umr. í máli, þrjár umr. í hvorri deild. En ríkisstj. tekur upp við veigamikið mál að bera fram brtt. við síðustu umr. Það kann að koma í ljós seinna, að brtt. var ekki vel hugsuð, Nú kemur svo yfirlýsing frá ríkisstj., flutt af hæstv. forsrh., og brtt., sem felst í 1. gr. frv., um að taka af öll tvímæli um það, að verkalýðurinn eigi ekki að njóta þeirra réttinda, sem hann hefur samkvæmt samningum. Hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir alveg ótvírætt, að vinnustöðvun sé velkomin, áður en laun hækki. Laun eiga ekki að hækka fyrr en búið er að knýja þau til hækkunar. Ekki með friðsamlegu móti, ekki með samningum. ekki með vinnufriði skal fást kauphækkun. Ef verkalýðurinn vill vinnustöðvun í landinu, ef hann vill láta vita af því, að fyrirtækin vinna ekki, nema verkalýðurinn vinni við þau, þá skal látið undan kaupkröfunum. Þetta segir ríkisstj., sem sjálf stuðlaði með afskiptum sínum af lagasmíðinni að togarastöðvuninni og bakaði þjóðinni 70 milljóna tjón. Togarastöðvunin hefði ekki orðið, ef ríkisstj. og flokkar hennar hefðu samþ. lög um hvíldartíma á togurum, lög, sem lágu fyrir á Alþingi og sjómenn knúðu fram. Og stöðvunin hefði ekki orðið, ef ekki hefði verið lagður skattur á togaraeigendur, sem hæstv. ríkisstj. gaf nú eftir. Með öðrum orðum olli hæstv. ríkisstj. því, að togarastöðvunin var í marga mánuði og hafði í för með sér um 70 milljóna tjón.

Þetta er ríkisstj., sem upplýsir, að hún óski eftir fleiri þess háttar stöðvunum, aðeins fái verkalýðurinn alls ekki bætt kjör sín nema með vinnustöðvun. Það er hæstv. ríkisstj. að kenna, að framleiðsla á freðfiski hefur minnkað, og veldur það tjóni, sem nemur yfir 150 milljónir alls. Hún hefur sýnt algert getuleysi til að koma atvinnulífinu af stað. Hún hefur allan janúarmánuð, þegar beztu gæftir eru, séð til þess, að allur vélbátaflotinn er í höfn, sem veldur 20–30 milljóna tjóni. En hún er ekki ánægð, henni finnst ekki nóg komið, finnst þessi stöðvun aðeins smáræði, sem megi endurtaka sig. Það er furðuleg afstaða til framleiðslumálanna í landinu, sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt. Enn þá einkennilegri eru, þegar athuguð eru, afskipti hennar af verkalýðsmálum, en ríkisstjórnin segist bera hag verkalýðsins fyrir brjósti. Gerð var samþykkt um, að verkalýðurinn krefðist þess, að kaupgjald væri greitt með fullri vísitölu og það bætt upp, sem hann var rændur s.l. ár. Þetta var einróma samþ. á Alþýðusambandsþingi. Hverju svarar ríkisstj. þessum kröfum Alþýðusambandsins? Jú, með því að segja við verkalýðinn: „Þú skalt ekki fá uppbæturnar, heldur skal tekið af þér það, sem var ákveðið í gengislækkunarlögunum.“

Hinn 18. des. s.l. hjó ríkisstj. óvart fjötrana, sem hún ætlaði að herða. En fyrir viku síðan fóru fram kosningar í Dagsbrún. Flokkur hæstv. forsrh. þóttist taka þátt í þeim kosningum, og Tíminn birti B-lista og stefnuskrá hans, sem stjórnin stæði að. Er b-liður 1. gr. á þessa leið: „Verkamenn fái áfram fulla greiðslu á vísitölu.“ Full greiðsla á vísitölunni er það, sem flokkar ríkisstj. lýsa yfir sem sinni stefnu, þegar þeir senda fulltrúa í verkalýðsfélögin. En þegar þeir hafa óvart höggvið á vísitölufjötrana, bregður þeim við, og þá á að fjötra verkalýðinn aftur. Betur er ekki hægt að lýsa vesaldómi og aumingjaskap þessara manna, sem ekki geta reitt upp sverð án þess að höggva óvart högg, sem þeir ætla ekki að höggva. Ég held, að þessari ríkisstj. væri sæmra að láta nú þar við sitja og verkalýðurinn fengi þessa litlu uppbót, og freista þannig, hvort vinnufriður geti ekki haldizt í landinu. — Þetta gerir hún ekki, heldur reynir að bera í bætifláka fyrir þetta frv. og segir, að verkalýðurinn sé engu bættari, þó að hann fái kauphækkun. Það er hrein villukenning, að kjör verkalýðsins batni ekki við kauphækkun. Hitt er annað, að ríkisstj. getur stuðlað að því, að verð hækki á öllum vörum. Það er hægt með lækkun gengis og hækkun vöru. Það er hægt að ræna verkalýðinn ávöxtum kauphækkunar með gengislækkun. Það situr ekki á þeirri ríkisstj., sem hefur prédikað, að það þurfi að stöðva dýrtíðina. Hvað hefur gerzt síðan Framsókn kom í stjórn, sem básúnaði, að það þyrfti að stöðva dýrtíðina? Framsókn hefur verið í ríkisstj. samfleytt á fjórða ár, og afleiðingin er sú, að dýrtíðin hefur aldrei vaxið eins og fyrir beint tilstilli þessa ráðandi flokks. Framsókn hefur sýnt í ríkisstj., hver vildi stöðvun dýrtíðarinnar, hún hefur sýnt, að krónan hefur hrapað allan tímann, hefur sýnt, að eftir að verkalýðurinn hætti að hækka sitt kaup, hefur Framsókn reynt að rýra krónuna, sem verkalýðurinn fengi. Dýrtíðin hefur aldrei vaxið eins og síðan Framsókn tók að marka stjórnarstefnuna í dýrtíðarmálum. Ríkisstj. hefur svikizt um að stöðva dýrtíðina, svikizt um að hækka krónuna. Þegar þannig er farið að, á verkalýðurinn ekki annars úrkosti en tryggja sér fleiri krónur. Og hitt er annað, að verkalýðurinn hefur ýmis ráð til að hafa hemil á dýrtíðinni. Hvað hefur sá flokkur, sem kennir sig við samvinnufrelsi, gert til að berjast á móti dýrtíðinni? Hann hefur svipt neytendafélögin síðasta rétti sínum. Hann hefur tekið gjaldeyrisleyfin af kaupfélögunum og afhent heildsalaklíkunum. Hann hefur svikið allt, sem hann lofaði. Hv. stjórnarflokkar hafa ekki látið sér nægja að auka dýrtíðina í landinu. Þeir lofuðu öðru, þegar þeir heimtuðu fórnirnar. Þeir lofuðu, að ef verkalýðurinn vildi bíða þolinmóður í 6 mánuði, mundi hann sjá ávextina koma til sín. Og verkalýðurinn beið og lét ávextina koma í ljós. Hann beið til að vita, hvort það væri rétt, sem hagfræðingar Ameríkana og ríkisstj. sögðu, að gengislækkunin hefði ekki í för með sér nema 11–13% skerðingu. Hann beið og sá, að hún var orðin 23% . Ríkisstj. lofaði að tryggja honum atvinnu. Hvernig er farið með þau loforð? Hún hefur svikið þau og dregið úr atvinnu ílandinu. Hún hefur ekki aðeins rýrt gildi krónunnar, heldur einnig látið krónurnar verða færri, af því að vinnudagar falla niður. Það er neyðarástand í landinu, og það hefur komið í ljós, að atvinnuleysi hefur verið leitt yfir landið. Það hefur verið farið fram á, að fólkið fái að basla upp á eigin spýtur, en ríkisstj. segir nei. Þegar fólki dettur í hug að sjá um sig sjálft, þá er sagt nei. Það á ekki að lina á neinum einokunarfjötrum. Fólkinu er bannað að bjarga sér sjálft. Útvegurinn skal stöðvaður allan janúarmánuð. Sama ríkisstj. sem eykur dýrtíðina með aðgerðum Alþingis hindrar fólk í að vinna, bannar því að bjarga sér, hún herðir einokunarfjötrana, sem eru sárari en þeir dönsku. Menn hafa ekki frelsi til að byggja sér kofa. Þannig svíkur ríkisstj. hvert einasta atriði í því, sem hún lofaði, þegar hún heimtaði fórnirnar af fólkinu. Hún hefur ekki aðeins svikið að stöðva dýrtíðina, svikið að auka atvinnuna. heldur gerir hún nú ráðstafanir til að auka atvinnuleysið. Af hverju er nú þetta? Þessi ríkisstj. vill hafa atvinnuleysi í landinu. Af hverju? Af því að hún treystir því, að ef hún hafi nóg atvinnuleysi í landinu, geti hún brotið verkalýðinn á bak aftur. Hann skal ekki hafa tækifæri til að hækka sitt kaup. Hann verður að fara út í vinnudeilu til þess. Hún skapar vísvitandi atvinnuleysi til þess að hafa svipuna á verkalýðnum og halda kaupinu niðri. Þess vegna segir ríkisstj. svo kotroskin: „Farið út í vinnudeilur, það er guðvelkomið. Við sviptum ykkur ekki rétti.“ Hún þykist örugg, meðan hún hefur vald til að skapa atvinnuleysi.

Það er ekki ófróðlegt að athuga, að ríkisstj. stendur líklega ekki ein að þessu. Talað er um miklar framkvæmdir, Sogs- og Laxárvirkjanirnar. Ríkisstj. er furðu róleg í sambandi við þessar virkjanir. Vitanlega er það fé, sem notað er hér innanlands, úr sjóði þeim, sem geymdur er í Landsbanka Íslands. En ríkisstj. þarf sérstakt leyfi frá Washington til að nota það og lagafrv. á Alþingi. En ekki hefur verið komið fram með þetta lagafrv. Það er vitað, að skilyrði fyrir því, að nota megi sjóðinn, er, að það haldist efnahagslegt jafnvægi í landinu. Hvað merkir efnahagslegt jafnvægi? Það þýðir; að haldið sé við svo miklu atvinnuleysi, að ríkisstj. geti framkvæmt kaupkúgunarlög sín. Þetta skilyrði er sett af útlendum stjórnarvöldum, og þess vegna er hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, svo viðkvæm fyrir því, ef verkalýðurinn fengi ofurlítið af þeirri hækkun, sem honum ber. Hitt er rangt, að verkalýðurinn geti ekki bætt sín kjör. Það er hægt að breyta hlutfallinu milli þess, sem fer til stóreignamannanna annars vegar og verkalýðsins hins vegar. Þjóðartekjurnar eru nú orðnar svo miklar, 1100 –1200 millj. kr., að meðaltekjur hverrar 5 manna fjölskyldu ættu að vera um 40 þús. kr. á ári. Verkalýðurinn getur, án þess að það valdi nokkurri verðbólgu, bætt sín kjör á kostnað yfirstéttanna í landinu, en þetta vill hæstv. ríkisstj. ekki. En ég vil lýsa því yfir, að ég álít, að það hefði verið viðkunnanlegra fyrir hæstv. ríkisstj. að láta sitja við orðinn hlut, eftir það sem gerðist 18. des. s.l., þegar ríkisstj. ætlaði, eins og svo oft áður, að gera illt, en varð það óviljandi á, að gera gott, og bíta í það súra epli, að verkalýðurinn fái þær smávægilegu kjarabætur, sem felast í l. frá 18. des. Hæstv. forsrh. láðist, ég býst við af misgáningi, að leggja til, að málinu yrði vísað til hv. fjhn. Eftir þá reynslu, sem fengizt hefur á l. frá 18. des., býst ég við, að hæstv. ríkisstj. sjái, að hyggilegra sé að athuga málið í n., en lögfesta það ekki í slíku flaustri sem þá.