03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil leyfa mér að segja fáein orð út af þeim ræðum, sem fluttar voru við 1. umr. Ég mun ekki svara ýtarlega því, sem þar kom fram, því að margt af því var þannig, að það kemur ekki beinlínis við þessu máli.

Þegar frv. kom fram, var svo að heyra á stjórnarandstæðingum, að þeir teldu vera hér á ferðinni alveg nýtt mál. Hins vegar hefur verið bent á það í umr.. að efni þessa máls að því er snertir kaupgjaldsákvæðin er einungis að gera skýrt það, sem menn vildu lögbjóða í desembermánuði s.l., sem var í stuttu máli það, að hvorki grunnkaup í gamalli merkingu né verðlagsuppbót í gamalli merkingu, sem ég kalla í einu nafni laun, gæti hækkað, nema nýir samningar kæmu til á milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. Þetta er mergurinn málsins. Þetta er það, sem löggjafinn ætlaðist til að fælist í löggjöfinni, sem sett var í desembermánuði, og fært er til skýrara orðalags í þessu frv., svo að ekki verði um villzt. Nú við umr. hefur þetta skýrzt þannig, að stjórnarandstæðingar eru hættir að halda fram, að hér sé um nýmæli að ræða frá því, sem ætlazt var til í þeim l., sem þá voru sett, og þess vegna er hægt að spara sér allar frekari umræður um það, þar sem þetta er viðurkennt nú þegar. Þá er spurningin, hvort við nú eigum aftur að ræða, hvort það hafi verið skynsamlegt að setja löggjöfina, sem sett var í desembermánuði s.l., og gerðu hv. stjórnarandstæðingar talsvert mikið að því við 1. umr. að ræða þetta atriði og endurtóku þá nokkuð af því, sem þeir höfðu tekið fram í desembermánuði, þegar þau l. voru sett. Ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka nú með öllu þær umr., sem þá áttu sér stað, en vildi þó segja örfá orð út af nokkrum atriðum, sem komu fram hjá þeim.

Þeir lögðu mikla áherzlu á það í ræðum sínum, að því hefði verið lofað í sambandi við gengislækkunina, að menn skyldu fá kaupuppbætur fram í júlí í sumar, og höfðu stór orð um það, að með löggjöfinni í desember s.l. hefði þetta verið svikið. Þessu er því til að svara, að ástandið hefur gerbreytzt frá því að gengislækkunarl. voru sett, aðallega þannig, að sú verðhækkun, sem menn vonuðust eftir að yrði á útflutta fiskinum vegna gengisbreytingarinnar. hefur ekki komið fram nema að litlu leyti. Verðlag á ýmsum íslenzkum vörum, t.d. fiski, hefur lækkað mjög á erlendum markaði og því ekki stigið eins á fiski innanlands og menn gerðu ráð fyrir, en þetta gerir að verkum, að sá grundvöllur, sem átti að byggja launauppbótina á, hefur ekki orðið fyrir hendi. Samt hafa öll laun í landinu hækkað um 23%. — Nú er spurningin, hvort það var rangt gagnvart launastéttunum að breyta gengislækkunarl. og hætta að greiða uppbætur eftir l., eða hvort hitt hefði verið eðlilegt, að láta uppbótarákvæðin haldast í löggjöfinni. Ég hygg, að það geti varla verið álitamál hjá neinum þeim, sem eitthvað íhugar þessi mál, að það sé enginn grundvöllur eins og stendur fyrir því, að launastéttirnar geti haft nokkuð upp úr almennri launahækkun, til þess standa atvinnuvegirnir of höllum fæti. Og það er áreiðanlegt, að launþegar hafa tilfölulega lítið haft upp úr þeim launauppbótum, sem veittar hafa verið upp á síðkastið, vegna þess að þjóðartekjurnar hafa minnkað, og þá er ekki hægt að bæta kjör þegnanna með því að láta út fleiri krónur, þar sem þau raunverulegu verðmæti, sem þjóðin aflar, hafa minnkað. Það kemur þá fram aftur í verðhækkun landbúnaðarafurða eða verður til þess að framkalla atvinnuleysi, sem þá kemur niður þar, sem sízt skyldi. Þess vegna hefur upp á siðkastið því miður ekki verið neinn eðlilegur grundvöllur fyrir því, að þær uppbætur gætu gert gagn, og þess vegna er að dómi ríkisstj. rétt að fella þessi ákvæði úr gildi og láta í vald verkalýðssamtakanna, hvort þau teldu grundvöll fyrir frekari kauphækkunum eða ekki. Ég hef alltaf skilið hv. talsmenn verkalýðsflokkanna þannig, að heppilegast væri, að engin afskipti ættu sér stað af hendi ríkisvaldsins af kaupgjaldinu, en nú deila þeir hart á stj. fyrir að nema úr gildi afskipti af þessum l. og láta þetta vera frjálst í samningum milli hlutaðeigandi aðila. Mér finnst þetta mjög einkennilegt, og mér sýnist þetta vera í fullkomnu ósamræmi við það, sem þeir hafa oft áður haldið fram. Það er náttúrlega firna einkennilegt, ef það telst nú til árása á launamannasamtökin eða verkalýðinn að láta það afskiptalaust í löggjöfinni, hvað gert verði í kaupgjaldsmálunum. Það er skoðun ríkisstj. og þeirra, sem hafa stutt hennar stefnu, að það væri ekki til hagsbóta fyrir launþega að mæla þeim út frekari launahækkun að svo stöddu, og yrði það aðeins til þess að gera ástandið í landinu enn verra og hættulegra en það er nú og til þess að auka atvinnuleysi.

Ég held það hafi verið hv. þm., Stefán Jóh. Stefánsson, sem sagði, að stj. vildi halda sig við barnalegar fræðikenningar í þessum efnum, og fullyrti út í loftið, að ekki væri eðlilegur grundvöllur fyrir frekari launauppbætur. Ég vil nú leyfa mér að benda þessum hv. þm. og öðrum, sem hafa talað svipað, á það, að ég hygg, að Ísland sé nærri eina landið, þar sem því er yfirleitt haldið fram af ábyrgum mönnum, að það sé örugg leið til kjarabóta fyrir verkalýð og launafólk að mæla mönnum út launahækkanir eftir hækkaðri vísitölu. Og þessar barnalegu kenningar, sem hv. þm. talaði um hér, þær eru nú ekki barnalegri en það, að það eru sömu kenningarnar og flokksbræður þessa þm. fara eftir í starfi sínu fyrir alþýðuna í nálægum löndum, og þess hefur ekki orðið vart, að menn í alþýðuflokkum annarra landa, öðrum en hinum íslenzka, hafi fundið upp þá kenningu, að það væri einhlítt úrræði að bæta lífskjörin með því að hækka kaup eftir vísitölunni í landinu. Hitt er barnaskapur, að halda slíku fram, eins og þeir gera. Við sjáum bezt, hvernig kenningin verður í framkvæmd, ef við athugum ástandið hérna síðasta mánuð. Þann tíma hafa aðfluttar vörur stórhækkað í verði, en íslenzkar útflutningsvörur yfirleitt ekki hækkað, heldur lækkað, þannig að þjóðartekjurnar hafa farið stórlega minnkandi, en þá ætti að vera öruggar kjarabætur fyrir verkalýðinn að mæla mönnum út hækkað kaup, þó að þjóðartekjurnar, sem á að skipta, hafi stórlega minnkað. Slíkt getur ekki leitt til annars en stórfellds atvinnuleysis, því að ef þeir, sem hafa fasta atvinnu, halda fast við það að fá uppbætur eftir dýrtíðarvísitölu, þýðir það óhjákvæmilega, að þeir halda við hjá sér hærra neyzlustigi en þjóðfélagið getur borið, og það kemur aftur fram í atvinnuleysi, og með því verður byrðunum velt af þeim, sem stöðugt hafa atvinnu, á þá, sem sízt skyldi. Þetta er staðreynd. Það verður aldrei skipt meiru en aflað er, og ef þeir, sem hafa föst laun, hrifsa til sín mikinn hluta, verða hinir út undan, af þeirri einföldu ástæðu, að eftir því sem neyzlustiginu er haldið hærra hlutfallslega við þjóðartekjurnar, eftir því verður fjárfestingin minni og dregur úr atvinnu.

Með þessu vildi ég þá líka hafa svarað hv. 6. þm. Reykv. (SG), sem gat þess, að stefna stj. leiddi til atvinnuleysis. Þetta er alveg þvert á móti. Aftur á móti hlýtur sú stefna, sem þessi hv. þm. vill halda fram, óhjákvæmilega að leiða til atvinnuleysis, en stefna sú, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á þeim grundvelli, sem lagður var með gengisbreytingunni, er einmitt miðuð við það að komast hjá því að minnka þjóðartekjurnar, en skerðing þeirra mundi hafa í för með sér stórfellt atvinnuleysi. Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. sér það sjálfur, ef hann skoðar það í ró og næði, að ef t.d. genginu hefði ekki verið breytt á síðasta vetri, hefði orðið hér stórkostlegt atvinnuleysi á árinu 1950, þar sem ekki hefði verið nokkur kostur að halda uppi nema litlum hluta framleiðslunnar. Og þó að hann hefði þá fengið útmælt handa sínum mönnum eftir hækkun framfærsluvísitölu hækkaðar peningatekjur á pappírnum, hefði það ekki stoðað neitt, þar sem verðlag hefði hækkað að sama skapi og atvinnuleysishóparnir hefðu stækkað svo, að okkur hefði ekki órað fyrir því, að það hefði getað orðið jafngeigvænlegt ástand.

Aðalvandamálið í þessu er vitanlega að hitta á rétta meðalhófið, og það vandasama verk, sem forráðamenn verkalýðssamtakanna eiga að vinna á hverjum tíma, er að vega og meta, hvenær það er hagfellt fyrir verkalýðinn og launastéttirnar að knýja fram kauphækkanir, — hvenær það geti fært raunverulegar kjarabætur og hvenær ekki. Það er skoðun ríkisstj., að það væri með öllu ábyrgðarlaust að hafa í l. ákvæði, sem mæltu út fullar dýrtíðaruppbætur, þar sem enginn grundvöllur væri fyrir slíku. Slíkt hlyti aðeins að verða til tjóns fyrir launastéttirnar sjálfar og þjóðina alla, og mætti færa fyrir því mikil rök, sem ég mun þó láta ógert að sinni, en ég vildi aðeins benda á þessi örfáu atriði út af því, sem þessir hv. þm. tóku fram. — Höfuðatriðið í sambandi við kaupgjaldsmálin nú er aðeins eitt, þ.e. að gera það skýrt, sem menn ætluðu sér að lögfesta í desember s.l., sem sé það, að laun, en það þýðir kaupgjald og verðlagsuppbót, taki ekki breytingum frá því, sem greitt var í janúar, nema nýir samningar komi til.