03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hef ekki talað hér við þessar umr., hvorki 1. umr. né 2. umr., nema þá framsögu, sem ég flutti í morgun fyrir þessu frv. Ég mun ekki fara langt út í umr. Þó að margt hafi komið hér fram af hálfu stjórnarandstæðinga og hörð mótmæli gegn frv., þá hefur þó eitt sannazt í þessum umr., sem þeir sjálfir hafa viðurkennt, að með þessu frv. er aðeins það eitt gert að taka af nokkur tvímæli um þann skilning, sem fólst í l. frá því í vetur. Þetta hefur verið viðurkennt af þeirra hálfu, og því eru þær þungu ásakanir, sem þeir bera fram á hendur ríkisstj. og Alþ., alveg bundnar við það, sem deilt var um í vetur. Hér hefur verið blandað inn ýmsum óskyldum málum, eins og bátaútgerðinni, sem hv. þm. Ísaf. eyddi löngum tíma í að ræða og um sleifarlag ríkisstj., það hefði verið lítið gert í þeim efnum. Ég ætla ekkert inn á það að koma, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að þessi atriði munu innan fárra daga koma fram hér á Alþ., og verða sjálfsagt mjög ýtarlegar umr. um það þá frá beggja hálfu, og tel ég af þeim ástæðum tilgangslaust að fara að blanda því inn í þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það er af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt, að ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði í ræðum þeirra þm., sem andmælt hafa þessu frv., enda hefur hæstv. fjmrh. í sinni ræðu komið inn á þau atriði, sem helzt er ástæða til að taka fram varðandi þetta mál.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur borið hér fram skriflega brtt. við 1. gr. Þar er lagt til, að síðari málsl. 1. gr. sé umorðaður. Ég skal viðurkenna, þegar ég les þessa brtt., að það er einfaldara og betra orðalag, sem þar er haft um þetta efni, og út frá því sjónarmiði get ég ekki andmælt till. og mér virðist þetta fara betur eins og hún er fram borin. Eins og hv. 5. þm. Reykv. tók fram, þá er hér ekki um efnisbreyt. að ræða, heldur er þetta gert til þess að hafa betra orðalag, sem samrýmist betur við þann skilning, sem lagður er í orðið laun í gengisskráningarl. Þessi brtt., ef hún er samþ., hefur það í för með sér, að frv. fer aftur til Ed., en það ætti lítil töf að því að verða, svo að ég fyrir mitt leyti, fyrir hönd ríkisstj., vil frekar mæla með því, að þessi breyt. sé gerð, úr því að hún er fram komin, og ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um, að orðalagið fari betur á þennan hátt. — Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram.