03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er komin fram ein brtt., sem ríkisstj. finnst sjálfri nauðsynlegt að gera á þessu litla frv. sínu., og það er dálítið merkilegt, að hún skuli koma fram frá einum af þm., sem sæti á í fjhn. Ríkisstj. sýnir strax við 2. umr., eftir að hún hefur beitt sér fyrir því að neita, að frv. fari til n., að það er óhjákvæmilegt að breyta frv., þannig að það verður að fara til Ed. bara vegna þess, að frágangurinn á því er þannig, eins og hv. 5. þm. Reykv. sýndi fram á, að frv. rekst á við skilninginn á ákvæðum gengisl. sjálfra. Ég held því, að það væri vissara, ef Ed. á ekki að þurfa að senda málið til baka til okkar, að fjhn. athugaði þetta mál milli 2. og 3. umr., því að það sýnir sig, að það er ekki þaulhugsað eins og það er flutt, því að það hefur farið í gegnum Ed. líklega með nokkurri hroðvirkni.

Ég vil þá segja aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði. Ég vil aðeins leiðrétta það hjá hv. 1. þm. Rang., þegar hann segir, að það sé enginn grundvöllur fyrir kauphækkanir hjá atvinnuvegunum. Ég held, að það sé grundvöllur fyrir kauphækkanir, ég held það sé grundvöllur fyrir betri afkomu bænda og verkamanna einvörðungu með því, að það sé gengið á hagsmuni þeirrar auðugu yfirstéttar hér í Reykjavík, sem ræður ríkisstj., og það er um það, sem baráttan stendur alla tíma, og það var hv. þm. ljóst fyrir síðustu kosningar. Hann mælir með því, að grundvöllur sé hjá atvinnuvegunum fyrir betra kjötverð hjá bændum. En ég skal koma að því, að hv. þm. gengur út frá ákveðnu kaupi til bænda, miðað við 9 tíma á dag 300 daga ársins, kaup, sem er reiknað á grundvelli verkamannakaups í kaupstöðum samkvæmt samkomulagi milli samtaka bænda og samtaka verkamanna fyrir 8–9 árum. En bændur fá þetta út sem kaupgjald fyrir vinnu, sem þeir hafa örugga allt árið, en verkamenn verða að sætta sig við það nú, að þeirra vinna sé það stopul, að þeir oft og tíðum hafa ekki vinnu nema annan hvern dag. Embættismönnum er tryggð vinna allt árið um kring, og bændum er reiknuð þeirra framleiðsla miðað við vinnu, sem þeir inna af höndum allt árið, en í kaupstöðunum verður verkalýðurinn að sætta sig við eins stopula vinnu og skýrslur sýna í tíð þessarar ríkisstj. Hér er eitt af mörgum skjölum um það ástand, sem verkalýðurinn verður við að búa á Íslandi nú. Það er atvinnuleysisskrá og tekjuskýrsla, sem verkalýðsfélagið á Bíldudal hefur sent hingað til þingsins, þar sem beðið er um hjálp vegna þess neyðarástands, sem þar ríkir. Þar kemur í ljós, að mánuðina ágúst–október s.l. eru 13 fjölskyldumenn með 44 manns á framfæri með meðaltekjur 799 kr. eða 182 kr. á einstakling á mánuði. Þetta er aðbúnaðurinn, sem verkalýðurinn á við að búa. Skyldi ekki eitthvað syngja í bændum, ef svona væri búið að þeim? Verkamenn hafa ekki lagt út í stórar deilur til þess að breyta kaupgjaldinu undanfarið, m.a. vegna þess, að þeim var lofað í sífellu, að þeirra atvinna væri tryggð, þeir skyldu fá meiri atvinnu. Þetta hefur verið svikið, þetta hafa þeir ekki fengið, þeir hafa fengið að færa fórnir, en ekkert fengið aftur af fórnunum. Þetta verður hv. 1. þm. Rang. að hafa í huga. En þessir verkamenn, sem búnir eru að verða fyrir þessu atvinnuleysi, eru sömu verkamennirnir sem standa með því, að bændum séu reiknuð verkamannalaun fyrir örugga vinnu allt árið um kring. Þess vegna er þetta ekki jafnræði.

Eða vill hv. 1. þm. Rang. standa með því, og hans flokkur, að tryggja verkamönnum lágmarksárslaun, sem samsvari því, sem bændum með meðalbú er tryggt með núverandi útreikningi, sem lagður er til grundvallar samkvæmt sexmannanefndarálitinu? Eins og hér sé ekki hægt að hafa þjóðfélagið þannig, að hver maður fái að vinna? Ég veit ekki betur en það séu lagafyrirmæli frá Alþ., að þannig skuli þjóðfélagið vera. Ef hann flettir upp í l. um fjárhagsráð, 2. gr., 1. málsgr., þá sér hann þau fyrirmæli. Nei, verkamenn hafa ekki talið eftir — og munu ekki gera — þann rétt, sem bændur sem vinnandi menn eiga kröfu til, og ég veit ekki betur en að verkamenn hafi líka beitt sér fyrir því að reyna að tryggja þeim, sem að sjávarútvegi vinna, ábyrgðarverð fyrir þeirra vörur og tryggja þannig afkomu þeirra. Hins vegar er ekki á valdi verkamannastéttarinnar né neins af okkur að tryggja, hvorki bændur né fiskimenn, vegna þeirra erfiðleika, sem þeir verða fyrir af náttúrunnar hálfu. En að svo miklu leyti sem það hefur staðið í valdi verkamannastéttarinnar að tryggja efnahagslega afkomu bænda og útvegsmanna, þá hafa þeir staðið með öllum heilbrigðum ráðstöfunum í þá átt. Þess vegna er það, að þegar af hálfu ríkisstj. atvinnuleysi er skellt yfir verkalýðinn, eftir að raunveruleg laun hafa lækkað ár frá ári, þá er ekki lengur jafnræði þarna á milli stéttanna.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að þær fórnir, sem færðar hafa verið, hafi farið til þess að halda sjávarútveginum á floti. Voru ráðstafanir gerðar til að stöðva það, sem ríkisstj. var að gera? En látum það vera. En að svo miklu leyti sem fórnir voru færðar, þá var það gert til þess að halda yfirstétt Reykjavíkur á floti, og að svo miklu leyti sem það var gert fyrir sjávarútveginn, þá á það að halda áfram að gilda fyrir yfirstéttina í Reykjavík. Við skulum ekki blanda þessu saman; það er ekki sjávarútveginum, sem var bjargað, heldur er það sjávarútvegurinn, sem bjargar landinu. Þetta vildi ég aðeins segja út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði.

Ég hef ekki ætlað mér, frekar en aðrir stjórnarandstæðingar, að tefja fyrir þessu máli. Það eru skikkanlegar umr., sem hér hafa farið fram um þetta, en það er auðséð, hvað ríkisstj. ætlar sér og hennar stuðningsmenn. En hitt kynni ég betur við, að þingleg meðferð væri höfð á þessu máli. Ég vildi því gera það að till. minni, sem var fellt af 9 mönnum við 1. umr., að málinu sé vísað til hv. fjhn. milli 2. og 3. umr., þar sem sýnt er, að þess er full þörf.