03.02.1951
Neðri deild: 62. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 2. umr. máls þessa kom það fram í ræðu hjá hv. 1. þm. Rang., að hann teldi, að ég hefði misskilið þann grundvöll, sem væri fyrir útreikningi á verðlagi landbúnaðarafurða. Ég er ekki sannfærður um, að ég hafi farið þar með rangt mál, hins vegar get ég vel viðurkennt, að aðrir kunni að vita betur. Hv. þm. hélt því fram, að við breytingarnar, sem gerðar væru árlega á útreikningi landbúnaðarafurða, þá væri tekið tillit til meðalárskaups verkamanna. Ég býst við, að þetta sé rétt, að upprunalega hafi þetta verið ákveðið þannig. Þá var gengið út frá almennri vinnu verkamanna árið um kring. Til þess að taka tillit til kaups verkamanna síðar, þyrftu að liggja fyrir hjá nefndinni, sem reiknar út verðlag landbúnaðarafurða, heildarskýrslur um vinnudagafjölda verkamanna. Ef slíkar skýrslur eru ekki fyrir hendi, verður grundvöllurinn ekki réttur, ef miða á við árskaup verkamanna. Ef þetta er rangt, tek ég það sem sannara reynist. Ég held, að það, sem hv. 1. þm. Rang. hafi meint, hafi verið það, að taka skyldi tillit til meðalkaupgjalds Dagsbrúnarverkamanna. En þessi grundvöllur var lagður þegar afkoma verkamannsins var örugg. Ég held þess vegna, að allt fái staðizt, sem ég sagði í ræðu minni.

Hér hefur ekki komið fram neinn rökstuðningur af hálfu ríkisstj. fyrir máli þessu. Allt, sem hæstv. ráðh. hafa sagt, hefur verið tætt í sundur, en hæstv. ríkisstj. ætlar sér að bola frv. í gegn nú þegar. Allt, sem hæstv. ráðh. hafa talið vera staðreyndir, hefur verið sýnt fram á að væri aðeins haldlausar blekkingar. Meira að segja út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði hér um útflutningsverzlunina, hafa ráðherrar ekki sagt eitt einasta orð, og hefði maður þó getað búizt við því.

Framsfl., sem hér hefur gengið fram fyrir skjöldu, hefur ekki treyst sér til að verja þetta mál, heldur treyst á handjárnað flokksfylgi sitt. Staðreyndirnar eru nú þær, að kaup verkamanna er komið ofan í 800 kr. á mánuði fyrir 4 manna fjölskyldu. En ríkisstj. ber höfðinu við steininn og segir, að verkamenn hafi ekkert gagn af kauphækkunum. Sé hins vegar svo farið fram á, að bætt sé úr atvinnuleysinu, þá er sagt nei, og ríkisstj. miðar beinlínis að því að draga saman atvinnu landsmanna.

Það er . eftirtektarvert, að ríkisstj. hefur ekki mótmælt þeim upplýsingum, sem ég kom hér fram með við 2. umr. málsins, hvaðan þau fyrirmæli að viðhalda atvinnuleysinu væru komin. Samkv. Marshalláætluninni átti að auka og viðhalda atvinnuleysinu, og þetta var það skilyrði, sem sett var, ef Íslendingar áttu að fá að nota það fé sem þeir höfðu lagt í mótvirðissjóð, — sem sagt: íslendingar verða að halda við atvinnuleysi í landi sínu til þess að fá að nota sitt eigið fé. Hæstv. ríkisstj. veit, að þetta er satt, og þess vegna hefur hún ekki þorað að bera enn fram frv. um að fá að nota sitt eigið fé. Það er vitanlegt, að ekki þýðir að reyna að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli né heldur öðrum skaðræðismálum, — ekki frekar en með gengislækkunina í fyrra. Ríkisstj. hefur þann hátt að berja höfðinu við steininn, ösla sína leið með þeim afleiðingum, sem nú blasa við: stöðvun togaraflotans um margra mánaða skeið, og nam það tjón um 70 millj. kr., — freðfisksframleiðslan hefur minnkað, og nemur það tjón um 70 millj. kr., — vélbátaflotinn hefur verið stöðvaður, og við það hefur tapazt um 20–30 millj. kr. Þá hafa byggingar verið stöðvaðar, og með því hefur almenningi verið bakað fjárhagslegt tjón. Svo segir ríkisstj. nú við verkamenn: Þið getið farið út í vinnudeilur, ef þið viljið, og bætt ykkar kjör. — Verkalýðurinn hefur beðið í 6 mánuði og meira að segja lengur eftir að ríkisstj. efndi sín loforð. En ríkisstj. heldur áfram á braut sinni og lætur atvinnuleysið vaxa. Síðan bætir ríkisstj. gráu ofan á svart með því að eyðileggja þá samninga, sem verkalýðurinn hefur gert. Og ríkisstj. gerir þetta í trausti atvinnuleysisins. Hún treystir því, að hún geti skapað nógu mikla neyð til þess að Íslendinga bresti kjarkinn, til þess að íslenzkur verkalýður hafi ekki uppi kröfur um mannsæmandi líf. Hún ögrar verkalýðnum og spyr, hvort hann vilji leggja út í vinnudeilur.

Ríkisstj. hefur nú heyrt raddir og álit verkalýðsins, og það, sem hún gerir, gerir hún vitandi vits. Það er ekki til neins að koma eftir á til verkalýðssamtakanna og biðja þau fyrirgefningar. Það á að reyna að kúga hina fátækustu menn þessa lands. En það er tæpt að trúa fátæktinni, og einhvern tíma rís hinn fátæki upp. Verkalýðssamtökin munu sýna, hvenær sem sá tími kemur, að þau sætta sig ekki við þessa afgreiðslu málsins.