10.11.1950
Efri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Forseti (BSt):

Ég verð að sjálfsögðu við þessum tilmælum, í trausti þess, að málið geti legið fyrir næsta fundi, því að það er ekki gott að afgreiða ekki mál, sem liggja fyrir tilbúin.

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir): Herra forseti. Eftir að frv. þetta hafði verið hér til 2. umr., var vakin athygli n. á því, að það væri galli á l. um sveitarstjórnarkosningar, sem kemur fram í því, að það getur auðveldlega farið svo og fer oft svo, að menn fá hvergi að kjósa við sveitarstjórnarkosningar. Nefndin athugaði þetta nokkuð, en komst að lokum að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir það, að mjög æskilegt væri og nauðsynlegt, að lögunum yrði breytt þannig, að þessir gallar yrðu lagaðir, þá taldi n. ekki fært fyrir þingnefnd að vinna þetta svo, að í lagi væri, af því að það þyrfti nánari athugun. Og mun allshn. því ekki bera fram neinar brtt. við frv.