17.11.1950
Neðri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er og verður vafalaust sífellt vandamál, hvernig eigi að tryggja rétt hinna einstöku kjósenda til þess að láta sínar skoðanir í ljós, miðað við það tiltölulega ríka flokksvald, sem er í okkar þjóðfélagi. Nú vitum við, að það er almennt svo, að þegar flokkur stillir upp, ef ágreiningur er á annað borð, að það er ýmist þannig, að meiri hl. í viðkomandi flokki stillir upp eins og hann álítur réttast, eða þá þannig, að hann tekur tillit til þeirra, sem kunna að vera annarrar skoðunar í flokknum eða í minni hl., og eitt af því, sem knýr hann til þess, eru þessar útstrikunarreglur. Það er enginn efi á því, að það mundi gera flokksvaldið eða miðstj. í hverjum flokki mun öflugri, ef þessi hætta á útstrikunum væri numin burt. Þetta er sérstakt aðhald fyrir flokksstj., en hins vegar getur þetta aldrei breytt miklu fyrir viðkomandi flokk, því að auðvitað stillir hann upp þeim mönnum, sem hann þykist vera tiltölulega öruggur með, og kjósendur hafa þá ekki um annað að velja en innan þess hóps. — Við skulum segja, að það komi fyrir, sem hv. þm. A-Húnv. minntist á, að menn kjósi annan lista en þess flokks, sem þeir fylgja, jafnvel mesta andstæðingaflokks síns, strikuðu þar út efsta mann til þess að fella einn mann, en koma öðrum manni að, sem ætti ekki það mikið upp á pallborðið hjá flokksstj., að honum væri stillt í efsta sæti, heldur settur neðarlega á listann, en væri það vel séður í öðrum flokkum, að menn vildu kjósa hann, þó með því skilyrði, að hann kæmist að, en ekki annar, og ég álít, að við megum ekki afnema með löggjöf, að slíkt geti komið fyrir. Það er með öðrum orðum viss réttur eftir skilinn kjósendum með þessari aðferð, og ég hygg, að slíkur réttur sé eðlilegur og gott aðhald fyrir flokksstj. til þess að reyna að vanda mannaval sitt á fram. bjóðendum og taka sem mest tillit til þeirra viðkomandi kjósenda. Ég held þess vegna, að við þurfum að athuga þessi mál mjög gaumgæfilega, þegar við erum að ræða um að setja lög varðandi ráðstöfun á þeim rétti, sem kjósendur í okkar þjóðfélagi hafa. Við vitum, að það er varla mögulegt fyrir kjósendur að skapa sér ný flokksform. Það hafa verið gerðar tilraunir til þess, sem allar hafa meira og minna mistekizt, m.a. vegna þess, hvað það er nauðsynlegt fyrir hvern flokk eins og nú háttar í okkar þjóðfélagi að hafa sterk blöð til þess að kynna sína stefnuskrá og áhugamál og að það þarf svo mikið fjárhagslegt átak til að koma slíkum blöðum upp, að það er ekki hægt nema með mjög sterkum samtökum kjósenda sín á milli. Hins vegar hafa kjósendur með því kosningafyrirkomulagi, sem nú er, vissa möguleika til þess að koma sínum skoðunum fram, og mér finnst, að við megum ekki draga úr þeim rétti þeirra, en sjálfsagt er að athuga og ræða þessi mál af gaumgæfni, og ég efast ekki um, að sú n., sem fær málið til meðferðar, muni taka það til alvarlegrar íhugunar.