17.11.1950
Neðri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð út af því dæmi, sem hv. 3. landsk. þm. tók. Við skulum halda áfram með þetta dæmi varðandi Sjálfstfl. Það er meiri hl., sem hefur skipað mennina í efstu sæti listans, eftir því sem hv. þm. gekk út frá, og minni hl. hefur orðið undir, sem er tiltölulega stór, en fær ekki mann nema í 9. sæti. Þetta þýðir, að meiri hl. hefur skipað sína menn í öll 8 efstu sætin, því að hefði hann gefið minni hl. einn af þessum 8 mönnum, þá hefði það þýtt einn mann í öruggu sæti fyrir minni hl., en minni hl., sem er þó þetta stór, er þannig algerlega útilokaður frá að fá nokkurn mann kjörinn. Ég held, að þetta sé áreiðanlega rétt skilið hjá mér, vegna þess að hv. þm. talaði um, að minni hl. væri tiltölulega stór, en meiri hl. tiltölulega lífill, og minni hl. mundi því freista að fá manninn í 9. sæti kjörinn með því að strika út og færa hann ofar á listann. Og er það nú svo óréttlátt, að þessi stóri minni hl. hafi þann möguleika við slíkar kosningar að geta haft áhrif á að fá einn mann kjörinn af þessum 8 fulltrúum með því að beita útstrikunum? Ég hygg, að við megum athuga þetta dæmi frá allmörgum hliðum, áður en því er slegið föstu, að núverandi löggjöf um þessi efni sé ekki í tiltölulega ríkum mæli lýðræðisleg og miðí að því að tryggja rétt hinna einstöku kjósenda, þrátt fyrir það að hún grundvallast á flokkaskipulaginu.