04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi viðvíkjandi sjálfri meðferð þessa máls og út af þeim tilmælum sem komið hafa frá hv. frsm. og form. allshn. Ég vildi leyfa mér að fara fram á, að frekar yrði þessari umr. frestað og n. fengi tækifæri til þess að athuga þessa till. og atkv. færu svo fram um þessa brtt. við 2. umr. Þetta frv. er um breyt. á kosningal. Það er í seinni d., og ef atkv. um eins veigamikla breyt. á l. eins og hér er um að ræða í þessari brtt. ættu ekki að fara fram fyrr en við lok 3. umr. í seinni d., meðan enginn maður veit, hvernig sú atkvgr. muni fara, þá er það ákaflega léleg meðhöndlan á þetta veigamikilli brtt. að láta ekki atkv. um hana verða fyrr en við síðustu umr. í seinni d. og láta svo frv. ganga til einnar umr. Ég álít heppilegra, til þess að fá góða athugun á þessu máli, að umr. um það yrði nú frestað, til þess að n. fengi tækifæri til þess að athuga brtt., því að þær eru miklu veigameiri en frv. sjálft. Því að það er eitt, sem gefið er, að eigi að fara að róta verulega við kosningal., þá koma auðvitað fleiri brtt. fram en þessi. Það hefur yfirleitt verið þannig, að kosningal. hafa verið löggjöf, sem menn hafa ekki gjarnan viljað róta mikið við, nema eitthvað sérstakt stæði til. Og ef verulega efnisbreyt. á að gera á kosningal., munu vafalaust koma fram a.m.k. fleiri brtt. Hitt er annað mál, að sú breyt., sem kom fram till. um í frv. sjálfu, er ekki það veigamikil, að hún er í raun og veru eins konar leiðrétting að fenginni reynslu.

En viðvíkjandi brtt. sjálfum, þá vil ég fara um þær nokkrum orðum. — Þá er það fyrst 1. brtt. á þskj. 248. Hv. þm. A-Húnv. sagði réttilega, að það að heimta að 1/5 hluti kjósenda þyrfti að fara fram á hlutfallskosningu, mundi í ýmsum hreppum þýða það, að álíka margir þyrftu að fara fram á hlutfallskosningu eins og mundi nægja til að kjósa einn fulltrúa. En það þýðir, að allir þeir, sem þennan lista kjósa, yrðu að gefa upp nöfn sín, en með því móti er raunar verið að afnema leynilega kosningu. Það er verið að gefa meiri hlutanum vald til að vita nöfn allra þeirra, er minni hlutanum fylgja að málum. Við skulum hugsa okkur hrepp, þar sem bæði eru ríkir og fátækir bændur, eins og er í öllum hreppum, og að skiptin innan hreppsins fari eftir efnahag.

Efnuðu bændurnir sitja í hreppsnefnd og hafa setið þar 10–20 ár og ráðið öllu í hreppnum og telja sig hafa rétt til að sitja þar áfram. En nú vilja fátæku bændurnir og húsmenn gjarnan koma manni í hreppsnefnd til að berjast fyrir sínum málum, sem þeim finnst að hinir efnaðri bændur hafi ekki gefið fullan gaum. Nú voru lögin um hlutfallskosningu og leynilega atkvæðagreiðslu sett til verndar hinum smáu, sem vilja ekki þurfa að gefa upp, hverja þeir kjósi. En ákvæðið um leynilega kosningu hefur alls staðar mætt andstöðu af hendi hinna efnuðu, því að með því móti misstu þeir mikið af valdi sínu yfir hinum snauðu. Þetta mundi þýða, að hver maður, sem vildi knýja fram lista, sem væri öðruvísi en venja væri í hreppnum, yrði að safna öllum þeim saman, sem með honum stæðu og væru gegn hinni gömlu hreppsnefnd, og þeir yrðu að skrifa upp nöfn sín til að knýja fram hlutfallskosningu. Kosningin er því með þessu móti ekki lengur leynileg, heldur opinber. Þetta er því í fullkominni mótsetningu við anda kosningalaganna og stjórnarskrárinnar. Í fjölmennum kjördæmum er fjölda meðmælenda með listum mjög stillt í hóf, og mega — að ég held — ekki vera fleiri en um 200 manns við hvern lista. Þetta er gert til þess, að kjósendur opinberi ekki, hvern þeir kjósi, eða hægt sé að knýja menn til slíkrar opinberunar á því, hvern þeir kjósi. Við, sem þekktum til í sumum sveitahreppum á árunum 1930 og 1931, þegar voldugir kaupmenn og kaupfélög höfðu ráð bænda algerlega í sínum höndum, skiljum, hvaða þýðingu þetta ákvæði getur haft. Halda menn, að það hefði verið þægilegt fyrir þá, sem hefðu viljað koma á hlutfallskosningu og áttu ef til vill allt sitt ráð undir þessum voldugu aðilum, að þurfa að safna saman öllum þeim, er sama sinnis voru, ef til vill þeim snauðustu, og láta koma opinberlega fram, hvar þeir stæðu og hvern þeir mundu kjósa? Svona ráðstafanir eru því til þess eins að gera mönnum erfiðara fyrir með að láta í ljós sannfæringu sína, ef þeir af þeim ástæðum óska eftir að verða fyrir sem minnstum búsifjum. Ég held því, að sízt séu tímar nú til slíkra breytinga. Það hefði verið sök sér á þeim tímum, þegar nóg var um atvinnu og menn áttu inneignir hjá verzlunum þeim, er þeir skiptu við. En nú þegar bændur eru farnir að skulda að nýju hjá kaupfélögunum og þeir fátæku eiga margir hverjir undir högg að sækja um úttekt, þá á Alþingi ekki að þrengja kost hinna smæstu af þegnunum. Ég held því, að till. sem þessi sé í mótsetningu við lýðræði það, sem við búum við og kostað hefur svo langa og harða baráttu að fá, m.a. við hina efnaðri bændur, sem staðið hafa gegn slíkum réttarbótum fyrir hina fátækari. Ég held því, að það sé ákaflega misráðið að breyta þessu núna, og vildi mælast til, að hv. allshn. athugaði þetta mál mjög gaumgæfilega nú við 2. umr. — Ég vil geta þess nú, af því að það er stundum sagt, að það trufli gott og gamalt samkomulag í hreppsnefndum og innleiði þar flokkabaráttuna í landinu, ef hlutfallskosningu er komið þar á, að það þarf ekki að vera, að það sé neinn hinna fjögurra pólitísku flokka, sem vill koma upp hlutfallskosningu á hinum ýmsu stöðum, heldur einstakir hópar kjósenda, og það hefur sýnt sig, að það er víða hið undarlegasta sambland manna, sem stendur saman að slíkum listum, og flokkaforustan hér í Reykjavík hefur oft og tíðum ekki haft hugmynd um pólitísk sjónarmið fylgismanna hinna ýmsu lista úti á landi. Hér er því aðeins verið að gefa mönnum kost á að hópa sig saman á eðlilegan hátt um sín hagsmunamál, án þess að það séu endilega flokkspólitísk sjónarmið, sem þar koma til greina.

Þá er það síðari brtt. Það er auðvitað principmál, hve langt skal gengið í því að gera miðstjórnir eða flokksstjórnir alvaldar eða hve mikið af rétti hins almenna kjósanda þeim sé gefið í hendur. Ég vil því spyrja hv. þm., hvort þeim finnist ekki almennt, að vald flokka og flokksstjórna sé orðið nokkuð mikið hér í okkar landi. Mitt álit er það, að flokksvaldið sé orðið alveg sérstaklega mikið í landinu og að þeir flokkar, sem þegar hafa öðlazt þetta vald, megi alvarlega gæta að sér, hvernig þeir meðhöndli þetta mikla vald, þannig að þeir gangi ekki á rétt kjósendanna stjórnarfarslega séð. Þar á ég ekki við, hvernig þeir leggja á skatta eða önnur slík framkvæmdamál, heldur að þeir rýri ekki um of hlut hinna almennu kjósenda til að hafa áhrif á stjórn landsins í heild. Það er t.d. hægt að gera þá breytingu á kosningalögunum, að vald flokksstjórnanna verði það mikið, að einstaklingar geti ekki reist rönd við því. Ég held, að þróunin í þessum málum sé sú, að vald flokksstjórnanna yfir kjósendum og yfir þm. sjálfum fari nú mjög í vöxt og sé jafnframt að safnast á örfáar hendur. Ég held því, að Alþ. sem fulltrúi kjósendanna í landinu verði mjög að gæta að sér um það, hve langt það fer í þessum efnum. Við vitum, að það hefur verið uppi mikil óánægja hjá borgurunum, ekki sízt hinum íhaldssamari, yfir flokkavaldinu. Reynt hefur verið að mynda samtök manna, sem hafa viljað rýra þetta vald og auka vald hinna almennu borgara til íhlutunar um þessi mál. Þessi samtök hafa mörg verið hin undarlegustu að samsetningu, en þau eiga sammerkt í því, að þau hafa orðið skammlíf. Þau hafa ekki getað haldið úti dagblaði, en það er vitað mál, að slíkt er lífsskilyrði fyrir hvern flokk, en til þess þarf mikið fjármagn, svo að slík félagssamtök verða að hafa að baki sér mikið fjármagn. Auk þess þarf blað nokkurn tíma til að öðlast verulega útbreiðslu, en flokkar þeir, sem nú eru í landinu, hafa yfir að ráða áratuga gömlum dagblöðum, sem náð hafa mikilli útbreiðslu. Ástandið hér er því slíkt, að það má teljast nær ómögulegt að mynda hér nýjan stjórnmálaflokk, a.m.k. flokk, sem ætlaði nokkuð að láta til sín taka. Einstaklingur eða einstaklingar, sem ættu dagblað, gætu að vísu myndað um það sérstakan flokk, en hann mundi aldrei verða langlífur, svo að það má teljast faktískt ómögulegt að mynda hér nýjan flokk, a.m.k. eins og nú horfir málum. Þannig hafa þeir fjórir flokkar, sem nú eru í landinu, eins konar einokunaraðstöðu gagnvart kjósendum. Ég vil minna hv. þm. á það, að eitt af því, sem notað er skæðast gegn þingræði og lýðræði, er það, að flokksraáðið sé of mikið og ofbjóði einstaklingunum, og þar, sem tekizt hefur að skapa fasistum fylgi, er það á þessum grundvelli. Ég held því, að Alþingi eigi að gá vel að því, að flokkarnir misnoti ekki það vald, sem þeir hafa. — Hvað þýðir svo þessi síðari brtt. á þskj. 248? Hún þýðir nokkurn veginn, að bönnuð sé breyting á lista, sem flokksstjórnin kemur sér niður á. Hún þýðir aukningu á valdi flokksstjórnarinnar. Þegar stillt er upp lista til bæjar- eða sveitarstjórnarkosninga, fara oftast fram umræður áður um skipun listans, og verður þá oft ágreiningur um ýmis atriði, en meiri hlutinn ákveður svo, hvernig listinn sé skipaður. Er nú réttmætt eða ekki, að hinn almenni kjósandi hafi rétt til að breyta listanum og þar með ákvörðun meiri hluta þess, er sá um uppstillingu listans? Nú er það svo, að þegar gengið er frá listanum, þá hefur flokksstjórnin venjulega haft aðstæður til að skilja þá frá, sem hún hefur ekki velþóknun á, þannig að listi sá, sem flokksstjórnin leggur blessun sína yfir, er venjulega mjög heilsteyptur. Og þó að prófkosningar fari fram, þá er það ekki einhlítt, því að fáir flokkar eru svo vel skipulagðir, að allmargir kjósendur komi þar hvergi nærri og hafi því engin áhrif haft um skipun manna á lista þann, sem þeir þó ætla að fylgja að málum. Hvers vegna má þá ekki leyfa þessu fólki að láta í ljós sína skoðun? Það var sagt hér við 1. umr., að ekki þyrfti nema tiltölulega fáa kjósendur til að breyta röð manna á lista. Þetta er alveg rétt, en ef slík breyting er sett í gang, þá þarf heldur ekki nema fáa af fylgismönnum flokksstjórnarinnar til að gera þær gagnráðstafanir, sem að gagni kæmu, og hún hefur að því leyti mun betri aðstöðu, að hún hefur hið „centraliseraða“ vald flokksins með höndum. Ég held þess vegna, að við ættum ekki að gera þessa breytingu, sem hér er lagt til. Við ættum ekki að auka vald flokksstjórnanna frá því, sem nú er; það er nú almennt svo mikið, að ég held, að það sé ástæðulaust fyrir þær að kvarta undan því, að þær hafi ekki nú þegar nægilegt vald yfir kjósendum. Ég held því, að rétt sé að hafa þennan ventil, þennan breytingarmöguleika fyrir almenna kjósendur, þar sem þeir hafa hvort sem er ekki of mikið um þessi mál að segja samkvæmt stjórnarskránni og kosningalögunum. Ég vildi því mjög eindregið óska þess, ef hv. flm.till. á þskj. 248 hefðu ekkert á móti því, að málinu yrði nú frestað við 2. umr. og atkvæði látin ganga um brtt. við þessa umr. Það verður að hafa í huga, að hér er um mjög þýðingarmiklar till. að ræða og nú er komið fram í 2. umr. í síðari deild. Það er því engin hætta á, að málið dagi uppi, þó að því verði nú frestað, en aftur á móti mjög þýðingarmikið, að þm. gefist kostur á að athuga brtt. þær, sem hér liggja fyrir.