06.02.1951
Efri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

160. mál, læknishéruð

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og öllum hv. deildarmönnum er kunnugt, hefur það sýnt sig, að erfitt hefur verið undanfarið að fá lækna til þess að gegna ýmsum hinum afskekktustu læknishéruðum á landinu. Með þessum héruðum má telja Ögurhérað og Hesteyrarhérað, og í Hesteyrarhéraði hefur verið læknislaust um margra ára skeið. Frv. þetta, sem borið er fram að tilhlutan heilbrigðismálastjórnarinnar, leggur til að sameina þessi tvö héruð í eitt læknishérað, Súðavíkurhérað, og er þá gert ráð fyrir, að læknirinn sitji í Súðavík, en þar hefur á undanförnum árum risið upp þorp, og er talið auðveldara að fá þangað lækni en á hina staðina. Hv. Nd. hefur fallizt á þetta frv. óbreytt, og heilbr.- og félmn. Ed. leggur til, að það verði samþ.