14.12.1950
Efri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

138. mál, virkjun Sogsins

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal nú ekki ræða mjög um efni frv. Það er aðeins út af grg., sem ég vil afla upplýsinga frá hv. n., sem hefur flutt frv. Ég sé hér í kostnaðaráætluninni í grg. þessa setningu: Verksalar, Fosskraft ... 10970000 kr. (Erlendur gjaldeyrir.) — Ég sé nú, að þetta mun kannske eiga að vera nafn fyrirtækisins, sem tekur þetta að sér. Ég hélt í fyrstu, að hér væri um að ræða fosskraft — vatnsréttindin, en svo mun víst ekki vera, en ég vildi mega spyrja fjhn., hvort þetta er sú þóknun, sem verkstjóranum er ákveðin, 10 millj. og 970 þús. kr. — Þá stendur í þriðju línu: Ráðunautar, vélsetar. — Það má vera, að hér sé um prentvillu að ræða, en vera má, að einhver af nm. gæti upplýst þetta. Ég hef bent á þetta áður, og þá hefur þessum „Fosskraft“ verið breytt og er nú með stórum staf, og fleiri smábreytingar hafa verið gerðar.

Að því er snertir efni frv., þá tel ég, að ekki sé um annað að gera en fallast á efni þess. Það mun vera fullráðið á allan hátt, að í þessa framkvæmd sé ráðizt, sem er nauðsynleg.