14.12.1950
Efri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

138. mál, virkjun Sogsins

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv., er lántökuheimild sú, sem ríkisstj. hefur verið veitt um virkjun Sogsins, gersamlega ófullnægjandi, og þarf ekki að greina frá því hér. Frv. er, eins og eðlilegt er, flutt að tilhlutan hæstv. fjmrh., og er ég ekki í sérstöku fyrirsvari um þetta mál, en vil taka fram, út af því sem hér hefur verið sagt, að þessi grg. er sett upp í samræmi við tilboð, sem búið er að taka. Eins og þd. er kunnugt, var nokkur deila um það í blöðunum, hvaða tilboði ætti að taka. En þegar það tilboð kom og grg. frá stjórn Sogsvirkjunarinnar, þá voru allir undantekningarlaust sammála um að taka þessu boði, sem tekið var, og samkvæmt þeim útreikningum, sem í því tilboði felast, og þeim samningum, sem urðu samkvæmt því tilboði, að leggja þessa grg. fyrir frá stjórn Sogsvirkjunarinnar. Ég efast ekki um það, að þessir menn, sem þarna eru í stjórninni, hafi athugað þessi tilboð mjög gaumgæfilega, enda átti ég ýtarlegt tal við suma þeirra, áður en tilboðinu var tekið, og þeir töldu sig ekki geta varið það að taka ekki því tilboði, sem þarna liggur fyrir, því að samkvæmt samningi, sem gerður var milli stjórnar Sogsvirkjunarinnar og stjórnar Laxárvirkjunarinnar, þá ræður ríkisstj. ekki yfir málinu, ef öll n. er sammála, en ef hún er ekki sammála, er það borið undir úrskurð ríkisstj. — Þannig liggur málið fyrir og þannig eru gerðir þeir útreikningar, sem hér liggja fyrir, þ.e. gerðir af þeirri stjórn, sem við fengum málið í hendur.