14.12.1950
Efri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

138. mál, virkjun Sogsins

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Enda þótt mál þetta sé ekki flutt að beiðni landbrn., þá vil ég segja það, að það kann að virðast óeðlilegt, að frekari upplýsingar liggi ekki fyrir en hér hafa verið gefnar. En samt sem áður vil ég ekki láta þessari aths. með öllu ómótmælt, þó að ég hafi annars ekkert við það að athuga, að n. athugi málið fyrir næstu umr. — Það er nú svo, að búið er að ákveða Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina og í báðum tilfellum í samræmi við samninga, sem framkvæmdavaldið hefur falið á hendur ákveðnum stjórnum, sem tekið hafa ákveðnum tilboðum, sem útreikningar og samningar miðast svo við, og lánsheimildin er tekin upp í samræmi við þessa samhljóða samninga. Það er því ekki eins óeðlilegt og virðast kann í fljótu bragði, þó að allar upplýsingar liggi hér ekki fyrir. Og n. getur vitaskuld fengið yfirlit um þetta, þegar henni sýnist. Það er enginn ágreiningur um að vinna þetta verk, enda eru menn nú farnir að þreifa á því, hve aðkallandi það er, þegar nú er að verða rafmagnslaust í bæjarhlutunum á víxl vegna ónógrar orku hér í Rvík, og hið sama á við um Akureyri.