22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

138. mál, virkjun Sogsins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið við 2. umr. þessa máls, að hv. frsm. fjhn. vildi halda því fram, að þessar 158 millj. væru hið sama og þær 34 millj., sem talað var um sem ríkisábyrgð. Út af þessu hafði ég samband við Steingrím Jónsson, forstjóra Sogsvirkjunarinnar, og ritaði hann svo hljóðandi upplýsingar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lögum um virkjun Sogsins, frá 23. apríl 1946, var gengið út frá áætluðum virkjunarkostnaði þá 40 millj. kr., og ráðgerðu lögin, að ríkíssjóður ábyrgðist allt að 85%, eða 34 millj. kr. — Þessi virkjunaráætlun var gerð af rafmagnsveitu Reykjavíkur með aðstoð verkfræðinga Almenna byggingarfélagsins og átti við virkjun neðri Sogsfossa, Írafoss og Kistufoss, saman í einni aflstöð, en þá var ráðgert að virkja aðeins helming alls fallsins, eða 20 þús. kw., er síðan hefur breytzt í meðförum í 2/3 fallsins, eða 31 þús. kw. — Þá var ráðgert að leggja eina háspennulínu frá Sogi til Reykjavíkur á tréstaurum, er flutt gæti helming alls aflsins, en nú er ráðgerð lína á stálturnum, er flutt geti allt aflið, svo að gamla línan verður þar á eftir til vara.

Væri núverandi tilhögun umreiknuð til verðlagsins 1945, mundi kostnaðaráætlun nema 54 millj. kr., en er áætlað nú 158 millj., eða 2,9 sinnum hærra. — Síðan 1995 hafa orðið gengisbreytingar, er gera mikið af erlendu efni til virkjunarinnar 2,5 sinnum dýrara, fyrir utan verðhækkanir, er orðið hafa síðan 1945, sem á sumu efni eru allmiklar. Nú má t.d. geta þess, að eirvír kostaði kr. 2,70 á kg 1945, en nú kr. 12,00. Innanlands hafa einnig orðið verðhækkanir síðan 1945.“

Þetta ætla ég, að gefi svar við þeim spurningum, sem hv. frsm. bar fram í sambandi við þetta mál. Það sést, að virkjunarkostnaður nú er nokkru meiri, en aðallega er um að ræða breytingar á verðlagi.

Þá er það að segja um brtt. á þskj. 487 frá hv. þm. Barð. (GJ), að ég get ekki mælt með samþykkt hennar. Að vísu er það almenn regla, að miðað sé við 85% af stofnkostnaði, en hér er um að ræða félagseign ríkissjóðs og Reykjavíkurbæjar, og þar sem ríkið er þess ekki megnugt að leggja þetta fé beint fram, þá verður að afla virkjunarkostnaðarins með lánum. Því get ég ekki mælt með samþykkt þessarar till.