26.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

185. mál, landshöfn í Rifi

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af fyrri ræðu hv. þm. A-Sk. Hann lét í ljós undrun sína yfir því, á hvern hátt mál þetta bæri hér að og að fyrir Alþ. lægju ekki þær upplýsingar. sem venja væri, þegar um slík mál væri að ræða. Ég held, að það sé einmitt öfugt með þetta mál og mörg hafnarmál, sem legið hafa hér fyrir þinginu, því að hér liggja líklega fyrir betri upplýsingar en um nokkurt annað hafnarmál. Eins og hv. þm. Snæf. benti á, þá lá fyrir þinginu 1946 frv. um hafnargerð í Rifi, og fylgdi því frv. ekki aðeins álitsgerð um kostnað og annað í sambandi við verkið, heldur einnig teikningar varðandi verkið, svo að þm. gátu fylgzt með, hvað gera ætti. og voru þær prentaðar í þingtíðindum, og er þær að finna á bls. 387 og áfram í A-deild þeirra frá 1946, og mun slíkt einsdæmi, að teikningar fylgi þingskjölum. Til viðbótar voru svo útreikningar áætlunarinnar færðir til nútímaverðlags á s.l. vetri og sumri og þeir útreikningar sendir fjvn., þannig að sú n.. sem er fjölmennasta n. þingsins, gat kynnt sér málið rækilega, og ekki nóg með bað, heldur tók n. sér ferð á hendur á staðinn til að kynna sér málið sem bezt. Með öðrum orðum liggja fyrir teikningar og áætlunin frá 1946 og endurskoðun þeirrar áætlunar 1950 og athugun n. á staðnum á sama ári. Ég tel þennan undirbúning eins fullkominn og frekast er hægt. Ég held, að venjulega kynni n. þær, sem málin fá til athugunar, sér málin vel, og er varla mögulegt, að hver einstakur þm. geti kynnt sér málin á viðunandi hátt, og ég held, að athugun fjvn. og sjútvn. á þessu máli sé eins fullkomin og hægt er. — Ég vildi láta þetta koma fram og ekki láta því ómótmælt, að hér væri farið sérstaklega gálauslega og óvenjulega að. Ég held þvert á móti, að allur undirbúningur sé á þann hátt sem bezt verður á kosið. Ég skal ekki ræða um nauðsyn landshafnar á þessum stað, en staðhættir eru mjög ákjósanlegir, og jörðin, þar sem höfnin verður byggð. hefur verið keypt fyrir 75 þús. kr., sem ég tel gott verð, og undirbúningur allur er sem bezt verður á kosið.