19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

67. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. nr. 62 frá 1939, um tollskrá o.fl., sem hv. þm. Ak. flutti á þskj. 109, var vísað til fjhn. þessarar d. Fjhn. hefur fengið álit frá Félagi ísl. iðnrekenda, dags. 17. okt., þar sem það mælir eindregið með frv. Bendir félagið réttilega á það, að er tollskráin var samin, hafi engar verksmiðjur verið starfandi hér á landi, er ynnu úr hráefni því, sem frv. ræðir um að lækka vörumagns- og verðtoll á. Þá ræðir félagið um hinar fjölbreyttu vefnaðarvörur, sem innlendu verksmiðjurnar framleiða nú, og sendir með bréfi sínu meðmæli tveggja þekktra verzlana um framleiðsluvörur Dúkaverksmiðjunnar h/f á Akureyri, sem telja. að vörur verksmiðjunnar þoli fyllilega samanburð við erlendar vörur sömu tegundar hvað gæði snertir.

Frv. og bréf Félags ísl. iðnrekenda, ásamt fylgiskjölum þess, sendi fjhn. til tollstjórans í Reykjavík og óskaði umsagnar hans um málið. N. hefur borizt mjög ýtarlegt álit frá tollstjóranum, sem virðist vera byggt á sanngirni í garð verksmiðjueigenda, — en þó jafnframt hafðir í huga hagsmunir neytendanna, sem þurfa mikið á þessum vörum að halda.

Eftir að tollstjórinn í umsögn sinni hefur mælt með nokkurri lækkun á tollum á baðmullargarni, segir hann — með leyfi hæstv. forseta:

„Um lækkun á tollum af garni úr gerviþráðum gegnir öðru máli en með baðmullargarnið. Þar er tollverndin meiri. Eftir tollskránni eru tollarnir á gerviþráðagarni, öðru en tvinna og ólituðu netjagarni, 20 aura vörumagnstollur af kg og 15% verðtollur. Vefnaður og prjónavara úr slíku garni teljast aðallega til 46B. kafla tollskrárinnar nr. 12, 51. kafla 7–12 og 52. kafla 6–7, og eru tollarnir eftir þessum númerum 20 aura vörumagnstollur og 30—50% verðtollur. Tollverndin er því alltaf 15°/ verðtollur og oft meiri.“

Nál. fjhn. á þskj. 686, sem hér er til umr., er byggt á framangreindri umsögn tollstjórans, og var n. sammála um afgreiðsluna. Þó vil ég taka það fram, að fjhn. viðurkennir nauðsyn þess, að verksmiðjum þeim, sem þegar hafa verið byggðar hér á landi og virðast hafa skilyrði til að framleiða góðar vefnaðarvörur á nokkurn veginn samkeppnisfæru verði við það, sem sambærilegar erlendar vörur kosta, komnar hingað til lands með öllum kostnaði, verði gefinn kostur á nægilegu hráefni, og að tollar, bæði á hráefni verksmiðjanna og eins á þær vörur, sem fluttar eru inn fullunnar, verði ákveðnir með hliðsjón af því, að fyllilega sé tekið tillit til þarfa verksmiðjanna í þessu efni.

Að öðru leyti skýrir nál. sig sjálft, og tel ég því óþarft að fara fleiri orðum um það.