12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan mega beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. vegna þessa lagafrv., hvort það muni ekki vera meiningin, að nokkurn veginn sömu ákvæði haldist í reglugerð um þessi mál og verið hafa fram að þessu. Hingað til hefur það t.d. verið þannig, að í þeirri n., sem hefur látið rn. í té umsagnir um innflutning erlendra verkamanna, hafa verkalýðsfélögin átt fulltrúa. Og ef ég man rétt, þá hefur verið tekið mjög mikið tillit til þeirrar n. og jafnvel þannig, að ekki hefur verið leyfður innflutningur verkafólks, ef sú n. hefur lagzt gegn því. Ég vil því spyrja, hvort slík ákvæði muni ekki haldast eftir sem áður.

Ég tek annars eftir því, að það er ein smávægileg breyt., sem á að gera á l. með þessu frv., sem sé að taka það upp að geta veitt leyfi erlendum atvinnurekendum til atvinnurekstrar hér á landi, og er þetta í 7. gr., sem mér skilst, að ekki hafi verið löglegt. Það hefði verið æskilegt að fá ofurlítið nánari upplýsingar um það, hvernig þetta. fyrirkomulag sé hugsað. Ef erlendum mönnum eru veitt leyfi til atvinnurekstrar hér, þá mætti það ekki brjóta í bága við þau lög, sem banna þeim að eiga fasteignir hér á landi. Þetta mundi þá sennilega koma aðeins til greina í sambandi við rekstur þeirra erlendu manna, sem ekki gætu haft umráð yfir fasteignum. Nú er vitanlegt, að íslenzkir atvinnurekendur eru í raun og veru betur útbúnir til atvinnurekstrar nú en þeir hafa oft verið áður, og þess vegna er það í raun og veru dálítið vafasamt, hvort það sé rétt að fara að taka það í löggjöf nú að veita erlendunt atvinnurekendum þann möguleika a.m.k. að keppa við íslenzka atvinnurekendur. Við vitum, að það hefur verið nokkur óánægja út af því að undanförnu, að keppt hefur verið að undanförnu um allstór mannvirki að taka framkvæmd þeirra að sér. Og við vitum, að þá hefur svo farið stundum, að erlendir atvinnurekendur hafa komizt þar að í staðinn fyrir íslenzka, vegna þess að þeir hafa getað boðið lægra, og því hefur verið erfitt að standa á móti. — En ég hygg, að heppilegt væri, að hæstv. ráðh. gæfi okkur skýringu á, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að nota svona heimild, því að það er um þetta eins og alltaf er, þegar með svona lagafyrirmælum er heimilað einhverri ríkisstj. að gera vissa hluti, þá geta þær heimildir verið saklausar og jafnvel alveg nauðsynlegar, til þess að hægt sé að nota þær í undantekningartilfellum, en slík lagaákvæði gætu líka verið skaðleg, ef ríkisstj. notaði þau of oft.

Í brtt., sem flutt er af hv. heilbr.- og félmn., er tekið skýrt fram, að atvinnuveitendum skuli veitt þessi leyfi. Ég er í dálitlum efa um, að það sé rétt að gera þetta að aðalreglu í þessu efni. Þetta er að gefa atvinnurekendum óþarflega mikið vald í þessum efnum, að þeir skuli fá rétt til þess að taka erlenda menn í sína þjónustu beinlínis og án þess að þurfa að fullnægja öðrum skilyrðum en þeim, sem sett eru í 3. gr. og oft er hægt að deila um. Hins vegar ef sú regla er höfð, að félmrh. veiti leyfi til innflutnings erlendra verkamanna, þá takmarkar það meir innflutning þeirra. Ég held. ekki sízt af því að nú eru þannig horfur í þjóðfélaginu, að atvinnuleysi er orðið tilfinnanlegt, að það sé áreiðanlega mikill áhugi af hálfu verkalýðsfélaganna og launþega yfirleitt fyrir því, að ekki sé rýmkað um möguleika fyrir atvinnurekendur til þess að flytja inn útlenda verkamenn. Ég held þess vegna, að það þurfi að koma greinilega í ljós. hver stefna hæstv. ríkisstjórnar er, þegar farið er fram á svona breyt., og hvernig hún mundi hugsa sér að nota þá heimild, sem ríkisstj. væri gefin með þessu.