12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Aðeins örfá orð út af því, sem hv. 8. landsk. sagði. Ég skal taka fyrst fram, að ákvæðið um það, að dómsmrn. veiti landsvistarleyfi, en félmrn. atvinnuleyfi, er algerlega óbreytt. Er alveg rétt, að þetta veldur að vísu nokkrum snúningum og seinni afgreiðslu. Ekki hefur þó verið talið rétt að breyta þessu. En að dómsmrn. verði að vita algerlega um og fylgjast með, hvað gerist, er alveg gefið.

Þá minntist hv. 8. landsk. á 3. gr. frv. og taldi, að það vantaði í raun og veru ákvæði í hana um, að leita skyldi álits viðkomandi samtaka um þau réttindi eða þau leyfi, sem veita má samkv. þeirri gr. Ég hefði ekki haft á móti því, að slík brtt. hefði verið sett inn í frv. Mér finnst ósköp eðlilegt að leita slíks álits, og þetta er framkvæmt þannig nú og höfð sem bezt samvinna. En mér er dálítið sárt, ef farið er nú að seinka afgreiðslu þessa máls frá hv. d. með því að taka það af dagskrá nú. Ég hefði því álitið, að komið gæti til greina að athuga þetta í Ed., ef áhugi er fyrir því. En ég vildi heldur óska, að hægt væri að afgr. málið nú til Ed., því að ég hef nokkurn áhuga fyrir því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég vil leyfa mér að taka fram, út af því, sem hv. 8. landsk. talaði um sorglega reynslu af innflutningi verkafólks — og mun hafa meint þýzka verkafólkið, að ég tel nú ekki, að þessi reynsla sé neitt sérlega sorgleg. En eins og alltaf má búast við, þegar í fljótheitum er tekinn hópur af fólki, verður misjafn sauður í mörgu fé. Allmargt af fólkinu er farið út aftur, og var reynsla af því nokkuð misjöfn. En hins má geta, að ég held, að fram undir helmingur af fólkinu sé að meira eða minna leyti rótgróið í sveitum landsins, hefur setzt þar að og gengið inn í hina íslenzku þjóð, og er ekki líklegt, að það verði út af fyrir sig til neins ills. Við vitum, að undanfarið hefur verið fólksfæð í sveitum landsins og vantað starfsfólk. Þarna hefur komið nokkur hópur, sem áreiðanlega sezt þar að og starfar og verður með tímanum Íslendingar — eða afkomendur þess, og virðist ekkert slæmt um það að segja. Þetta vildi ég aðeins taka fram út af því, sem hér hefur fram komið. En þetta breytir ekki að öðru leyti neinum ákvæðum í þessu frv. varðandi innflutning á fólki til landbúnaðar.