05.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki ræða mikið þetta atriði. Ég sé, að þetta mál hefur legið heilan mánuð fyrir þinginu, en hefur þó ekki verið sent neinum aðilum til umsagnar, ekki Vinnuveitendasambandi Íslands, og snertir þó þetta mál þá aðila mikið. Að vísu geri ég ekki kröfur um, að þetta verði gert, en vil í sambandi við 8. gr., sem nú er umorðuð, benda á, að þar sem tekið er upp í tölul. 2, eins og hann er í frv., að ekki þurfi sérstakt leyfi fyrir menn, sem dvelja hér við rannsóknaeða vísindastörf — ég vildi benda á hvort ekki megi einnig taka þetta undir leyfin. Mér er ljóst, að það hefur stafað af því nokkur hætta, að erlendum mönnum hefur stundum verið leyft að stunda hér alls konar rannsókna- og vísindastörf, án þess að haft hafi verið með því nokkurt eftirlit. Ég sé ekki, að hér þurfi að verða neinn árekstur. Ráðh. kynnir sér á hverjum tíma þá aðila, sem hér koma til greina, og ástæður allar. (PZ: Það er til nokkuð, sem heitir rannsóknaráð.) Rannsóknaráð hefur ekkert með þetta að gera. — Annað, sem ég vildi benda á, er í sambandi við 3. tölul. 6. gr., að tilvísunin þar stenzt ekki, þar sem gr. verður 5. gr. — Enn fremur þar sem stendur svo í síðustu málsgr. 5. gr.: „Enn fremur má ráða erlenda menn á íslenzk skip innan þeirra takmarka, sem í lögum segir“ — þá vil ég taka fram, að ég skoða það svo sem það raski í engu ákvæðum gildandi laga, þótt þetta verði fellt niður eins og nú er lagt til.

Ég mun svo ekki efnislega ræða þetta mál að öðru leyti. Aðalatriðið er, að það ætti að vera tryggt, að erlendir menn, sem hér stunda atvinnu, séu undir eftirliti og þurfi hérvistarleyfi.