22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og frá er skýrt í grg. frv., er það flutt að ósk félmrh., en nm. hafa óbundnar hendur um einstök atriði frv., og einn þeirra, Steingrímur Aðalsteinsson, sem mætti á fundi í málinu fyrir hv. 7. landsk., tók einnig fram, að hann hefði óbundið atkvæði um frv. í heild. Aðrir nm. hygg ég séu sammála um frv. og geri ekki ráð fyrir, að þeir muni flytja brtt. við það. Í grg. ríkisstj. er skýrt frá því, að frv. sé lagt fyrir Alþingi með tilvísun til ummæla hæstv. fors.- og félmrh. við umr. í þessari hv. deild, þegar l. nr. 122 frá 28. des. s.l. voru afgr., um það, að hann mundi taka upp í sérstakt frv. till. um breyt. á 29. gr. l., um innheimtu hjá bæjar- og sveitarfélögum, sem lögð var fram í báðum deildum þá, en tekin aftur af hæstv. ráðh. Úr því að lagt var til, að gerðar yrðu breyt. á l. frá 28. des. s.l., þótti rétt að taka með nokkur smærri atriði, sem komið hefur í ljós, að æskilegt væri að breyta, úr því að lögin voru opnuð á annað borð.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að þessum breyt. Það er lagt til í 1. gr., að aftan við 8. gr.

l. bætist fyrirmæli þess efnis, að ef ekki er kunnugt um framfærslusveit barnsföður, skuli haldast óbreytt skylda dvalarsveitar barnsmóður til að endurgreiða Tryggingastofnuninni lífeyri barns, þangað til framfærslusveit barnsföður er viðurkennd eða úrskurðuð af ráðuneyti. Ég vil vísa til grg. ríkisstj. með þessari gr., en þar er lögð áherzla á það, að réttargangur slíkra mála sé við það miðaður, að málin séu sótt og varin af sveitarfélögum sjálfum, en ekki öðrum aðilum. Þykir því rétt og hentugra að halda þessu óbreyttu meðan felldur er úrskurður.

Breyt., sem felst í 2. gr., skýrir sig sjálf, þar er aðeins um orðalagsbreyt. að ræða.

3. gr. fjallar um breyt. á 26. gr. l. frá 28. des. s.l., en breytir þó í engu meginefni gr. og er mjög smávægileg breyting og mundi ekki nema meir en ca. 100 þús. kr. á ári, en kemur í veg fyrir mikla skriffinnsku og vafstur. — Um þessar 3 gr. hefur enginn ágreiningur orðið í n.

4. gr. fjallar um, hvernig skuli innheimta framlag sveitarfélaga, ef vanskil verða á greiðslu 1 ár eða lengur. Þessi ákvæði eru þau sömu og fólust í till. þeirri, sem borin var fram við 3. umr. l. frá 28. des. s.l. hér í þessari hv. deild. Ég læt nægja að vísa til grg. hæstv. ríkisstj. um þetta atriði, en vil taka það fram, að frá starfsmönnum ráðuneytisins komu till. um stórum víðtækari aðgerðir í þessu efni. Þar var gert ráð fyrir að bæta úr þessu bæði með ströngum viðurlögum og niðurfelling bótagreiðslna, ef frekari vanskil yrðu. N. gat ekki fallizt á, að gripið yrði til slíkra ráðstafana, og taldi mjög tvíeggjað að beita slíkum aðgerðum vegna vanskila sveitarfélaganna og fella þannig e.t.v. niður bótagreiðslu til þeirra einstaklinga, sem standa í skilum með iðgjöld sín. Ef vanskil sveitarfélagsins væru látin ganga yfir þetta fólk, yrði það aðeins til þess, að það hætti einnig að greiða sín iðgjöld. Við álitum, að með því að taka upp slíkar aðgerðir sé beinlínis stefnt í voða framtíð Tryggingastofnunarinnar. — Hins vegar álítum við, að taka verði til ráðstafana við sveitarfélögin sjálf, sérstaklega þegar litið er á það, að vanskil flestra sveitarfélaganna stafa ekki af því, að ekki séu lögð á útsvör fyrir gjaldaliðum, og ekki heldur af því, að svo stórlega skorti á um innheimtu útsvaranna, heldur af þeirri sök, að sveitarstjórnirnar nota féð til annarra framkvæmda og er að sjálfsögðu ekki hægt að una því, að þær ráðstafi því fé, sem tryggingunum ber, til annarra framkvæmda.

Ég vil að lokum taka það fram í sambandi við grg. frv., að þar segir, að í árslok 1950 hafi 6 kaupstaðir átt ógreitt framlag frá 1949, samtals 1 millj. 160 þús. kr. Af þessari upphæð er greitt nú þegar 3–4 hundr. þús., en eftir standa nálega 800 þús. kr. Af þeim 7,4 millj., sem ógreitt var um áramót af framlögum 1950, hafa nú verið greiddar rúmlega 2 millj. króna. Mér þótti rétt að láta þessar upplýsingar fylgja, þar sem þetta kemur ekki fram í greinargerð. — Ég sé ekki ástæðu til að leggja til, að málinu sé vísað til n., en ef hv. þm. óska eftir einhverjum sérstökum athugunum í n., þá er það sjálfsagt.