29.01.1951
Efri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

156. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var fjölmennara hér í hv. deild en nú er, og þá var hér staddur hv. minni hl. heilbr.- og félmn., sem flutt hefur brtt. við þetta frv., sem ég lýsi stuðningi við; þó eru það einkum 2 brtt. hans, sem ég vil sérstaklega styðja og leggja áherzlu á, eins og hann gerði raunar sjálfur líka. Það er í fyrsta lagi brtt. við 1. gr. Ég álít það hins vegar, úr því að almannatryggingarnar taka að sér að greiða meðlög til barnsmæðra með óskilgetnum börnum, þá álít ég það hins vegar, að þær annist ekki að fullu innheimtu og endurheimt þessara meðlaga. Ég tel óþarft að leggja það á dvalarsveitir barnsmæðranna að reka mál eða lána fé vegna þessara óreiðumanna. Ég mun því hiklaust styðja brtt. hv. minni hl. — Hin till. er brtt. við 4. gr. frv. Ég álít, eins og flm. brtt., undarlegt, hve félmrn. leggur mikla áherzlu á að fá þennan rétt fyrir ríkið til harðrar innheimtu á hendur þeim sveitarfélögum, sem hér er farið fram á. Ég ætla ekki að fara að bera í bætifláka fyrir þau vanskilasveitarfélög, sem hafa undanbrögð að ástæðulausu á þessum greiðslum, en hitt er staðreynd, að sveitarfélög geta komizt í svo erfiðar kringumstæður, að þau lendi í vanskilum við Tryggingastofnunina, án þess að það séu nokkrar refjar af þeirra hendi. Eins og hv. 7. landsk. tók fram í umr. um þetta mál, — ég hef athugað það síðan og veit að það er rétt, - þá má telja, að allt að 80% af útgjöldum sveitarfélaganna séu lögbundin, og þegar svo er, hafa þau litlu úr að spila til þeirra framkvæmda, sem þau sjálf ákveða, og lítið upp á að hlaupa. Mér finnst það næsta auðskilið og náttúrlegt, að gjöldin til trygginganna, þó þau virði tryggingarnar mikils, verði út undan ef þau komast í þrot. Ekki geta sveitarfélögin lagt niður að greiða til skólanna og ekki mega þeir stöðvast, ekki geta sveitarfélögin heldur lagt undir höfuð að sjá þurfamönnum fyrir framfæri þeirra, og ekki geta sveitarfélögin dregið greiðslur til sjúkrasamlaganna, þannig að það er niðurstaðan, að þegar áföll verða, þá lendir það á tryggingunum, máske öðrum frekar, að dregnar verði greiðslur til þeirra. Það þarf ekki vont hugarfar til trygginganna til þess að þetta komi fyrir, síður en svo, hvað þá að það réttlætti, að sá réttur, sem hér er verið að fara fram á til handa ríkinu til þess að krefja sveitarfélögin um greiðslur, sé eingöngu miðaður við það, að verið sé að sækja fé á hendur hröppum. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að það þekkist ekki sú innheimtuaðferð, sem hér er ætlað að beita gegn sveitarfélögunum, að ganga megi í val útsvara og velja úr tekjunum. Hv. þm. Barð. sagði, að hér væri verið að veita ríkinu sama rétt gagnvart sveitarfélögunum og þau hefðu á innheimtu útsvara, þ.e.a.s. þetta væri samsvarandi við lögtaksheimildina. Það er rétt hjá hv. þm., að útsvör eru hreint ekki sjaldan innheimt með lögtaki, en þetta er þó ekki það sama, því þegar lögtak er framkvæmt, þá er þó ekki nær gengið en það, að útsvarsgreiðandi má vísa fram þeim eignum, sem hann helzt vill af hendi láta, og þeim er skyldugt að veita viðtöku eftir mati, en hér biður umboðsmaður ríkisins aðeins um útsvarsskrána og merkir sér þau útsvör, sem hann helzt vill innheimta. Ef hliðstæða væri í þessu efni, mætti oddviti eða bæjarstjóri vísa fram þeim útsvörum, sem hann helzt vildi af hendi láta. Eg held, að ekkert sé athugavert við það, þó lagt sé hald á ákveðinn hluta útsvara jafnharðan og þau innheimtast, en með þessu frv. er of langt gengið og ekki freklega til orða tekið, þó sagt sé, að sveitarfélögunum sé sýnd lítilsvirðing með því að beita þau svona harðri innheimtukló, og ekki samboðið stofnun eins og tryggingunum að láta innheimta fé með slíkum hætti, og þess gerist heldur engin þörf fyrir tryggingarnar. Þær þurfa á velvilja að halda og eiga ekki að brjóta hann af sér með því að beita sveitarfélögin slíkum afarkostum.

Ég held, að það sé rétt og það sé sanngjarnt, sem hv. 7. landsk. sagði hér í umræðum um þetta mál, að tryggingunum hefði ekki tekizt að létta af sveitarfélögunum framfærslu þurfamanna. Ég tek þetta fram vegna þeirra orðaskipta, sem fram hafa farið í hv. deild um þetta efni. Hins vegar hafa þær létt á sveitarfélögunum í þessu efni, en þó ekki svo, að mikill þungi hvílir á þeim enn þá, og hætt er við, að hann fari vaxandi, því ekki er fullkunnugt um, hver eru sannindi í þessu, og ekki nægir að vitna í liðinn tíma, sem hefur verið óvenjulega góður atvinnutími, svo þurfamenn hafa orðið færri en ella, en hætt er við, að þeim fari fjölgandi á komandi árum, og þá breytist það hlutfall, sem verið hefur um þessi mál. Tryggingastofnunin er vinsæl stofnun, en þó er það nú svo, ef farið yrði að ganga á sveitarfélögin með því að velja úr útsvörum, að þá yrði það gagnrýnt, að tekið væri fé af sveitarfélögunum til þess að greiða fjölskyldubætur, máske til efnaðasta mannsins í sveitinni, eða til að greiða konu hans fæðingarstyrk o.s.frv. Ég bendi á þetta vegna þess, að því hefur verið haldið fram, að Tryggingastofnunin skili sveitarfélögunum svo miklu fé, að ekki sé tiltökumál, þó að sveitarfélögin verði að borga sitt framlag til trygginganna. En því er nú einmitt svo farið, að mikið af því, sem tryggingarnar borga, fer í aðra staði en þá, sem sveitarfélögin geta beinlínis talið sér til tekna. Ég viðurkenni þó, að það sé rétt í málflutningi þeirra, sem vilja leggja hald á útsvör ríkisstofnana, svo sem áfengisverzlunarinnar og síldarverksmiðja ríkisins, og væri reiðubúinn til að greiða slíkri till. atkv. að ríkið tæki til sín útsvör þessara stofnana, en þau gengju ekki til vanskilasveitarfélaga.

Ég hef nú lýst afstöðu minni til þessa máls, og ég vænti þess, að hv. deild skoði vandlega hug sinn, áður en hún samþykkir að beita sveitarfélögin þessari innheimtuaðferð, sem vafalaust verður sveitarfélögunum mjög erfið.