29.01.1951
Efri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið miklar umr. um þetta frv., og á síðasta fundi var af hálfu meiri hl. n. vikið að mér allhörðum ummælum, sem e.t.v. væri ástæða fyrir mig að svara. Mun ég þó láta það ógert að sinni, en halda mér í þess stað að málsatriðum, og þá sérstaklega að ákvæðum 4. gr., er mestur styr hefur staðið um.

Ég hef leyft mér í nál. að fara nokkrum orðum um aðstöðu sveitarfélaganna, vegna þess að í grg. frv. og í málflutningi yfirleitt er að mínu áliti gert meira úr nauðsyn aðgerða á hendur þeim en réttmætt getur talizt og eðlilegt. Ástæðan, sem höfð er á oddinum, er sú, að 5–6 sveitarfélög skuldi tryggingunum um 800 þús. kr. Hins vegar eru þær upphæðir, sem sveitarfélögin áttu að greiða Tryggingastofnuninni á þessu tímabili, eða frá 1947–49, 33 millj. kr.; og vanhöldin nema aðeins 2–21/2%, og getur það ekki talizt stór hundraðshluti miðað við allar aðstæður. Þetta út af fyrir sig er því ekki mikið tilefni til að herða svo innheimtuákvæðin. Í því sambandi mætti t.d. spyrja, hve miklum vanhöldum Tryggingastofnunin hefði orðið fyrir á sama tíma af ýmsum öðrum tekjuliðum. Ég hygg, að þau vanhöld séu meiri en af því fé, sem sveitarfélögin greiða til hennar. Í heilbr.- og félmn. var lagt fram yfirlit um hag Tryggingastofnunarinnar, og af því sést, að mjög stórir tekjuliðir frá öðrum aðilum eru vangoldnir í árslok 1949. — Þá mætti enn fremur spyrja, hvort sveitarfélögin, sem skulda þessi 2–21/2%, hafi ekki sjálf orðið fyrir meiri vanskilum af þeim, sem áttu að greiða fé til þeirra og það jafnvel ríkissjóði sjálfum. Ég held, að öllum, sem starfa við sveitarfélögin, þætti þeim gjöldum vel til skila haldið, ef ekki stæði meira eftir en þessi hundraðshluti. — Þá ber í þriðja lagi fullkomlega að taka til greina, að þau sveitarfélög, sem hér eiga hlut að máli, hafa í þessu alveg sérstakar málsbætur; þetta eru útgerðarbæir, sem hafa á undanförnum árum átt allra sveitarfélaga örðugasta afkomu, slík hrakföll sem að útveginum hafa steðjað. Og úr því að tæpt hefur verið á nöfnum af hv. 4. þm. Reykv., sé ég ekki ástæðu til annars en að tilgreina, hvaða sveitarfélög hér er um að ræða. en þau eru Ólafsfjörður, Siglufjörður, Ísafjörður, Keflavík, Vestmannaeyjar og Hafnarfjörður. Mun hinn síðast taldi hafa greitt skuld sína eftir áramót. — Allir þessir bæir eiga skattgreiðendur sína fyrst og fremst meðal útgerðarfélaga, sjómanna og fólks, sem á allan hag sinn undir viðgangi útgerðarinnar, og þarf ekki að leiða að því neinum getum, sem víst er, að þeir hafa orðið fyrir miklum vanhöldum á sínum tekjum. — Því hefur verið slegið hér fram, að ég væri að læða inn óvild til Tryggingastofnunarinnar með afstöðu minni. Mér er nú spurn, hvort nokkur ímyndi sér, að vangreiðslur sveitarfélaga, sem stjórnað er af flokksbræðrum hv. 4. þm. Reykv., stafi af óvild til trygginganna. Ég held það sé ljóst, að hvorki afstaða mín né þessara sveitarfélaga sé mótuð af slíkri óvild. Í heild hafa sveitarfélögin greitt langsamlega stærstan hluta gjalda sinna til stofnunarinnar, eða 98 kr. af hverjum 100, sem þeim bar að greiða, miðað við árslok 1949 og miðað við upphæðir, sem taldar eru í vanhöldum nú um áramót.

Mitt sjónarmið í þessu máli er af þessu mótað, og enn fremur því, að ég get fallizt á, að skapazt hafi nýtt tilefni með breytingu Alþ. á tryggingalöggjöfinni nú fyrir nýár til að skapa stofnuninni meiri tryggingu fyrir, að hún fái gjöld sín greidd, þar sem kalla má, að aðstaða hennar í þessu efni sé nú gerbreytt. Ég vildi því ekki ganga á móti því, að hert yrði á innheimtuákvæðunum, enda þótt það sé rétt, sem hv. þm. Vestm. benti á, að lög eru til um þetta efni, þar sem t.d. er gert ráð fyrir aðgerðum eins og dagsektum. Hins vegar get ég með engu móti fallizt á það, að sú till., sem starfsmaður úr félagsmálaráðuneytinu stendur hér að og hv. meiri hl. styður, sé heppileg. Enda er það svo, að fyrst bryddi á till., sem gekk út á það að svipta hina tryggðu rétti sínum, ef þeir lentu í vanskilum, og það upp til hópa, ekkjur og munaðarleysingja. En þessi till., svo fráleit sem hún var, sýnir, af hvaða hugarfari að þessu er gengið — bæði með ofsa og ofstæki, en alls ekki af fullri skynsemi. Hún var að vísu dregin til baka, en þessi till., sem hér liggur fyrir, er mótuð af hinu sama hugarfari: að setja sem hörðust viðurlög, ef út af bregður um greiðslurnar. En það er svo um slík viðurlög, að þar er stundum of langt gengið því til tjóns, er gagn skyldi vinna. Og um þessi ákvæði er ég sannfærður, að þau mundu verka öfugt við tilgang sinn. Það lægi þannig beint við fyrir sveitarfélögin eða starfsmenn þeirra að afhenda ríkissjóði til innheimtu ekki aðeins tiltekin útsvör, heldur öll útsvörin og gera sér þannig hægt um hönd, er að kreppir. Till. er þannig ekki aðeins lítilsvirðing við starfsmenn sveitarfélaganna, heldur einnig líkleg til að vekja andúð á þeirri stofnun, sem hún á að styðja.

Eins og ég hef þegar sagt, þá hef ég ekki treyst mér til að ganga á móti því, að nokkru þyngri viðurlög verði sett til að tryggja aðstöðu stofnunarinnar frekar, sem með nýrri lagasetningu er orðin erfiðari en áður var. Það sýnir ekki andúð frá minni hálfu til Tryggingastofnunarinnar, að ég hef lagt til, að leggja megi hald á 25% álagðra útsvara í sveitarfélögunum til greiðslu á framlögum til hennar. Mér er þó ljóst, að benda mætti á það, að í einstökum sveitarfélögum eru útsvör lögð á ríkisstofnanir, sem eru sér í flokki. En ég hef ekki séð ástæðu til að taka það sérstaklega til greina. Ég álít, að það muni nægja að leggja hald á þessi 25% til þess að greiða áfallnar skuldir og með því muni sveitarfélögin fljótlega losna undan löghaldinu á útsvörunum. Það má vel vera, að einhverjum færi eins og hv. þm. Vestm., að þeir geti ekki einu sinni sætt sig við þessa till. Og vil ég þá lýsa því yfir, að ég get verið fylgjandi hverri þeirri till., sem viðfelldnari gæti talizt fyrir sveitarfélögin, ef hag Tryggingastofnunarinnar væri þá jafnframt ekki miður borgið.

Ég sagði í upphafi, að ég mundi ekki svara, eins og raunar væri þó maklegt, ummælum, sem féllu hér í minn garð fyrir helgina. En hins vegar vil ég taka fram, að mér fannst í ummælum hv. 4. þm. Reykv. gæta nokkurs misskilnings á aðstöðu sveitarfélaganna fyrr og nú til fátækraframfærslu og afstöðu sveitarsjóðanna til trygginganna. Ég segi um þetta í nál. mínu, að það sé nú komið í ljós, að tryggingalögin létti alls ekki fátækraframfæri af sveitarfélögunum; en sú skoðun var höfð uppi, að þau mundu gera það að miklu leyti. En í þessu sambandi er mjög villandi, eins og hv. 4. þm. Reykv. lét sig hafa, að gera samanburð á fátækraframfærslunni fyrir stríð, eða 1936, og framfærslunni nú á síðari árum, þegar hún hefur fallið niður að miklu leyti, miðað við það, sem áður var. En það er ekki vegna tryggingalaganna, heldur fyrst og fremst vegna stórbættrar afkomu alls almennings. Og það eru fullkomnar blekkingar að bera það fram, að það séu tryggingarnar, sem létt hafi þessum gjöldum af sveitarsjóðunum, svo að þau hafi ekki orðið nema 7–9% af útgjöldum þeirra 1947. Og þó þau væru það þá, þá er hlutfallið strax allt annað nú, þegar því góðæri er lokið, sem þá var í landinu.

Þá var hv. þm. enn fremur með þá röksemdafærslu, að þær uppbætur, sem til fólksins í sveitarfélögunum rynnu, væru hærri en þau gjöld, sem þaðan kæmu frá hinum tryggðu. En þetta gefur alls ekki rétta mynd af því, hver útkoman verður fyrir sveitarsjóðina, og hér kemur féð í allt annan stað niður en uppbætur til fátækraframfærslu áður fyrr. Hv. 4. þm. Reykv. er þetta vel ljóst, og hann getur ekki lagt áherzlu á þessa röksemdafærslu. Hann sagði, að þessar tryggingabætur yrðu að skattstofni fyrir sveitarfélögin. Mjög víða eru tryggingabæturnar alls ekki notaðar sem skattstofn fyrir sveitarfélögin. Ég get ekki fullyrt um það, nema þar, sem ég er kunnugastur, í mínu sveitarfélagi, en þar hafa bætur ekki verið notaðar sem skattstofn fyrir útsvarsálagningu, því ég lít svo á, að þær bætur séu ekki nema að litlu leyti bætur fyrir þau áföll, sem viðkomandi hefur orðið fyrir og tryggingunum er ætlað að bæta, en þær megna á engan hátt að bæta úr þessu. En þau almennu atriði, sem ég hef leyft mér að benda á í nál. og framsögu, eru frá mínu sjónarmiði augljóslega þau, að eins og komið er, er ekki hægt að ætlast til þess, að sveitarfélögin geti tekið við auknum álögum, sem vitanlega lenda beint á fólkinu, sem í þeim býr; það er ekki hægt lengur, því að það er komið að þeim mörkum, sem hægt er að fara, um álagningu skatta á fólk, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ég álít þegar komið yfir þau, og ákvæði til þess að herða á innheimtunni, eins og hér liggur fyrir, hljóti að leiða til þess, að sveitarfélögin verði að beita slíkum aðferðum til þess að ná inn bæði þessum gjöldum og öðrum, að það verði alls ekki við það unað og verði til þess, að menn fáist ekki til að standa í því að leggja slík gjöld og skatta á meðborgara sína og innheimta þau með hörkubrögðum, svipuðum eða verri en þeim, sem nú er lagt til, að ríkið beiti þessi sveitarfélög til þess að ná inn þessum gjöldum. Ég hygg, að það komi að því, að færri og færri menn vilji gefa sig í það að vera innheimtumenn fyrir ríkissjóð, án þess að vera til þess knúðir. Ég álít því, ef ákvæði þessa frv. verða samþ., að það muni sýna sig, að þau mundu vekja andúð þeirra, sem fyrir þeim verða, bæði forráðamanna og starfsmanna sveitarfélaganna og fólksins, svo að það mundi alls ekki borga sig eða vera heppilegt fyrir Tryggingastofnun ríkisins að samþ. þau eins og þau nú liggja fyrir.