29.01.1951
Efri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

156. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Varðandi 4. gr. frv. þá vildi ég taka undir það, sem hér er látið uppí, að mér finnst of langt gengið í því að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og tek undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að mér virðist vera réttara, í stað þess að hafa þá aðferð, sem hér um ræðir, að breyta reglunum um eftirlit með sveitarfélögum. Hins vegar get ég ekki séð, að meiningamunur sé að þessu leyti á þeirri brtt., sem hér er komin fram, og frv. Mér virðist hún að meginefni hafa alla þá sömu ókosti, sem frv. hefur, frá sjónarmiði sveitarfélaganna, og ég get því fyrir mitt leyti alls ekki stutt þá till. Það er tekið fram fyrir hendurnar á sveitarfélögunum með þeim hætti, sem verður að telja mjög hæpið, til þess að efla sveitarfélögin í því að reyna að sjá sér sjálfum farborða og kunna fótum sínum forráð. Mér finnst því, að þetta ákvæði sé ekki með öllu heppilegt. Hitt skil ég vel, að menn hafi hugleitt, hverjar ráðstafanir skyldi gera til þess að reyna að ýta undir innheimtuna, vegna þess að vitanlegt er að hún hefur gengið treglega, og ég kvaddi mér hljóðs til þess að koma því á framfæri, að þessi gr., hvort sem hún er samþ. óbreytt eða með brtt., er óheppileg. Ég vildi því skjóta því fram, hvort Tryggingastofnuninni virðist ekki eðlilegt að leggja þau gjöld, sem hér eru lögð á sveitarfélögin, beint á gjaldendurna og sjá sjálf um innheimtuna á þeim; þá þyrfti hún ekki að eiga í neinu stappi við sveitarfélögin með innheimtu á þeim, og þá væri engin hætta á því, að þannig færi, eins og hv. þm. Vestm. gat um, að peningarnir væru innheimtir og þeim varið til einhvers annars. Hv. 4. þm. Reykv., sem hér talar sérstaklega fyrir hönd Tryggingastofnunarinnar, taldi það líka vera mikilvægan þátt í þessu máli, að bæjarstjórnirnar legðu í þetta fé. Nú má segja, ef þetta er þannig, sem beinn nefskattur, að þá kæmi það óréttlátlega niður, en þá er líka hægt að hugsa sér, að tillaginu til Tryggingastofnunarinnar væri jafnað niður eftir sömu reglum og sams konar gjaldstiga eins og útsvör eru lögð á, og svo, í stað þess að sveitarfélögin ættu að sjá um innheimtuna, þá tæki Tryggingastofnunin sjálf að sér að gera þetta. Með því móti fyndist mér, að Tryggingastofnunin slyppi fram hjá þeirri hættu, sem menn gera hér mest úr, að sveitarfélögin misfari með féð, og hún geti þá sjálf annazt um það, að innheimtan gangi skörulega fyrir sig, og aðeins sé tryggt, að hæfilega sé tekið tillit til mismunandi efnahags manna við niðurjöfnun gjaldanna. Það kunna að vera á þessu einhverjir örðugleikar, en mér fyndist rétt að athuga, hvort þessi lausn á málinu geti ekki komið til greina.