30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

156. mál, almannatryggingar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég held, að það væri nú þess vert, að tekin væri til athugunar sú ábending um innheimtu gjalda til almannatrygginganna, sem komið hefur fram hjá hæstv. dómsmrh., og mundi vinnast mikið við það. Við það ynnist það, að þau óhamingjusömu bæjar- og sveitarfélög, sem komizt hafa í stórskuldir við Tryggingastofnunina, yrðu ekki útsett fyrir álas á Alþingi, jafnvel frá þeim, sem settir eru til að þjóna þeim, eins og mér fannst dálítið gæta í ræðu hv. 4. þm. Reykv. á síðasta fundi. En honum er ekki láandi, þó að hann beri sig dálítið illa yfir vanskilunum, og mundu fleiri gera í hans sporum. En til er sú leið til að gera þetta öruggara fyrir Tryggingastofnunina að sneiða alveg hjá afskiptum bæjar- og sveitarfélaga af þessum innheimtum. Og ég vil, að það sé tekið til athugunar að losa bæjar- og sveitarfélögin við þessa innheimtu. Þau hafa alveg nóg á sinni könnu til að angra gjaldendurna með, þó að það bætist ekki við að innheimta gjöld fyrir ríkið eða ríkisstofnanir. Það er þess að gæta, að ríkið hefur sína eigin innheimtumenn, og ef þeir væru látnir annast um þetta, þá yrðu ekki fyrir þær freistingar að grípa til þessara peninga til að greiða fram úr aðsteðjandi vandræðum, eins og vill henda hjá bæjar- og sveitarfélögum, þar sem ýmisleg óvænt útgjöld geta komið fyrir, sem ekki er gert ráð fyrir á fjárhagsáætlunum. Slíkt mundi ekki koma fyrir, ef sýslumaður, bæjarfógeti, hreppstjóri — og ég tali nú ekki um — sérstakur innheimtumaður sæi um þessa innheimtu. Hæstv. félmrh. talaði svo áðan, að ég held, að hann hafi misskilið mig. En hann sagði, að ég hefði verið með dylgjur. Ég sagði, að félagsmálaráðuneytið gæti samkvæmt lögum haft full afskipti og stjórn á fjárreiðum bæjar- og sveitarfélaga, ef um slíkt er beðið eða hlutaðeigandi aðili stendur ekki í skilum, og ég bar þessa leið saman við þá leið, sem farin er í frv. Ég taldi réttara að fara fyrri leiðina heldur en að búa til þetta skábretti, og fara heldur þá leið um innheimtu til almannatrygginganna og ýmsar aðrar innheimtur, sem hægt væri að ná inn á annan hátt en þann að leggja hald á hluta útsvara. Og það var þessi síðari leið, sem ég átaldi, leiðin, sem felst í þessu frv., sem hér er til umr. Ég vil alls ekki viðurkenna, að ég hafi verið með dylgjur, en það má ef til vill segja, að ég hafi verið með ákúrur.

Þá er það annað, að hæstv. ráðh. taldi sig ekki hafa skilið mig, þegar ég taldi, að ef þessi háttur væri á hafður, mundi það hvetja forráðamenn bæjar- og sveitarfélaga, sem komin væru í slík vanskil einhvern tíma á fjárhagstímabilinu, að ríkissjóður fyrir hönd trygginganna hremmdi hluta af útsvörunum, til að áætla útsvörin hærri en þeir annars mundu gera. Ég veit ekki, hvort þetta er nægilega skýrt til þess að hv. þm. skilji það, en hæstv. félmrh. skildi það ekki, — en það er þó auðskilið. Allar bæjarstjórnir bera ábyrgð á því, að allar þær framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að gera á árinu, nái fram að ganga, en verklegar framkvæmdir byggjast á því, að til sé nægilegt fjármagn til þeirra. Ég veit, að öll bæjar- og sveitarfélög vilja standa í skilum um fé til menntamála, samgöngumála, heilbrigðismála o.s.frv. Fjárhagsáætlun hvers árs er við þetta miðuð, og okkur er vel kunnugt, að tekjulindir bæjar- og sveitarfélaga eru sáralitlar fram yfir útsvörin, og eru þau því þungamiðjan í tekjum þessara aðila. Ég vil geta um það í þessu sambandi, að nauðsynlegt er, að ríkisvaldið, sem stöðugt er að íþyngja þessum aðilum með síauknum kröfum, sjái þeim fyrir nýjum tekjuliðum við hliðina á útsvörunum. Það er farið að bera allmikið á því úti um land, að innheimta gjalda dregst eða bregzt, svo að ekki er heppilegt, að afkoma bæjar- og sveitarfélaga og það, hvort þau standa í skilum með þau gjöld, sem þeim ber að inna af hendi, byggist einvörðungu á útsvörunum. Þetta var nú hliðarspor, en snertir þó málið sjálft allmikið. Við skulum nú gera ráð fyrir, að tekjur og útgjöld bæjarfélags næmu 1 millj. kr. á fjárhagsáætlun ársins, og er þá ekki ólíklegt, að undir slíkum kringumstæðum ættu útsvör að standa undir 7/10—8/10 hlutum útgjaldanna, og hitt væri þá sá tekjureytingur, sem bæjar- og sveitarfélög hafa utan útsvara. Ef útsvörin næmu nú 800 þús. kr. á þessum stað, og auk þess væri bæjarfélagið skuldugt sem næmi nokkrum hundruðum þúsunda króna, ýmist gömlum eða nýjum skuldum, og fyrirsvarsmenn bæjarins vissu, að einhvern tíma á árinu fengju þeir kveðju frá innheimtumanni ríkisins um það, að þeim bærí að skila 10–20% af útsvörunum til Tryggingastofnunarinnar, — þegar allt þetta væri á vitorði manna þeirra, sem semdu tekjuáætlun ársins, væri þá nema eðlilegt, að þeir hefðu útsvarsupphæðina ívið drýgri en þeir hefðu annars gert, til að vega upp á móti yfirvofandi kröfu? Ég held, að hverjum manni ætti að vera þetta auðskilið mál og að með þessum ráðstöfunum er enn verið að þrengja kost gjaldendanna. Þetta er ný svipa á þá, sem standa undir gjöldunum hverju sinni. Hæstv. ráðh. sagði um það opinbera eftirlit og afskiptasemi, sem hér er verið að koma á, að hann hefði gert allt, sem í hans valdi stóð, til að koma í veg fyrir, að til þessa ráðs þyrfti að grípa, og ég efa ekki, að hæstv. ráðh. sé einlægur í þessu máli. En hann hefur ef til víll horft um of á þá hlið málsins, sem að stjórnendunum snýr, — en svo er til önnur hlið á því, sú, sem að gjaldendunum snýr. En stjórnarvöldin verða að athuga það, að ekki má ganga of hart að gjaldendunum og samfélagi þeirra, og ef eitthvað fer miður í fjármálastjórninni, þá ber ríkissjóði að hjálpa bæjarfélögunum með ráðum og dáð til að koma atvinnumálum og stjórn bæjarmála í viðunandi horf. Og það er vissulega í þágu fólksins, að hið opinbera, í þessu tilfelli félagsmálaráðuneytið, hafi opin augun fyrir því, sem miður fer í stjórn bæjar- og sveitarfélaga. Því er það, að ég sem borgari í bæjarfélagi lít fjarskalega svörtum augum á þetta, þótt félmrn. beiti þeim ákvæðum, sem lögin segja til um og heimilað er af ríkisvaldinu og því er skylt að beita í þeim tilfellum, sem lög gera ráð fyrir. Sú leið, sem ég leyfði mér að kalla hina skemmstu leið prókúratorsins, tekur aðeins til greina það þröngsýna sjónarmið innheimtumannsins að ná inn sinni skuld, — leið, sem notuð er til þess að grípa til sín bæði stóran og lítinn hluta þeirra útgjalda, sem fjármálanefndir sveitarfélaganna eru búnar að ráðstafa til annarra hluta, leið, sem ég álít, að hvorki ráðuneytið né Tryggingastofnunin geti verið stolt af að fara.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist hér á aðra innheimtuaðferð, sem hann taldi frekari, aðferð, sem stofnunin hefði mátt nota, en ekki gert. En brautin, sem lagt er til, að farin verði, er nægilega niðurlægjandi fyrir sveitar- og bæjarfélögin til þess, að hægt sé að telja, að hún sé algerlega ófær.

Ég ætla ekki að þreyta hv. deild með frekari ræðu um þetta. Ég hef leitazt við að gera skýra grein fyrir því, hvers vegna ég áfellist þessa aðferð, og ég efast ekki um, að þetta frv. eigi eftir að valda miklum átökum innan þingsins og vekja mikla óánægju um landsbyggðina, sem kannske mundi koma ómaklega niður á tryggingunum sjálfum, þótt það fari út úr þessari hv. deild. Og ég hygg, að mörgum sveitarstjórnum finnist nálægt sér höggið með þessari innheimtuaðferð, sem hér er stungið upp á, að tekin verði upp.

Niðurlagið á ræðu hæstv. forsrh. var á þá leið, að hann óskaði eftir, að sú leið, sem hér er farið fram á að nota, megi verða samþ. Það eru rök í sjálfu sér að drifa málið í gegn, en það haggar ekki við þeirri staðreynd, að frv. er gallað, og ekki hrekur það heldur einn staf af því, sem sagt hefur verið á móti þeirri leið, sem stungið er upp á.

Ég mun því ekki treysta mér til þess að fylgja þessu máli út úr deildinni með þeim ákvæðum, sem ég hef lýst, þrátt fyrir það, að það er fram komið frá hæstv. ráðh., jafnvel þótt brtt. hv. 7. landsk. verði samþ., og skal ég þó viðurkenna, að hún horfi til bóta.

Þetta er 2. umr., eins og kunnugt er, og getur vel farið svo, að eitthvað nýtt komi fram við 3. umr., sem geti gert afgreiðslu málsins aðgengilegri, en eins og nú horfir, finnst mér rétt að vera á móti málinu.