01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

156. mál, almannatryggingar

Pétur Ottesen:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð. — Mér skilst af þeim umr., sem hér hafa fallið, að menn leggi allt of mikla áherzlu á þau ákvæði 3. gr., sem mér finnst útiloka þann skilning, sem þeir leggja í þau. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu á framlagi sínu til Tryggingastofnunar ríkisins í eitt ár eða lengur, og er ráðherra þá heimilt að ákveða, að hald skuli lagt á allt að 25% álagðra útsvara í sveitarfélaginu og sá hluti útsvara jafnan greiddur innheimtumanni ríkissjóðs jafnóðum og útsvör innheimtast, mánaðarlega eða ársfjórðungslega, eftir því sem innheimtumaður krefst, og skal sú skipan haldast þangað til skuld sveitarsjóðs við Tryggingastofnunina er að fullu greidd“.

Til þessara ráðstafana kemur ekki nema vissa sé fyrir um, að sveitarfélögin hafi getað greitt, en vanrækt greiðsluna að þarflausu, ef t.d. fjárhagsgrundvöllur er fyrir því, að greiðslan sé innt af hendi, en stjórn fjármálanna hagað þannig, að þessar greiðslur eru látnar sitja á hakanum fyrir öðrum greiðslum, sem ef til vill hefði mátt komast hjá. Ég skil greinina þannig, að ríkisstjórn geti ekki gripið til þessara ráðstafana nema það liggi skýrt fyrir, að um vanrækslu sé að ræða.

Afkoma sveitarfélaganna veltur á því, að fyrir hendi sé gjaldgeta borgaranna til að standa undir byrðunum. Það kemur stundum fyrir, að þau skilyrði eru ekki fyrir hendi í sumum sveitarfélögum, að af þessum ástæðum sé ekki hægt að ljúka öllum greiðslum. Þegar svo er ástatt, er ekki fyrir hendi heimild fyrir ríkisstj. að grípa inn í með þessum hætti, þegar sannanlegar ástæður eru fyrir greiðslufallinu. Þess ber að gæta, að á móti því gjaldi, sem sveitarfélögin inna af hendi til Tryggingastofnunarinnar, kemur mikið fé inn í sveitarfélögin. Fer eftir atvikum, hvort það fé er eins mikið og gjöldin, en það er alltaf mikið fé, sem fer til sveitarfélaganna frá Tryggingastofnuninni. Eru því sterkar líkur fyrir því, að það stafi ekki af vanrækslu, að gjöldin eru ekki greidd.

Ég vildi leyfa mér að óska, að hæstv. forsrh. hlustaði á mál mitt og hugleiddi þann skilning, sem ég hef varpað hér fram um aðstöðu ríkisstjórnarinnar til að grípa hér inn í. Ég álít, sem sé, að ríkisstj. þurfi að geta gripið inn í, þegar svo er ástatt sem ég hef lýst. Ég legg því áherzlu á, að ríkisstj. verði að gæta fyllstu varúðar í innheimtu þessara gjalda og grípa aðeins til þessara ráðstafana, ef málið liggur þannig fyrir, að augljóst er, að aðeins er um vanrækslu að ræða.

Þær umr., sem hér hafa orðið, gefa ástæðu til að menn geri sér ljóst, hve mjög í lausu lofti og óörugg afkoma sveitarfélaga hér á landi er, með þeirri skipan sem er á tekjuöflun þeirra. Veldur þar um misjafnt árferði o.fl. Eins og tekjustofnum sveitarfélaganna er nú hagað, er tekjuöflunin aðeins innan þess svæðis, sem sveitarfélagið nær yfir, niðurjöfnun gjaldanna eftir efnum og ástæðum. Víðast er svo, að það eru engar aðrar tekjur, sem renna í sveitarsjóð, en þær, sem koma .eftir útsvaraleiðinni. Að þessu leyti eru stærri kaupstaðir, t.d. Reykjavík, betur settir. Þar hafa risið upp fyrirtæki o.fl. En þegar ekki er upp á annað að hlaupa en útsvörin ein, þá er það of ótraustur grundvöllur hjá sveitarfélögunum til að geta alltaf staðið undir greiðslum. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis að skapa meira öryggi í þessum efnum, þannig að þetta verði ekki jafnháð því, hvernig atvinnu vegnar á hverjum tíma á því takmarkaða svæði, heldur verði gjaldabyrðinni dreift. Þessu til úrbóta ættu sveitarfélögin að fá aðra tekjustofna, og sé ég ekki betur en að ríkið verði að sjá af einhverjum tekjustofnum handa sveitarfélögunum. Sveitarfélögin eru orðin svo stórar stofnanir, að nauðsynlegt er að gera öryggisráðstafanir til þess að tryggja afkomu þeirra, en það er mjög mikið öryggisleysi ríkjandi varðandi afkomu þeirra margra meðan þau hafa ekki aðra tekjustofna en þau nú hafa.