01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

156. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð. — Hv. 2. landsk. þm. var dálítið úfinn yfir því, að ég sagði, að hann manaði ráðuneytið til að beita ákvæðunum um að setja sveitarfélögin undir opinbert eftirlit. Þetta er nú aðeins orðaleikur. Þrisvar í ræðu sinni nefndi hann þetta og beindi því til ráðun., að þetta ætti að nota. Ég get reyndar gert honum það til geðs að vera honum sammála um, að þetta hafi ekki verið þannig. Það var misskilningur hjá hv. 2. landsk. þm., að með þessum ákvæðum væri verið að setja öll sveitarfélög undir einhvern ákveðinn hamar. Það eru öll sveitarfélög á landinu undir þeim sama „hamri“, ef við eigum að segja það svo. Það eru nú til lög, sem hægt er að setja sveitarfélög eftir undir opinbert eftirlit, t.d. þegar um er að ræða vanskil á greiðslum til almannatrygginganna, og það er hægt að gera með 6 mánaða fyrirvara. En það er ekki gengið lengra eftir ákvæðum þessa frv. — á þann veg, sem þar er til tekið, — að um vanskil verður að vera að ræða í heilt ár, áður en þessum ákvæðum er beitt. Þetta er hugsað sem millistig, sem á að hindra, að grípa þurfi til þess úrræðis, sem varhugaverðast er og harðast kemur niður á sveitarfélögum, þ.e.a.s. að setja þau undir opinbert eftirlit. Þetta er að mínum dómi aðalatriði málsins.

Rök hv. þm. varðandi það, sem ég hafði sagt um mismun á útgjöldum sveitarfélaga til almannatrygginganna annars vegar og til framkvæmdamála hins vegar, voru alls ekki sannfærandi. Hv. þm. sagði, að jafna mætti nákvæmlega niður rekstrarútgjöldum hafnarmannvirkja, rafveitna o.þ.l. En þessi mannvirki kosta oftast tvöfalt og þrefalt meira en áætlað er, þegar í þau er ráðizt upnhaflega.

Þá vil ég aðeins minnast á það, sem hv. þm. Borgf. og síðar 7. þm. Reykv. sögðu um skilning á 3. gr. frv. Ég ætla ekki að fara að deila við 7. þm. Reykv. um lögfræðileg atriði, ég veit, að hann stendur mér svo miklu framar í þeim efnum, og reikna ég með að það, sem hann segir, sé rétt skýring á orðalagi greinarinnar: „Nú vanrækir sveitarfélag“ o. s. frv. Hins vegar tek ég það fram, að ég lít mjög svipað á þetta og hv. þm. Borgf., að ráðuneytið mundi ekki nota þetta nema í þeim tilfellum, að hægt er að líta svo á, að um vanrækslu sé að ræða. Í þessu tilfelli kalla ég vanrækslu, í fyrsta lagi, ef sveitarfélag vanrækir að leggja á fyrir almannatryggingunum; vanræki sveitarfélag það, verður að beita einhverjum aðgerðum, og þá mætti nota þetta. Í öðru lagi, ef lagt er eðlilega á og útsvörin innheimtast eðlilega, en ekki er greitt til almannatrygginganna, þá er einnig um hreina vanrækslu að ræða, og þá álít ég sjálfsagt að nota þetta ákvæði. Ef útsvörin innheimtast aftur á móti ekki nema að hálfu leyti af því, að þrot er að verða á viðkomandi stað, þá verður að grípa til annarra ráðstafana og taka málin miklu fastari tökum. Ég vildi láta það koma fram, að ég sem ólöglærður maður vil leggja svipaðan skilning í þetta og þm. Borgf. gerði. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að það sé rétt hjá hv. 7. þm. Reykv., að það megi túlka þetta ákvæði á þann hátt, sem hann gerði.